Fornasel

Google Maps
Ornefni Atlas Fornasel 7743

Fornasel er nafn á mannvirkjarústum við norðurenda Arnarfells. Rústirnar eru staðsettar í litlum, grösugum hvammi við rætur Hrafnagjár, um 20 metrum frá bökkum Þingvallavatns. Hér hefur að öllum líkindum verið selstaða þar sem búfénaður var hafður til beitar á sumrin og mjólkaður.

Engar áreiðanlegar sögur fara af þeim sem höfðu hér í seli, þótt selstaðan hafi almennt verið eignuð Þingvallabæ enda staðsett innan landareignar hans. Ekki er heldur ljóst hvenær selið var í notkun og engar rannsóknir hafa þar farið fram utan athugana á yfirborðinu.

Einhver stangveiði er stunduð við Fornasel á sumrin utan hrygningartíma kuðungableikjunnar í Ólafsdrætti. Troðningur liggur frá útskoti á Þingvallavegi vestur að selinu og forn alfaraleið liggur fram hjá því ofan Hrafnagjár milli Arnarfells og Hallstígs.

Lýsing á mannvirkjum

Lítið fer fyrir seltóftunum á jörðu niðri, því þær eru nú heldur lynggrónar og einhverjar trjáplöntur hafa fest rætur sínar í mannvirkjabrotunum. Nokkrar varasamar gjásprungur eru báðum megin við selið.

Selstaðan snýr SA–NV og skiptist í þrjú hólf sem hvert hefur sérinngang á syðri langhlið. Miðhólfið er stærst, 6 x 2,5 m að innanmáli. Greina má mögulega hólfaskiptingu í því austanverðu. Langveggirnir virðast bogadregnir. Hin tvö hólfin eru öllu minni, u.þ.b. 1 x 3 m að innanmáli og við inngang eystri hólfsins vottar fyrir örlítilli kró.

Fleiri mannvirkjabrot eru andspænis vestasta rýminu og gæti þar verið stekkur og/eða eldri mannvistarleifar. Aðrar þústir og dældir eru sjáanlegar nokkrum metrum suðaustar en ekki er ljóst hvort þær séu manngerðar eða náttúrulegar.

Fornasel í frumheimildum

Séra Björn Pálsson Þingvallaprestur merkir Fornasel á handteiknað kort af Þingvallsveit í sýslu- og sóknarlýsingu sinni 1840. Selið er ekki nafngreint í lýsingunni en álitið eign Þingvallabæjar

Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni segir svo í grein sinni Örnefni í Þingvallahrauni í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1937–1939:

„Upp-af Hallviki (24) er Veiðistígur (25) á Hrafnagjá. Veiðin undir Halli frá Forna-seli (26) (sem er grashvammur stór við vatn- ið, norðan-við Arnarfellsenda) tilheyrði Þingvöllum, og heitir pláss það Ólafsdráttur (27). Það var að mestu ljeð Gjábakka-bónda, og galt hann fyrir það veturgamla gimbur á vori hverju, og voru það víst góð skifti fyrir hann.“

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá Arnarfells frá 1982:

Í austurenda [Arnarfells], þar sem Hrafnagjá (26) gengur undir það, er grasi gróinn hvammur, sem heitir Fornasel (27). Þar eru gamlar seltættur (sel frá Þingvöllum). Þar innan við gengur gjáin út í vatnið.“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Fornasel inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.

Félagsmenn í fornleifahópnum FERLIR athuguðu Fornasel á vettvangi sumarið 2011. Úr þeirri ferð kom fyrsti þekkti uppdráttur af selinu og greinargóð lýsing á mannvirkjunum. Þar er meðal annars sagt:

„Í Fornaseli eru augljóslega bæði eldri og nýrri seltóftir. Þær eldri eru sunnan þeirra nýrri. Í þeim sést móta fyrir a.m.k. tveimur rýmum og virðast þau hafa verið óreglulegri en sjá má í nýrri seltóftunum. Í þeim eru fjögur rými; eldhús vestast, baðstofa og búr og hliðarrými austast. Gæti hafa verið fiskgeymsla. Stekkurinn er suðaustan við selið og sést móta fyrir honum.“

Gunnar Grímsson fornleifafræðingur myndmældi Fornasel vorið 2018. Hann lýsti helstu einkennum mannvirkjabrotanna út frá myndgögnunum í B.A.-ritgerð sinni Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél við Háskóla Íslands 2020. Sá hinn sami ritar þessa örnefnasamantekt og byggir á efni ritgerðarinnar, auk þess að styðjast við nákvæmar LiDAR-mælingar af Fornaseli frá maí 2025 og fornleifaathugunum frá 2011.

Heimildir

Tengd örnefni