Brúsastaðamýri
Brúsastaðamýri (stundum kölluð Skógarkotsmýri) er mýri í landi Þingvalla neðan Brúsastaðabrekkna. Mýrin er aflöng og snýr samhliða brekkunum og afmarkast af Öxará í vestri og Sandhóli í austri. Þar heitir Mýrarkrókur milli hólsins og brekknanna. Lítill lækur rennur um austanverða mýrina og myndar Baulufoss. Þar eru gamlar hleðslur og götuslóðar.
Brúsastaðamýri var ljáð Skógarkotsbændum á 19. öld og var hún lengi vel eini verulegi slægjublettur þeirra. Í lok sömu aldar fengu Brúsastaðabændur afnot af mýrinni og rétt til torfristu. Áveita var gerð í Brúsastaðamýri milli 1916–1918 og vatnið tekið úr Öxará. Greinilegir skurðir sjást enn í mýrinni og teljast nú aldursfriðaðar fornleifar. Líklegast hefur þetta verið skammlíf tilraun og ekki er að sjá að skurðunum hafi verið viðhaldið síðan.
Mýrin er sögð hafa verið varpsvæði keldusvíns fram yfir 1950.
Brúsastaðamýri í frumheimildum
Guðmundur Erlingsson frá Þrándarstöðum, sem ólst upp á Brúsastöðum 1709 til 1737, lýsir landamerkjum uppeldisslóða sinna í bréfi frá 18. öld, sbr. Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni eftir Matthías Þórðarson, 1945, bls. 284–285, hér með nútímastafsetningu:
„Búrfellsgil að ofan allt til Kjóavalla. Þaðan yfir þvert í krikann, sem kallaður var, og liggur til landnorðurs af Brúsastaðamýri – eða glöggvara að segja í stein stóran á lágu brekkunni fyrir ofan krikann – og þaðan bein sjónhending eftir endilöngu hrauninu fram á gjána mitt á milli Langastígs og Tæpastígs.“
Jón Kristjánsson, bóndi í Skógarkoti, auglýsir einkaafnot Skógarkotsbænda í Brúsastaðamýri 15. maí 1865, sbr. Þjóðólf, 03.06.1865, bls. 130:
„Mörgum mun vera kunnugt um slægnaleysi í Þingvallasveit, einkum fyrir austan Almannagjá, hvaðeð helzt áhrærir Þingvallahjáleigur, með þeirra óskiptu landi og litlu og óákveðnu, er máske hefir orsakað ágreining milli búenda. Nú til að ráða úr þessu, hefir húsbóndi vor, prófastir síra S.D. Bech, heimilað mér, sem slægjupláss, svo kallaða Brúsastaðamýri, fyrir norðan Öxará, og bið eg því hér með alla góða menn, og fyrirbýð öllum, að á eða hleypa hestum eða gripum sínum í fyrnefnda mýri, einnig að yrkja, og vona eg að allir líti góðfúslega á þessa þörf mína.“
Hannes Guðmundsson, bóndi í Skógarkoti, auglýsir bann við torfristu í Brúsastaðamýri 8. maí 1889 sbr. Ísafold, 18.5.1889, bls. 180:
„Það sem mjer, er með byggingarbrjefi frá 1. apríl 1884, gjört að skyldu og skilyrði fyrir varanlegri ábúð m. fl., að rækta kostgæfilega engjaberjur og ljá ekki torfskurð, þá fyrirbýð jeg hjer með öllum að rista torf í Brúsastaðamýri, í Þingvallakirkjulandi, því mýri þessi er sá eini engjablettur, sem ábúðarjörðu minni er útlagður til slægna, og hvergi annarsstaðar í landi jarðarinnar getur verið um torfskurð að ræða.“
Landamerkjaskrá Þingvallabæjar, undirrituð af séra Jens Pálssyni Þingvallapresti 1886 og þinglýstri 1890, tilgreinir eftirfarandi um Brúsastaðamýri:
„Í Brúsastaðalandi eiga Þingvellir rjett til beitar á svonefndu Þingi móts við Þingvallabæ, og í Almannagjá; og til slægna í Hestagjá. – En þar á móti á kirkjujörðin Brúsastaðir torfristu í Brúsastaðamýri og vetrarbeit á Brúsastaðabrekkum.“
Svo segir í Búnaðarriti, 1919, bls. 20:
„Gerð hefir verið áveita á Brúsastaða-mýri í Þingvallasveit, og vatnið tekið úr Öxará.“
Haraldur Einarsson, sem fæddist á Brúsastöðum 1913 og ólst þar að mestu upp til 23 ára aldurs, segir svo í örnefnaskrá Brúsastaða frá 1981:
„Í Þingvallalandi, beint á móti Brúsastaðabæ, er Brúsastaðamýri. Hún er fyrir neðan Brúsastaðabrekkur.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti mýrina inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu. Hann kallaði hana Skógarkotsmýri. Að auki merkti hann „Til Hrauntúns“ sunnarlega á mýrinni, nálægt Baulufossi. Þaðan sjást margir greinilegir slóðar sem virðast liggja til austurs í átt að Langastíg og Tæpastíg.
Kjartan G. Magnússon minnist á varpstöðvar keldusvíns í Þingvallasveit í grein sinni Birds of the Thingvallavatn Area frá 1992 og vitnar í Guðbjörn Einarsson frá Kárastöðum. Þar virðist átt við Brúsastaðamýri. Svo segir í greininni á bls. 391:
„The water rail used to breed in the bog by the farm Brusastadir in the northwest part of the region, but it has not been seen or heard since the 1950s (GE).“
[Íslensk þýðing: Keldusvín verpti í mýrinni nálægt bænum Brúsastöðum í norðvesturhluta svæðisins, en hvorki hefur sést til þeirra né heyrst síðan á sjötta áratug 20. aldar.]
Heimildir
Búnaðarrit. (1. og 2. tbl. 01.01.1919). Búnaðarfélag Íslands.
Haraldur Einarsson. (1981). Brúsastaðir [Jónína Hafsteinsdóttir skráði]. Örnefnastofnun Íslands.
Ísafold (18.05.1889), bls. 180.
Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.