Einbúi er 22 metra hár móbergsklettur sem skagar út í norðaustanvert Þingvallavatn á litlu nesi. Kletturinn, sem er neðst í rótum Arnarfells, er snarbrattur á öllum hliðum en kollur hans er gróinn.
Austan Einbúa er vík sem heitir Búr og þar fyrir austan eru örnefnin Fornasel og Ólafsdráttur. Örnefnið Arnarsetur er á fjallsranum ofan Einbúa.
Einbúi ákvarðar syðri mörk veiðibanns í Ólafsdrætti milli 1. júlí og 31. ágúst ár hvert.
Einbúi í frumheimildum
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá Arnarfells frá 1982:
„Þegar Innri-Sandskörðum sleppir, hækkar [Arnarfell], og þar gengur rani úr því til norðurs. Á honum er klettur, sem heitir Arnarsetur (23). Norðaustur af þessum rana er nes, sem gengur út í vatnið. Á því er stakur móbergsklettur, sem heitir Einbúi (24). Víkin innan við Einbúa heitir Búr (25). Þar er mikill veiðistaður.“
Kristján segir þá í svari við spurningalista (í kringum 1982–1985) sem starfsfólk Örnefnastofnunar samdi upp úr örnefnaskrá Arnarfells:
„Hvernig er Einbúi? Hár? C.a. 20 m.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Einbúa inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.