Búrfellsgil

Google Maps
Ornefni Atlas Burfellsgil 8400

Búrfellsgil

Búrfellsgil er um þriggja kílómetra langt gil í hlíðunum suðaustan Búrfells. Gilið á upptök sín sunnan fellsins, neðst í svonefndum Búrfellsdal og norðan Helluhóla. Dalurinn er mýrlendur og hefur mikill lækur runnið þaðan og sorfið sig í gegnum bergið í tímans rás. Víða er gilið um 20 metra djúpt. Búrfellsgil hlykkist í austurátt niður undan hlíðunum uns komið er að Kjóavöllum við Öxará, ofan Brúsastaðabrekkna. Þar rennur lækurinn úr gilinu út í ána.

Mörkin milli Brúsastaða og Þingvallabæjar lágu frá hæsta tindi Kjalar niður að Búrfellsgili og þaðan réð gilið mörkum niður að mynni þess að Öxará. Þaðan réð Öxará mörkunum niður að Þingvallavatni.

Búrfellsgil í frumheimildum

Haraldur Einarsson, sem fæddist á Brúsastöðum 1913 og ólst þar að mestu upp til 23 ára aldurs, segir svo í örnefnaskrá Brúsastaða frá 1981:

„Landamerki milli Brúsastaða og Þingvalla eru þannig samkvæmt landamerkjaskrá: Öxará neðan frá Þingvallavatni allt upp að Búrfellsgili, þá Búrfellsgil til upptaka sinna, þaðan bein stefna í há-Kjöl.“

„Þá er komið upp að Hellhólum (53) og farið nú upp með Búrfellsgili (54), en áður með Öxará. Hellhólar er nafn á nokkuð háum urðarhrygg, sem liggur frá austri til vesturs eins og þröskuldur fyrir framan Búrfellsdalinn. Hellhólar eru myndaðir úr hellum eða flögum. Búrfellsdalur (55) er vestan við Búrfell, og Búrfellsgil liggur austur úr honum í Öxará. Suðvestan við Búrfellsdalinn er Búrfellsháls (56), sem er að hluta til í landi Brúsastaða. Búrfellsháls er á milli Búrfellsdals og Kjálkárdals, sem er í Kárastaðalandi, og nær áfram upp í Kjöl (57). (Á ameríska kortinu er Búrfellsháls merktur beint suður frá Búrfelli, en það er ekki rétt.) Mýradrög eru upp með Búrfellsgili og Búrfellsdal upp í Kjalarhorn (58).“

Ónefndur heimildarmaður segir svo í ódagsettri örnefnaskrá Svartagils:

„[Landamerki:] Úr tjörninni yfir brekkuna í Kjóavelli (3) og síðan eftir Öxará (4). (Kjóavellir eru á móts við Búrfellsgil (5)).“

„Búrfellsgil (5), fyrir vestan Öxará, er fyrir vestan Kjóavelli (3). Búrfellsmýri (30) er Svartagilsmegin við Búrfell (31). Hún er í Brúsastaðalandi við ána.“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Búrfellsgil inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.

Heimildir

Tengd örnefni