Grettishaf

Google Maps
Ornefni Atlas Grettishaf Deed

Grettishaf

Grettishaf (eða Grettistak) er steinn nokkur í Þingvallasveit sem Grettir hinn sterki Ásmundarson er sagður hafa lyft í Grettis sögu. Lýsing sögunnar tilgreinir staðsetningu hans í grasflöt undan Sleðaási við Ármannsfell. Nákvæm staðsetning Grettishafs er þó umdeild og bent hefur verið á líklega samblöndun milli örnefnanna Sleðaáss – sem var stundum nefndur Sleðaháls – og Tröllaháls sem er norðan við Ármannsfell. Þar hefur stóru aflraunabjargi einnig verið lýst.

Á undanförnum áratugum hefur örnefnið gjarnan verið tengt við feiknamikinn, rétthyrndan grjóthnullung í Bolabási við vestanverðar rætur Sleðaáss, fáeinum metrum norðan ak- og reiðveganna um Bolaklif. Langhlið steinsins er tæpir tveir metrar og þyngdin vegur líklega yfir eitt eða tvö tonn. Fast sunnan við hann er niðurgrafinn steinn eða klöpp og enn annar steinn, öllu minni, sést 10 metrum norðaustar. Enn aðrir steinar hafa komið til greina og má þar nefna einn sem stendur upp við reiðgötuna í miðju Bolaklifi. Ljósmynd af honum frá 1929 hefur varðveist og virðist hann mun raunsærri aflraunasteinn en klettarnir neðan Sleðaáss.

Grettishaf er eitt af fjölmörgum Grettistökum á Íslandi og eiga þau það flest sameiginlegt að teljast öllum mönnum ofurefli. Hér má telja að komið sé út fyrir fræðilegar umræður um sannleiksgildi Grettis sögu og inn í almennar þjóðsagnahefðir. Staðsetning Grettishafs við Sleðaás, við umræddan grjóthnullung, fær því að haldast óhreyfð í bili.

Grettishaf í frumheimildum

Svo segir í 16. kafla Grettis sögu Ásmundarsonar, eftir að söguhetjunni var dæmdur fjörbaugsgarður á alþingi:

„En er þeir riðu af þingi, höfðingjarnir, áðu þeir uppi undir Sleðaási, áðr en þeir skilðu. Þá hóf Grettir stein þann, er þar liggr í grasinu ok nú heitir Grettishaf. Þá gengu til margir menn at sjá steininn, ok þótti þeim mikil furða, at svá ungr maðr skyldi hefja svá mikit bjarg.“

Sveinn Pálsson getur Grettishafs við Tröllaháls (sem hann nefnir Sleðaháls) í ferðabók sinni sumarið 1792. Svo segir í íslenskri þýðingu Ferðabókar Sveins Pálssonar frá 1945, bls. 106:

„Skammt [norðan Sandvatns/Sandkluftavatns] fyrir norðan er lágur háls, sem Sleðaháls [Tröllaháls] heitir. Rétt fyrir ofan hann er stór steinn, sem hvílir á öðrum smærri steinum. Þetta er eitt af hinum svonefndu Grettistökum (sbr. Ferðabók Eggerts og Bjarna, 616 bls.). Steinninn er fullir 4 faðmar að ummáli og faðmur á hæð. Það er þó sagt skýrum orðum í Grettis sögu, að Grettir hafi aleinn verið að bisa við það mestan hluta dagsins, meðan förunautar hans sváfu, að ganga svo frá steini þessum. Þetta er algerlega gagnstætt þeirri tilgátu Eggerts, að margir menn hafi hjálpazt að því að reisa slíka steina.“

Séra Páll Þorláksson Þingvallaprestur skrifar um Grettishaf í fornleifaskýrslu sinni 8. ágúst 1817. Segir svo í Frásögum um fornaldarleifar, 1983, bls. 219–220:

„Þad sem gétur um í Grettirs Sögu XVIIJ Cap. ad þá höfdingiar hafe rided af Þínge, og ád under Sleda-Asi, hafe Grettir hafid Stein þann, er þar liggi í Grasinu, og nú heite Grettis-haf vita menn ej hvernig vera muni; því þar sem nú heitir Sleda Háls (líklega sama og Sleda-As) sudur úr Ármanns Fialle, er eingann þesshattar Stein ad finna, enn fyrir nordann Armannsfiall nordur á Afrétte er Háls, sem nú er kalladur Trölla-Hals, er máské hefur þá heitid Sleda-As; nordann under tedum Halse liggur á slettum Mel, austannverdt við Alfaraveg Nordlendinga, á sudurland, Steinn sem nú kallast Grettis-tak; Nefndur Steinn liggur á sléttum flöt edur kante, siáanlega á Steinum olldúngis ofanná Iord, enn er lítid farinn hallast til Utsudurs, svo hann er sumstadar á Huldu, og má siá milli Grundvallarins og Steinsins. – Utnordurshorn hans skutir nockud fram yfir sig, og vyrdist sem sá kantur hans hafe einhvörn tíma upp horfid, vegna þess ad á honum er ad finna 8ta bolla holada af Vatnsdropum, er siáanlega í þeim leikid hafa, af hverjum sumir eru herum 1½ þuml diúpir, og er slika bolla, hvergi annarsstadar á hönum ad finna. Eins og Steirninn nú liggur, er omögulegt hann Bollana feingid hafe, þar þeir horfa nidur á Kantinum. – Steirninn umhverfis vadlagdur mældist 11 al. 5½ þuml. Og á Hæd beint nidur frá Toppe ad Grundvelle 2. Al: 22 þuml: Hvörge i namd vid Stein þenna eru honum líkir Steinar, utann uppi Hálsinum (TröllaHalse) í landsudurs att frá Steininum, eru utantil í Brúninni líkir klettar, á herum 300 Fadma laungum Veige frá Grettis taki, sem náliga er allt slett, nema hallande nidur Hálsinn og svo leiti lítid ad Mishæd þeirri sem Steirninn astendur. – I Steininum Grettis taki er hardt holulaust Holtagriót.“

