Grímastaðir

Google Maps
Ornefni Atlas Grimastadir 07E6

Eftirfarandi texti er byggður á greininni Týndu eyðibýlin í Þingvallahrauni eftir Gunnar Grímsson sem birtist í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2024, sem og lokaritgerð Gunnars við Háskóla Íslands, Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél frá 2020. Sá hinn sami skrifar þennan texta.

Grímastaðir

Grímastaðir (upphaflega Grímsstaðir; einnig Grímukot) eru mögulegt eyðibýli í landi Þingvalla. Grímastaðir eru staðsettir hér um bil mitt á milli Brúsastaða og Svartagils við rætur Brúsastaðabrekkna, upp við gil er nefnist Grímagil. Grímastaðir hafa löngum verið taldir samsvara fornbýlinu Grímsstöðum úr Harðar sögu og Hólmverja.

Örnefni í næsta nágrenni Grímastaða eru flest kennd við þá og má þar helst nefna áðurnefnt Grímagil og Ytra-Grímagil rétt suðvestan þess. Hér eru einnig Grímagilslækur, -brekkur og -hvammar, auk Grímastaðamýrar (heimri og ytri) og Grímastaðamýrarholts. Skammt sunnan Grímastaða er lágur hæðarás sem nefnist Sandhóll og þar austar liggur Norðlingavegur um svonefnda Bakka frá Brúsastöðum inn að Biskupsbrekkum. Alfaravegur hefur þá legið fram hjá Grímastöðum og tengst við Leggjarbrjótsleið og Gagnheiðarveg.

Ritháttur

Upphaflegur ritháttur örnefnisins var að öllum líkindum Grímsstaðir. Það er fyrst ritað á þann hátt í kringum miðhluta 18. aldar og haft þannig í friðlýsingu eyðibýlisins 1927, sem og í mörgum rituðum heimildum. Þar er gjarnan skírskotað til sögusviðs Harðar sögu.

Hljóðbreyting varð þó á bæjarheitinu á einhverjum tímapunkti og það kallað Grímastaðir í daglegu máli. Sú orðmynd kemur fyrst fram í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1711 og er því elsta ritaða orðmynd örnefnisins. Ekki er ljóst hvort hljóðbreytingin hafi átt sér stað í kjölfar skrifanna eða þegar orðin málvenja innan Þingvallasveitar. Orðmyndin Grímastaðir hefur haldist nokkuð óhnikuð í daglegu máli í að minnsta kosti þrjú hundruð ár og því má telja hana jafn réttmæta og þá upphaflegu sökum langrar málhefðar.

Grímsstaðir úr Harðar sögu

Samkvæmt Harðar sögu var Grímur hinn litli félítill en vel liðinn maður á ofanverðri 10. öld sem var fóstri Signýjar Valbrandsdóttur, eiginkonu Grímkels goða að Ölfusvatni. Grímur kvæntist Guðríði Högnadóttur frá Hagavík og stofnuðu þau nýbýli á Grímsstöðum. Saman áttu þau soninn Geir en tóku jafnframt söguhetjuna Hörð Grímkelsson í fóstur frá unga aldri sem og Þorbjörgu Grímkelsdóttur. Grímsstaðir urðu því lykilstaðsetning í fyrri hluta Harðar sögu. Guðríður og Þorbjörg tóku við búrekstrinum að Grími látnum en þær fluttu skömmu síðar til Geirs í Botni í Hvalfirði og engum sögum fór af búsetu á Grímsstöðum eftir það.

Nákvæm staðsetning Grímsstaða í Harðar sögu er óljós en gæti hafa verið nálægt alfaraveginum milli Jórukleifar og Botnsheiðar. Býlið er aðeins sagt „suður frá Kluftum“ – það er að segja Sandkluftum við austurhlíðar Ármannsfells – og átti það eftir að vefjast fyrir fornfræðingum á einum tímapunkti sem töldu bæinn nær fellinu, til dæmis við eyðibýlin Litla-Hrauntún eða Hrafnabjörg.

