Brúsastaðabrekkur
Brúsastaðabrekkur (eða einfaldlega Brekkurnar) er nafn á brekkum í landi Þingvalla norðaustan Brúsastaða. Nafn brekknanna er dregið af jörðinni Brúsastöðum sem hafði þær til vetrarbeitar.
Brúsastaðabrekkur eru eiginlegt framhald Kárastaðahlíðar og Djúpugrófarholts og fylgja landslagsstefnunni frá Öxará – þar sem hún rennur niður á undirlendið ofan Brúsastaða – inn að rótum Ármannsfells nálægt Svartagili. Örnefnið Brúsastaðabrekkur virðist þó iðulega lýsa hluta brekknanna ofan Brúsastaðamýrar. Norðaustan mýrarinnar er lágur ás sem nefnist Sandhóll og er að hluta til áfastur brekkunum á vesturhliðinni. Norðan hólsins er Grímagil og hefur hluti brekknanna þar kallast Grímagilsbrekkur.
Brúsastaðabrekkur í frumheimildum
Landamerkjaskrá Þingvallabæjar, undirrituð af séra Jens Pálssyni Þingvallapresti 1886 og þinglýstri 1890, tilgreinir eftirfarandi um Brúsastaðabrekkur:
„Í Brúsastaðalandi eiga Þingvellir rjett til beitar á svonefndu Þingi móts við Þingvallabæ, og í Almannagjá; og til slægna í Hestagjá. – En þar á móti á kirkjujörðin Brúsastaðir torfristu í Brúsastaðamýri og vetrarbeit á Brúsastaðabrekkum.“
Haraldur Einarsson, sem fæddist á Brúsastöðum 1913 og ólst þar að mestu upp til 23 ára aldurs, segir svo í örnefnaskrá Brúsastaða frá 1981:
„Í Þingvallalandi, beint á móti Brúsastaðabæ, er Brúsastaðamýri. Hún er fyrir neðan Brúsastaðabrekkur.“
Ónefndur heimildarmaður segir svo í ódagsettri örnefnaskrá Svartagils:
„Baulufoss (7) rennur úr tjörninni (syðri?), sem er í Mýrarkróki (8). Fossinn er rétt vestan við gömlu réttir. Í Mýrarkrók er hóll, sem nefnist Sandhóll (9). Mýrin er fyrir vestan Grímugil (10). Fyrir ofan mýrina eru Brekkurnar (11). Meðfram þeim, við lækinn, fyrir austan Sandhólinn eru rústir, Grímukot (12). Þaðan var Hörður Grímkelsson.“
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Svartagilsland sem rituð var í kringum 1980–1985:
„Landið upp frá Tæpastíg (11), þar sem þjóðvegurinn liggur er kallað Bakkar (12). Á þeim ofarlega eru gamlar rústir frá býli, Bárukot (13), og nokkru ofar nær brekkum, sem kallast Brúsastaðabrekkur (14), eru grónar flatir og þar tættur, Grímastaðir (15). Þar fyrir austan er all stórt gil, Grímagil (16).“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Brúsastaðabrekkur inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.