Grímagilslækur

Google Maps
Ornefni Atlas Grimagilslaekur F96c

Grímagilslækur

Grímagilslækur (einnig nefndur Grímsgilslækur eða Grímsstaðalækur) er lækur ofan Almannagjár í Þingvallasveit. Hann á upptök sín í mýrarkeldu ofan Brúsastaðabrekkna (sem hér hafa kallast Grímagilsbrekkur) og hefur þar sorfið leið sína niður þær um svokallað Grímagil. Að líkindum var hann bæjarlækur eyðibýlisins Grímastaða (eða Grímsstaða) sem stendur við gilsmynnið.

Frá Grímagili rennur Grímagilslækur eftir vallendis- og mosaflötum suður að eyðibýlinu Bárukoti, þar sem búið var í skamma hríð á 17. öld. Lækurinn var bæjarlækur Bárukots og sjá má uppþornaðan lækjarfarveg, þar sem honum gæti hafa verið veitt, upp við bæjarrústirnar. Sunnan Bárukots rennur Grímagilslækur saman við Hrútagilslæk og heitir þá Leiralækur.

Ritháttur

Vel má vera að upprunaleg orðmynd örnefnisins hafi verið Grímsstaðagilslækur en hljóðbreyting á eyðibýlinu Grímsstöðum yfir í Grímastaði heimfærðist á mörg afleidd örnefni í nágrenni þess. Lækurinn er nefndur Grímagilslækur í flestum ritheimildum – og kemur þannig fyrst fram í dagblaðsgrein frá 1927 – en aðrir heimildarmenn hafa nefnt hann Grímsgilslæk og Grímsstaðalæk.

Grímagilslækur í frumheimildum

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir svo í riti sínu Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945, bls. 85–86:

„Auk [Grímagils/Grímsstaðagils], sem er rétt við bæinn, og verið hefur vatnsbólið og bæjarlækurinn og nú var nefnt, er annað með sama nafni utar og nefnt Ytra-Grímagil nú, fyrir Ytra-Grímsstaðagil.“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti lækinn, er hann nefndi Grímsgilslæk, inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.

Björn Þorsteinsson sagnfræðingur sýnir lækinn á korti í bókinni Þingvallabókin – handbók um helgistað þjóðarinnar, 1986, bls. 12. Þar heitir hann Grímsstaðalækur.

Tengd örnefni