Tenging hefur verið gerð milli Grímsstaða Harðar sögu og eyðibýlisins Grímastaða síðan a.m.k. 1840 og hefur sú ályktun verið nokkuð óumdeild, þótt erfitt gæti reynst að staðfesta slíkt.

Staðsetning bæjarrústanna

Þótt bæjarstæðinu og staðháttum þess hafi verið lýst gaumgæfilega í ritheimildum – og merkt við Grímagil á öllum helstu kortum – var efi kominn upp um staðsetningu þess á síðari hluta 20. aldar. Í bók Björns Th. Björnssonar um Þingvelli er þannig lítið gert úr staðnum við gilið og í Árbók Ferðafélags Íslands 2003 er sagt að engin ummerki húsarústa sjáist á svæðinu.

Árið 2018 staðsetti Gunnar Grímsson, þá nemandi í fornleifafræði við Háskóla Íslands, forn mannvirki við Grímagil með notkun fjarkönnunar. Takmörkuð borkjarnarannsókn árið eftir sýndi óumdeilanlega fram á forn mannvistarlög og er greint frá henni í BA-ritgerðinni Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél.

Lýsing á bæjarstæði

Meint bæjarrúst er staðsett við rætur Grímagils, fáeinum metrum sunnan Grímagilslækjar. Hún er afar ógreinileg þegar gengið er á svæðinu og því fullkomlega skiljanlegt að vafi hafi leikið á staðsetningu hennar. Útlit hennar er í nær algjöru samræmi við uppdrátt Brynjúlfs Jónssonar fornfræðings sem athugaði eyðibýlið sumarið 1904. Hún snýr um það bil suðvestur-norðaustur, er um 15,5 x 6,5 m að utanmáli með um 40 cm háum veggjum. Rústin virðist tvískipt eða þrískipt. Inngangur er á miðjum suðurhliðvegg en norðurhliðin er óljós og niðursokkin. Lítil upphækkun er við austurgafl sem gerir hann óljósan.

Önnur tóft er þá staðsett tæpum 50 m suðaustar. Hún er næstum ferhyrnd, um 9 x 7 m að utanmáli, áþekk uppdrætti Brynjúlfs og allt að 30 cm há.

Kjarnaborun fór fram í þessum mannvirkjabrotum haustið 2019. Borkjarni í vesturhluta „bæjarrústarinnar“ sýndi þunnt kolaborið lag á um 30 cm dýpi og borkjarnar í mið- og austurhluta hennar leiddu í ljós sjö og 11 sentimetra þykk kolaborin lög á 50-80 cm dýpi. Móaska og brennd dýrabein voru í þykkara laginu sem gæti bent til eldstæðis. Landnámslagið sást í torfhruni fyrir ofan þetta mannvistarlag en hefur þó ekki verið greint formlega. Gefur þetta vísbendingu um að þarna hafi verið tvö búsetuskeið og hið fyrra, sem var mun umfangsmeira, hafi verið reist tiltölulega stuttu eftir landnám. Borkjarnar í smátóftinni gáfu til kynna að þarna væri torfhrun en ekkert gólflag fannst. Viðarkolaleifar fundust þó í torfi á 50 cm dýpi. Óvíst er hvert hlutverk tóftarinnar hefur verið.

Fleiri rústir gætu leynst við Grímagil en frekari rannsókna er þörf til að staðfesta tilvist þeirra. Þar má nefna grunsamlega rétthyrnda upphækkun við suðvesturhorn „bæjarrústarinnar“ og aðra lága þúst 15 metrum austan hennar. Enn aðrar þústir eru greinilegar 30 m sunnar og líkleg tóft stendur á brekkustalli 60 m suðvestar, 11 x 7 m að utanmáli. Að lokum vottar fyrir 20 m löngum kafla af garðlagi við gilsmynnið norðan lækjarins.

