Búr er vík í Þingvallavatni við rætur Arnarfells. Víkin er um 100 metra breið og er afmörkuð af bröttum nesjum í vestri og austri. Vestara nesið er stærra og á því stendur kletturinn Einbúi.
Vík þessi þótti góður veiðistaður áður fyrr. Nú er veiðibann í Búri milli 1. júlí og 31. ágúst ár hvert vegna hrygningar kuðungableikjunnar í Ólafsdrætti.
Búr í frumheimildum
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá Arnarfells frá 1982:
„Norðaustur af þessum rana [á Arnarfelli] er nes, sem gengur út í vatnið. Á því er stakur móbergsklettur, sem heitir Einbúi (24). Víkin innan við Einbúa heitir Búr (25). Þar er mikill veiðistaður.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Búr inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.