Bolaklifsrétt
Bolaklifsrétt er gömul fjárrétt og önnur af tveimur lögréttum Þingvallasveitar á fyrstu tveimur áratugum 20. aldar. Hún er staðsett upp við Bolaklif á Sleðaási, sunnan Ármannsfells og upp við gömlu alfaraleiðirnar sem lágu meðfram fellinu. Önnur leið, Réttargata, liggur frá réttunum suðaustur að Hrauntúni. Ekki er vitað hvenær Bolaklifsrétt var fyrst reist en hún var, ásamt Bakkarétt, aflögð 1925 með tilkomu nýrrar Þingvallaréttar við Skógarhóla.
Bolaklifsrétt er rétthyrnd í lögun og haganlega hlaðin úr hraungrýti. Víða er hún þó úr sér gengin – enda ónotuð í 100 ár – og hluti hennar er hulinn birkiskógi. Réttin skiptist í 12 dilka og almenningurinn tengist stóru safnhólfi að vestanverðu.
Bolaklifsrétt í frumheimildum
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, segir svo í sveitarlýsingu Gunnars Þórissonar um Þingvallasveit í Sunnlenskum byggðum III, 1983, bls. 176:
„Í Stekkjargjá er smá afgjá inn í efri gjábarminn, fjárheld á þrjá kanta. Þar var haldin skilarétt (hrútarétt) allt fram til þess að ný lögrétt var byggð 1925 suðvestan við Skógarhóla. Tvær lögréttir voru í hreppnum og þótti það óhagkvæmt. Önnur var útundir Brúsastaðamýri, rétt austan við Öxará, byggð á árunum 1890–1891. Var tilkynnt öðrum viðkomandi hreppum með auglýsingu í Ísafold að réttarbyggingin hæfist 9. júlí 1890. Hin réttin var austan við Bolabás ofan við Bolaklif. Bolaklifsréttin mun vera fyrsta lögrétt Þingvallasveitar og sú eina þar til réttin innan við Öxará var byggð.“
Pétur merkti Bolaklif jafnframt inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Hrauntúnsland og afrétti Þingvallahrauns sem rituð var í kringum 1980–1985:
„Vestan undir múlanum eru húsatættur sem hét Múlakot (15). Þar fyrir vestan er slétt svæði árunnið úr fjallinu notað sem keppnissvæði hestamanna. Austan við svæðið er all stór klettahóll og vestan við hann voru byggðar safn- réttir í staðinn fyrir réttina við Sleðás. 1924.“
Heimildir
Gunnar Þórisson & Pétur J. Jóhannsson. (1983). Þingvallasveit, sveitarlýsing. Í Sunnlenskar byggðir III (bls. 171–216). Búnaðarsamband Suðurlands.
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.