Seint verður ákvarðað með vissu hvort hér hafi Grímur hinn litli búið ásamt öðrum söguhetjum Harðar sögu, að því gefnu að þær hafi í raun verið til. Ekki er heldur hægt að slá því föstu að hér hafi verið bæjarstæði út frá ofangreindum upplýsingum einum og sér, þótt það megi telja líklegt. Hér gætu einnig verið leifar seljabúskapar. Þá er ekki óhugsandi að hér hafi verið fleira en eitt búsetuskeið líkt og þekkt er á öðrum stöðum í Þingvallasveit, því sel voru gjarnan reist ofan á eða við gömul bæjarstæði og öfugt. Hvað sem því líður er ljóst að á Grímastöðum er afar frjór vettvangur fyrir sögustaðaskoðun. Vandvirkar fornleifarannsóknir gætu hér varpað ljósi á hina lítt þekktu sögu Þingvallasveitar til forna og aldrei er að vita hvað gæti leynst undir yfirborðinu.

Grímastaðir í frumheimildum

Svo segir í 5. kafla Harðar sögu og Hólmverja:

„Grímur keypti þá land suður frá Kluftum er hann kallaði á Grímsstöðum og bjó þar síðan. Grímkell fékk öll búsefni Grími en Högni galt fyrir landið. Grímur rakaði brátt fé saman. Voru tvö höfuð á hvívetna því er hann átti. Var hann skjótt hafður í hinni bestu bóndatölu.“

Svo segir í kafla Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns um Þingvallasveit, dagsettum 1711 (útg. 1981), bls. 367:

„Grimastader heitir hjer eitt örnefni, sem meinast bygt hafa verið fyrir stóru pláguna, en aldrei eftir hana; sjer hjer sumstaðar til garðaleifa og rústa, sem meinast verið hafi bæði túngarður og veggjaleifar, og vita elstu menn ekkert framar hjer um að segja.“

Guðmundur Erlingsson frá Þrándarstöðum, sem ólst upp á Brúsastöðum 1709 til 1737, lýsir landamerkjum uppeldisslóða sinna í bréfi frá 18. öld, sbr. Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni eftir Matthías Þórðarson, 1945, bls. 284–285, hér með nútímastafsetningu:

Að sönnu bar það til, að prestur á Þingvöllum leyfði ábúanda í Skógarkoti að slá þeirra gömlu Grímsstaða-mýrarland [stafsett „grymsstada myreland]: nefnilega Grímsstaðagil, Orustuhólsmýri, Litla-Öxarárdal, og Búrfellsmýri, hvað þó ekki stóð á fastara grundvelli en svo, að það með öllum jafnaði var slegið frá Svartagili. Það var þá almennt mál að land eyðijarðar skildi leggjast til næstliggjandi jarða.“

Séra Björn Pálsson Þingvallaprestur merkir eyðibýlið inn á handteiknað kort af Þingvallsveit í sýslu- og sóknarlýsingu sinni fyrir Hið íslenzka bókmenntafélag árið 1840 (útg. 1979). Svo segir í lýsingunni, bls. 186:

Grímsstaðir (hvar Grímur hinn litli bjó, sem getið er í Hólmverja sögu milli Brúsastaða og Svartagils [...]“

Sigurður Vigfússon fornfræðingur minnist á hina fornu Grímsstaði í rannsókn sinni á Þingvöllum árið 1880 og telur þá hljóta að vera nálægt Sandkluftum, samanber lýsingu Harðar sögu en ákvarðar síðar staðsetninguna við Grímagil, sbr. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1880-1881, bls. 98:

