Hallstígur

Google Maps
Ornefni Atlas Hallstigur 84Ee

Hallstígur (eða Hallsstígur) er stígur á sunnanverðri Hrafnagjá, 700 metrum norðaustan Arnarfells og skammt fyrir ofan Ólafsdrátt í Þingvallavatni. Hallstígur lýsir sér sem landræmu milli tveggja aðskilinna sprungna þar sem Hrafnagjá hliðrast og hægt er að komast áfallalaust frá efri gjárbarminum niður á þann neðri. Nafn stígsins er dregið af lægri barmi Hrafnagjár sem kallast Hallur.

Hallstígur var jafnframt landamerki milli Þingvallabæjar og Gjábakka. Eftir þjóðgarðsmyndun 1930 varð Hallstígur hornamark milli þjóðgarðsins á Þingvöllum, Gjábakka og Arnarfells.

Leiðir um Hallstíg

Talið er að allt frá landnámi hafi helstu alfaraleiðir til Þingvalla úr austri legið um Hallstíg. Önnur þeirra lá suðaustan Hallstígs fram hjá Kambsvörðu en hin suðvestan hans meðfram Arnarfelli. Að auki má greina umfangsmikinn götuslóða milli Hallstígs og Gjábakka. Vestan Hallstígs má greina gamla götu neðan núverandi akvegar, skammt ofan vatnsbakkans og þaðan um Gjáarenda.

Umferð um Hallstíg minnkaði til muna á 19. öld í kjölfar vegbóta á Gjábakkastíg á Hrafnagjá, rúmum kílómetra norðar, en jókst á ný þegar akvegur var lagður um Hallstíg sumarið 1939 samhliða nýjum Sogsvegi. Vegbúturinn tengdist Vallavegi (361) sem liggur meðfram norðanverðu Þingvallavatni.

Vegbúturinn um Hallstíg hefur verið lokaður fyrir almenna bílaumferð síðan 2019, þar sem vegurinn annar ekki lengur þeirri miklu umferð sem nú liggur um þjóðgarðinn. Þess í stað fer öll bílaumferð nú um endurbættan Þingvallaveg (36) sem liggur um Klukkustíg og var upphaflega lagður fyrir þjóðhátíðina á Þingvöllum 1974.

Hallstígur í frumheimildum

Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni segir svo í grein sinni Örnefni í Þingvallahrauni í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1937–1939:

„Hallstígur (7) er syðst á Hrafnagjá, skammt fyrir norðan Arnarfellsenda (8). Þaðan og inn í Hallvík (9) nær vatnið alveg að hallanum á vestari gjárbarminum, og er sá kafli nefndur Hallur (10) [...]“

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá Arnarfells frá 1982:

„Landamerki Arnarfells, þjóðgarðs og Gjábakka er lítið vörðubrot efst á Hallsstíg. [...] Austan við [Þvottu] gengur lítill klettur fram í fjöruna, Markaklettur (30). Þar eru mörk milli Arnarfells og þjóðgarðsins. Upp af klettinum er stígur yfir Hrafnagjá, sem heitir Hallsstígur (31). Hann er skammt neðan við þjóðveginn.“

Kristján segir þá í örnefnaskrá sinni um Gjábakkaland sem rituð var í kringum 1980–1985:

Þaðan [liggja landamörk Gjábakka] í hól með fuglaþúfu á við Hallstíg (2).“

Geta má að einn slíkan hól með hundaþúfu má finna rúmum 100 metrum sunnan Hallstígs, vestan akvegarins.

Þá svarar Kristján í spurningalista (í kringum 1980–1984) sem starfsfólk Örnefnastofnunar samdi upp úr ofangreindi örnefnalýsingu Ásgeirs Jónassonar:

3. Hvernig er Hallstígur? Hallstígur er stígur á Hrafnagjá norðvestan við Gjábakka, á landamörkum Arnarfells og Gjábakka. Yfir þann stíg lá sá forni vegur, sem lá upp með Sogi.“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í Þingvallaþönkum sem hann ritaði í kringum 1980–1985, bls 8:

„Syðsti stígurinn á [Hrafnagjá] er Hallstígur og er þar, sem vegurinn frá Þingvöllum austur með vatninu liggur yfir gjána. Hallstígur hefur verið aðal leiðin yfir gjána allt frá landnámi þar til á seinni hluta nítjándu aldar að farið er að laga Gjábakkastíg til umferðar. Það eru til skráðar frásagnir ferðamanna, sem fóru milli Laugardals og Þingvalla á síðasta tug átjándu aldar, að þeir fóru Hallstíg og einnig um viðhald á sömu leið, skráð 1830.“

Pétur lýsir helstu leiðum um Hallstíg í sveitarlýsingu Gunnars Þórissonar um Þingvallasveit í Sunnlenskum byggðum III, 1983, bls. 185–186:

„Önnur aðalleiðin yfir Hrafnagjá til forna lá frá Vatnsviki um Gjáarenda, Hallinn og yfir Hrafnagjá á Hallstíg, nákvæmlega þar sem Sogsvegurinn liggur nú. Þegar komið var á stíginn skiptust leiðir. Hreppsvegurinn lá niður með Arnarfelli; þaðan yfir hraunið að Mjóanesi, suður með vatninu og fyrir Múlann. [...] Frá Hallstíg lá þjóðleiðin suðaustur yfir Kambvörðuhraun.“

Pétur merkti Hallstíg inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.

Heimildir

Tengd örnefni