Baulufoss

Google Maps
Ornefni Atlas Baulufoss 47D3

Baulufoss

Baulufoss er lítil flúð við Brúsastaðamýri, beint í norður séð frá Norðlingavaði á Öxará og skammt vestan Bakkaréttar. Fossinn er í ónefndri lækjarseytlu sem á upptök sín undan Brúsastaðabrekkum og rennur þaðan um Brúsastaðamýri (eða Mýrarkrók). Eftir stuttan spöl sameinast lækurinn lítilli tjörn. Þaðan hlykkist hann niður lágan hólahrygg í tveimur sytrum og myndar Baulufoss. Frá honum rennur lækurinn stutta vegalengd til suðausturs og myndar loks tjörn sem hverfur oft í þurrkatímum.

Baulufoss er rétt ríflega mannhæðarhár og getur því tæplega talist stórt vatnaörnefni. Hann er þó sérstakur að því leyti, að hann er aðeins annar af tveimur fossum innan þjóðgarðsins á Þingvöllum sem bera sérnöfn. Hinn fossinn er Öxarárfoss. Þrátt fyrir hóflega stærð er Baulufoss fagur ásýndum og mjólkurhvítur á lit. Hann sést glöggt úr fjarska þegar gengið er á undirlendinu og myndar hljómfagran nið sem brýtur upp þögnina þegar nær er komið.

Gamlar steinsetningar eru sjáanlegar báðum megin fossbrúnarinnar og aðra svipaða steinsetningu má finna nokkrum metrum austar. Einnig hefur verið hlaðið meðfram sprungubörmum á hryggnum 30–40 metrum vestan fossins sem líkist einhvers konar rétt eða aðhaldi. Frá hleðslunni liggur steinaröð norður að ónefndu tjörninni við mýrina. Götuslóði liggur hér fram hjá og virðist stefna í norðaustur inn að Hrútagili og Svartagili. Þar austar sést einnig í gamla girðingarstaura.

Baulufoss í frumheimildum

Ónefndur heimildarmaður segir svo í ódagsettri örnefnaskrá Svartagils:

„Baulufoss (7) rennur úr tjörninni (syðri?), sem er í Mýrarkróki (8). Fossinn er rétt vestan við gömlu réttir.“

Baulufoss í öðrum heimildum

Félagsmenn í fornleifahópnum FERLIR gengu að réttinni við Baulufoss árið 2007. Svo segir á heimasíðu þeirra:

„Gengið var til vesturs af mögulegum Grímastöðum og þar upp á melhól. Á honum var hálffallin varða. Neðan hólsins var hestagata. Henni var fylgt inn á Biskupsbrekkuhraunið. Á ysta rana þess hafði verið rofið haft til að létta á leysingarvatni í mýrlendinu ofanvert við það. Skammt vestar var hin fyrrnefnda gamla rétt, að mestu nýtt úr hraunsprungu, en hlaðið um betur á nauðsynlegum stöðum. Norðan úr inngangnum var hlaðinn leiðigarður. Þarna hefur líklega verið rúningsrétt fyrrum – þótt hún hafi nú fallið í gleymsku, eins og svo margt í og við þjóðgarðinn.“

Heimildir

Tengd örnefni