„Eftir að eg kom af Þingvelli í sumar, og eftir að eg hafði skrifað ritgjörðina um Þingvöll og Þingvallarsveit hér að framan, hefi eg fengið nokkurn veginn fulla vissu um, hvar Grímsstaðir hafa verið. Hér um bil miðja vega milli Brúsastaða og Svartagils er gil, sem nú er kallað Grímagil, sem kemr þar niðr úr hæðunum. Að austanverðu við gilið, eða þeim megin, sem snýr að Ármannsfelli, eru gamlar bæjatóttir vallgrónar, sem kallaðar eru Grímastaðir; þar eru vall-lendisflatir í kring, sem verið hefir tún; þar er nú orðið vaxið með víði. Þetta eru auðsjáanlega þeir hinir gömlu Grímsstaðir, sem Harðarsaga talar um. Þetta er skamt fyrir vestan Norðlingaveginn. Þegar farið er vestr í Botnsdal úr Þingvallarsveitinni, þá er farinn vegr, sem kallaðr er Leggjabrjótr; hann er sunnan til við Súlu; liggr þessi vegr á milli Grímsstaða og Svartagils; þetta er eðlilegasti og styzti vegrinn, þegar farið er frá Ölvesvatni og vestr í Botn, þvíað þá er farið rétt framan í Súlum, og er þá komið ofan í Botnsdalinn.“

Brynjúlfur Jónsson fornfræðingur athugar Grímastaði sumarið 1904, teiknar upp tóftirnar sem Sigurður minnist á og lýsir þeim svo í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1905, bls. 45–46:

„Rúst Grímastaða er vestanmegin lækjarins [...]. Hún er svo niður sokkin, að mestu gætni þarf til að sjá hana, og hún virðist hafa verið mjög lítil. Hún liggur austur og vestur, hefir dyr á suðurhlið og miðgaf l vestan við þær með dyrum við útidyrnar. Vestur-herbergið er 3 fðm. langt, hitt aðeins 1 1/2 fðm. Breiddin eru 2 fðm. Þó má vera að austurherbergið hafi verið lengra, því endinn er óglöggur, og litlu austar sér á hleðslusteina í flagrotu. Þar skamt frá sér aðra, óglöggva tóft, mjög litla. Önnur forn mannvirki sjást þar ekki.“

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir svo í riti sínu Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945, bls. 85–86:

Grímsstaðir eru miðja vegu milli Brúsastaða og Svartagils, undir brekkunum, í landslags- og bæjastefnunni, við gil, sem þar er og kennt er við bæinn, en nú nefnt Grímagil, fyrir afbökun og stytting, enda hefur bæjarnafnið afbakazt sjálft, orðið í framburði Grímastaðir. Er sú framburðarmynd komin inn í rithátt síðari alda á bæjarnafninu, fyrst og fremst í jarðabók Árna Magnússonar [...]. – Tótir þær, er nú sjást á Grímsstöðum, eru litlar og óljósar. Helzt er þar bæjartóft, sem skiptist í þrennt, og skammt austur frá henni sér aðra tóft, mjög litla, og enn hina þriðju 40 skref frá (um 7 x 5 m. að stærð). – Eins og í örnefninu Gríma-gil, sem nefnt var hér á undan, er nú í daglegu tali komið Gríma- fyrir Grímsstaða- (eða Grímstaða) í fleiri örnefni í grennd við þetta forna bæjarstæði. Eru hér brekkur og hvammar, sem kennd eru við gilið, tvær mýrar (heimri og ytri), sem kenndar eru við bæinn, og holt, sem kennt er við aðra þeirra. Auk þess gils, sem er rétt við bæinn, og verið hefur vatnsbólið og bæjarlækurinn og nú var nefnt, er annað með sama nafni utar og nefnt Ytra-Grímagil nú, fyrir Ytra-Grímsstaðagil. – Bæjarstæði þetta er svo fornmerkt, og þeir menn svo ágætir, er hér áttu sitt heima á söguöld vorri, að vert er, að farið sé rétt með nafnið, og öll þessi örnefni, sem tengd eru við það, enda eru öll latmæli og afbakanir á fornum örnefnum illur amlóðaháttur, sem máli voru og minningum er til vanvirðu.

