Bolaklif

Google Maps
Ornefni Atlas Bolaklif E51e

Bolaklif

Bolaklif er klif á sunnanverðum Sleðaási undir Ármannsfelli þar sem uppgengt er um ásinn milli Bolabáss og Krika. Héðan lá forna alfaraleiðin eftir Ármannsfelli og eru þar nú reið- og akvegir. Austan Bolaklifs er gömul fjárrétt Þingvallsveitar sem nefnist Bolaklifsrétt.

Bolaklif í frumheimildum

Kristján Magnússon, bóndi í Skógarkoti og hreppstjóri Þingvallasveitar, greinir frá framkvæmdum við Langastíg í bréfi til sýslumanns dagsettu 27. júní 1830 (sbr. Sunnlennskar byggðir III, bls. 177):

„Hér með gefst yður veleðla virðugleikum til kynna um vegabætur í Þingvallahreppi á þessu vori, og hef ég látið ryðja Almenningsveginn frá Hlíð suður að Bitru, Dyraveg yfir fjallið fyrir norðan Hengil, Nesjahraun frá Miðfellsfjalli til Hrafnagjár. Almenningsveginn frá svokölluðum Stelpuhelli til Hrafnagjár austur Hallinn og hraunið til Almannagjár. Norðlendingaveginn frá Öxará til Bolaklifs og þann svokallaða Langastíg yfir Almannagjá, sem menn ekki til vita, að nokkurntíma hafi klyffær verið [...].“

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir svo í riti sínu Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945, bls. 94:

„Af Hofmannaflöt var riðið niður með Ármannsfelli og austan-fram með Sleðaási, um Bolaklif og í Bolabás, sem er vestan-undir ásnum.“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Bolaklif inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.

Heimildir

Gunnar Þórisson & Pétur J. Jóhannsson. (1983). Þingvallasveit, sveitarlýsing. Í Sunnlenskar byggðir III (bls. 171–216). Búnaðarsamband Suðurlands.

Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.

Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.

Tengd örnefni