Botnssúlur
Botnssúlur (eða Súlur) er fjallaklasi í norðanverðri Þingvallasveit og eitt helsta kennileiti þjóðgarðsins á Þingvöllum. Botnssúlur eru vestan Gagnheiðar og Ármannsfells, sunnan Hvalfells og Hvalvatns og norðan Öxarárdals, Búrfells og Kjalar. Þær virðast jafnan hafa verið kallaðar Súlur en á síðari tímum hefur forskeytið Botn- (dregið af Botni í Hvalfirði) bæst framan við örnefnið og náð yfirhöndinni í daglegu máli og á kortum.
Helstu tindar Botnssúlna hafa gengið undir ýmsum nöfnum en eru nú yfirleitt kallaðir Syðstasúla (1093 m.y.s.), Miðsúla (1055 m.y.s.), Háasúla (um 1006 m.y.s.), Norðursúla (um 1004 m.y.s.) og Vestursúla (1086 m.y.s.). Austan í Botnssúlum er afar stórt misgengi sem nefnist Súlnaberg (954 m.y.s.) og eru þar ytri mörk sigdældarinnar á Þingvallasvæðinu. Þar fyrir neðan er stórt gil, Súlnagil, og vestan við það heita Fossabrekkur. Dalurinn milli Syðstusúlu og Vestursúlu kallast Súlnadalur og úr honum rennur Súlnaá. Fleiri örnefni má finna í fjallgarðinum utan þjóðgarðsmarka en ekki verður orðlengt um þau í þessari umfjöllun.
Um helmingur Botnssúlna er staðsettur innan þjóðgarðsins á Þingvöllum. Mörkin (sem áður voru mörk Þingvallabæjar) eru dregin frá upptökum Öxarár við Myrkavatn yfir í Háusúlu og þaðan til austurs að hátindi Gatfells.
Botnssúlur í örnefnaskrám
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.
Stóri-Botn. (e.d.). [Helgi Jónsson skrásetti.] Örnefnastofnun Íslands.
Svartagil. (e.d.). [Heimildamaður ókunnur, Guðjón Friðriksson skráði]. Örnefnastofnun Íslands.
Þorsteinn Bjarnason. (e.d.). Afréttur Þingvallasveitar. Örnefnastofnun Íslands.