Ónefndur heimildarmaður segir svo í ódagsettri örnefnaskrá Svartagils:

„Baulufoss (7) rennur úr tjörninni (syðri?), sem er í Mýrarkróki (8). Fossinn er rétt vestan við gömlu réttir. Í Mýrarkrók er hóll, sem nefnist Sandhóll (9). Mýrin er fyrir vestan Grímugil (10). Fyrir ofan mýrina eru Brekkurnar (11). Meðfram þeim, við lækinn, fyrir austan Sandhólinn eru rústir, Grímukot (12).“

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Svartagilsland sem rituð var í kringum 1980–1985:

„Landið upp frá Tæpastíg (11), þar sem þjóðvegurinn liggur er kallað Bakkar (12). Á þeim ofarlega eru gamlar rústir frá býli, Bárukot (13), og nokkru ofar nær brekkum, sem kallast Brúsastaðabrekkur (14), eru grónar flatir og þar tættur, Grímastaðir (15). Þar fyrir austan er all stórt gil, Grímagil (16). Þar fyrir austan er vatnsmikið gil Hrútagil (17), en lækurinn flæmist oft um alla bakka en endar svo niður á Leirum.“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, segir svo í Þingvallaþönkum sem hann ritaði í kringum 1980–1985, bls. 17:

„Grímsstaðir er gamalt eyðibýli við gildrag með litlum læk, undir brekkunum, sem ná frá Svartagili og út á móts við Brúsastaði. Bærinn var við þriðja gilið, sem skera brekkurnar ef talið er austan frá. Austasta gilið heitir Sláttugil, miðgilið Hrútagil og það vestasta Grímsgil. Eins og fyrr segir keypti Grímur land suður af Kluftum. Kluftir eru upp af Hofmannaflöt þar sem vegurinn liggur milli Meyjarsætis og Lágafells. Ef farið væri eftir áttavísun söguhöfundar „suðr frá Kluftum“ þá ætti bærinn að hafa verið suður af Ármannsfelli. Fornmenn hafa ekki farið eftir sólaráttum frekar en við sem nú lifum. Við á Hraunbæjunum sögðumst fara suður til Reykjavíkur þótt það sé í hávestur og austur í Grímsnes þótt það sé nokkurn veginn í suðurátt.“

Gunnar Grímsson fornleifafræðingur myndmældi Grímastaði og nágrenni þeirra 2017, 2018, 2019, 2023 og 2025. Hann lýsir helstu einkennum mannvirkjabrotanna út frá myndgögnunum í B.A.-ritgerð sinni Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél við Háskóla Íslands 2020 og bætir við umfjöllunina í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2024. Þar er eyðibýlið kallað Grímsstaðir og farið eftir nafni staðarins í friðlýsingarskrá. Sá hinn sami ritar þessa örnefnasamantekt og byggir á ofangreindu efni.

Heimildir

Björn Pálsson. (1979). Þingvalla- og Úlfljótsvatnssóknir. Í Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags 1839-1843 og lýsing Ölfushrepps anno 1703 eftir Hálfdán Jónsson (bls. 171–192). Sögufélag.

Björn Th. Björnsson. (1987). Þingvellir – staðir og leiðir (2. útg.). Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

Gunnar Grímsson. (2020). Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél [B.A. ritgerð]. Háskóli Íslands.

Gunnar Grímsson. (2024). Týndu eyðibýlin í Þingvallahrauni. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 112, 27–58.

Harðar saga. (1991). Íslenzk fornrit XIII. Þórhallur Vilmundarson og Bjarni Vilhjálmsson bjuggu til prentunar. Hið íslenzka fornritafélag.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. 2. bindi: Árnessýsla. (1981). Sögufélag.

Kristján Jóhannsson. (e.d.-d). Örnefni í Svartagilslandi [Óbirt efni]. Örnefnastofnun Íslands/Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.

Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.

Sigurður Vigfússon. (1880). Rannsókn á hinum forna alþingisstað Íslendinga, og fleira, sem þar að lýtr. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1880-1881, 8–52.

Svartagil. (e.d.). [Heimildamaður ókunnur, Guðjón Friðriksson skráði]. Örnefnastofnun Íslands.

Þór Vigfússon. (2003). Árbók Ferðafélags Íslands 2003: Í Árnesþingi vestanverðu. Ferðafélag Íslands.