Séra Björn Pálsson Þingvallaprestur, sonur Páls Þorlákssonar, getur örnefnisins í sýslu- og sóknarlýsingu sinni fyrir Hið íslenzka bókmenntafélag árið 1840 (útg. 1979, bls. 190). Svo segir í lýsingunni:

Grettistak er norðan undir lágum hálsi, sem liggur norður úr Gagnheiðinni, sem nú er kallaður Tröllaháls, en í Grettis sögu Sleðaás. Þar segir, að hann hafi fengist við steininn lengi dags, að mig minnir. Sleðaás er nú kallaður lítill hryggur ofan úr Ármannsfelli að sunnanverðu, hjá sokölluðu Bolaklifi, og finnst þar nú enginn auðkennilegur steinn.

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður fjallar ítarlega um Grettishaf og mögulegar staðsetningar þess í riti sínu Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945, bls. 87–88. Þar segir hann meðal annars:

„Spöl vestar [frá Víðivöllum] gengur fram Sleðaás suður úr fjallinu, en krókurinn austan-við hann nefnist nú að eins Kriki. Sleðaás (Sleðás í daglegu tali) nefnist nú stundum Sleðháls, en ekki er það rétt.“

„En að því, er snertir þetta Grettishaf, sem sagt er frá í [16. kafla Grettis sögu], þá virðist sumum þar vera nokkur missögn. Alkunnugt Grettishaf (Grettistak) er nefnilega norðan-undir Tröllahálsi, sem er langt fyrir norðan Klyftir [...] en Grettistök svo-nefnd eru að sönnu víða til og hér gæti því verið um tvö að ræða; en undir Sleðaási er ekkert Grettistak kunnugt, né neinn þvílíkur steinn á hlóðum, svo sem venjulega. Því hefur mönnum þótt líklegt, að söguritarinn hafi raunar átt við Grettishafið norðan-undir Tröllahálsi, en hafi heyrt eða minnt, að það væri undir Sleðaási. Það kemur ekki til mála, að Tröllaháls hafi heitið Sleðaás, né að Sleðaás hafi verið þar hjá.

Matthías bætir við umfjöllun sína í neðanmálsgrein á bls. 88 og vísar til mögulegra Grettistaka við Sleðaás:

„Tveir steinar allmiklir, hvor sínu megin götu, skammt frá Bolaklifi, eru líklegastir til að vera, annar-hvor þeirra, sá, er sagan á við, og jafnvel sá, er séra Jón Hjaltalín átti við. Þeir hafa fyrrum getað legið hér í grasi, þótt nú liggi þeir á blásnum mel, sunnan-undir ásnum. Orðalag sögunnar gæti fremur átt við hinn stærri þeirra, sem er sunnan götunnar, en hinn er öllu líklegri til, að Grettir hafi, ef til vill, getað lyft honum. Orðin „er þar liggur í grasinu“ benda beinlínis á, að þetta „Grettishaf“ undir Sleðaási hafi ekki verið á neinum hlóðum eða undirsteini.

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti örnefnið (er hann kallaði Grettistak) inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.

Heimildir

Björn Pálsson. (1979). Þingvalla- og Úlfljótsvatnssóknir. Í Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags 1839-1843 og lýsing Ölfushrepps anno 1703 eftir Hálfdán Jónsson (bls. 171–192). Sögufélag.

Grettis saga Ásmundarsonar. (1953). Í Íslendinga sögur VI: Húnvetninga sögur I (bls. 1–295). Guðni Jónsson bjó til prentunar. Íslendingasagnaútgáfan.

Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.

Páll Þorláksson. (1983). Þingvellir. Í Frásögur um fornaldarleifar 1817−1823. (bls. 219–222). Sveinbjörn Rafnsson bjó til prentunar. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.

Sveinn Pálsson. (1983). Ferðabók Sveins Pálssonar. Dagbækur og ritgerðir 1791–1797. (1. bindi, 2. útg.). Jón Eyþórsson, Pálmi Hannesson og Steindór Steindórsson íslenskuðu. Örn og Örlygur.

Tengd örnefni