Grímagil

Google Maps
Ornefni Atlas Grimagil 4486

Grímagil

Grímagil (einnig Grímsgil eða Grímugil; upprunalega kallað Grímsstaðagil) er gil í Brúsastaðabrekkum skammt norðaustan Brúsastaðamýrar. Það er um 600 metra langt og snýr þvert á landreksstefnuna, 20–50 metra breitt og 10–15 metra djúpt. Grímagil er kennt við eyðibýlið Grímastaði (eða Grímsstaði) sem stendur við gilsmynnið.

Grímagilslækur rennur undan gilinu og austan þess er getið um Heimri- og Ytri-Grímastaðamýrar. Brekkurnar næst gilinu hafa kallast Grímagilsbrekkur sem og nærliggjandi hvammar og holt (Grímagilshvammar og Grímagilsmýraholt) sem hafa ekki verið staðsett áreiðanlega. Annað smærra gil er skammt sunnar og nefnist Ytra-Grímagil.

Ritháttur

Elsta þekkta nafnmynd örnefnisins er Grímsstaðagil og er það ritað þannig í bréfi frá miðri eða síðari hluta 18. aldar. Hljóðbreyting hafði þó þegar átt sér stað á bæjarheitinu Grímsstöðum og var það gjarnan – en þó ekki ávallt – kallað Grímastaðir í daglegu máli. Þetta má rekja allt aftur til ritháttar Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1711.

Hljóðbreytingin heimfærðist á öll afleidd örnefni í nágrenni eyðibýlisins og Grímsstaðagil varð því Grímagil. Aðrir heimildarmenn hafa nefnt það Grímsgil eða Grímugil en hvorug orðmynd virðist hafa fest sig í sessi í daglegu máli. Grímagil má því teljast réttmæt orðmynd sökum langrar málhefðar innan Þingvallasveitar.

Grímagil í frumheimildum

Guðmundur Erlingsson frá Þrándarstöðum, sem ólst upp á Brúsastöðum 1709 til 1737, lýsir landamerkjum uppeldisslóða sinna í bréfi frá 18. öld, sbr. Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni eftir Matthías Þórðarson, 1945, bls. 284–285, hér með nútímastafsetningu:

Að sönnu bar það til, að prestur á Þingvöllum leyfði ábúanda í Skógarkoti að slá þeirra gömlu Grímsstaða-mýrarland: nefnilega Grímsstaðagil [stafsett „grymstadagil“], Orustuhólsmýri, Litla-Öxarárdal, og Búrfellsmýri, hvað þó ekki stóð á fastara grundvelli en svo, að það með öllum jafnaði var slegið frá Svartagili. Það var þá almennt mál að land eyðijarðar skildi leggjast til næstliggjandi jarða.“

Sigurður Vigfússon fornfræðingur getur örnefnisins í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1880-1881, bls. 98:

Hér um bil miðja vegu milli Brúsastaða og Svartagils er gil, sem nú er kallað Grímagil, sem kemr þar niðr úr hæðunum.“

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir svo í riti sínu Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945, bls. 85–86:

„Grímsstaðir eru miðja vegu milli Brúsastaða og Svartagils, undir brekkunum, í landslags- og bæjastefnunni, við gil, sem þar er og kennt er við bæinn, en nú nefnt Grímagil, fyrir afbökun og stytting, enda hefur bæjarnafnið afbakazt sjálft, orðið í framburði Grímastaðir. [...] Eru hér brekkur og hvammar, sem kennd eru við gilið, tvær mýrar (heimri og ytri), sem kenndar eru við bæinn, og holt, sem kennt er við aðra þeirra. Auk þess gils, sem er rétt við bæinn, og verið hefur vatnsbólið og bæjarlækurinn og nú var nefnt, er annað með sama nafni utar og nefnt Ytra-Grímagil nú, fyrir Ytra-Grímsstaðagil.“

Ónefndur heimildarmaður segir svo í ódagsettri örnefnaskrá Svartagils:

[Landamerki Svartagils:] Úr Langastíg (1) (tvær vörður), og hraunkanturinn hjá gömlu réttunum, síðan heldur nær bænum og í nyrðri tjörnina fyrir vestan Grímugil (2). Úr tjörninni yfir brekkuna í Kjóavelli (3) og síðan eftir Öxará (4).“

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Svartagilsland sem rituð var í kringum 1980–1985:

„Landið upp frá Tæpastíg (11), þar sem þjóðvegurinn liggur er kallað Bakkar (12). Á þeim ofarlega eru gamlar rústir frá býli, Bárukot (13), og nokkru ofar nær brekkum, sem kallast Brúsastaðabrekkur (14), eru grónar flatir og þar tættur, Grímastaðir (15). Þar fyrir austan er all stórt gil, Grímagil (16).“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í Þingvallaþönkum sem hann ritaði í kringum 1980–1985:

„Grímsstaðir er gamalt eyðibýli við gildrag með litlum læk, undir brekkunum, sem ná frá Svartagili og út á móts við Brúsastaði. Bærinn var við þriðja gilið, sem skera brekkurnar ef talið er austan frá. Austasta gilið heitir Sláttugil, miðgilið Hrútagil og það vestasta Grímsgil.“

Pétur merkti gilið – sem hann kallaði Grímsgil – inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.

Heimildir

Tengd örnefni