Heimri-Grímastaðamýri
Heimri-Grímastaðamýri (eða Heimri-Grímsstaðamýri; einnig Heimri-Grímagilsmýri) er önnur af tveimur Grímastaðamýrum sem kenndar eru við eyðibýlið Grímastaði við Grímagilsbrekkur.
Lítið sem ekkert hefur verið ritað um Grímastaðamýrar og ekki er ljóst hvort örnefnin hafi yfirleitt verið í mikilli notkun á síðustu öld. Nákvæm staðsetning þeirra liggur því ekki fyrir. Líklegt má þó telja að forskeytin heimri og ytri hafi verið ákvörðuð út frá sjónarhorni Svartagilsbænda og miðað við nálægð mýranna frá bænum.
Mýrlendi má finna á tveimur stöðum við Grímastaði, hvor sínu megin Grímagilslækjar, og er hér áætlað að þar séu hinar eiginlegu Grímastaðamýrar. Heimri mýrin er hér merkt norðan lækjarins en sú ytri sunnan hans við neðra mynni Ytra-Grímagils. Þessi túlkun er ekki óskeikul og má í þessu samhengi einnig benda á aðra mýrarfláka ofan Brúsastaðabrekkna þar sem Grímagilslækur á upptök sín.
Talsvert mýrlendi finnst við brekkuræturnar norðan Grímagilslækjar, þar sem Heimri-Grímastaðamýri er ákvörðuð. Fjöldi mýrarkeldna kemur þar upp undan brekkunum og renna þær allar út í áðurnefndan læk. Syðst í mýrinni má greina mögulegan bút af fornu garðlagi.
Nærliggjandi holt var nefnt eftir annarri Grímastaðamýrinni og nefnt Grímastaðamýraholt (eða Grímagilsmýraholt). Ekki er ljóst hvar það var nákvæmlega.
Heimri-Grímastaðamýri í frumheimildum
Guðmundur Erlingsson frá Þrándarstöðum, sem ólst upp á Brúsastöðum 1709 til 1737, lýsir landamerkjum uppeldisslóða sinna í bréfi frá 18. öld, sbr. Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni eftir Matthías Þórðarson, 1945, bls. 284–285, hér með nútímastafsetningu:
„Að sönnu bar það til, að prestur á Þingvöllum leyfði ábúanda í Skógarkoti að slá þeirra gömlu Grímsstaða-mýrarland [stafsett „grymsstada myreland“]: nefnilega Grímsstaðagil, Orustuhólsmýri, Litla-Öxarárdal, og Búrfellsmýri, hvað þó ekki stóð á fastara grundvelli en svo, að það með öllum jafnaði var slegið frá Svartagili. Það var þá almennt mál að land eyðijarðar skildi leggjast til næstliggjandi jarða.“
Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir svo í riti sínu Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945, bls. 85–86:
„Grímsstaðir eru miðja vegu milli Brúsastaða og Svartagils, undir brekkunum, í landslags- og bæjastefnunni, við gil, sem þar er og kennt er við bæinn, en nú nefnt Grímagil, fyrir afbökun og stytting, enda hefur bæjarnafnið afbakazt sjálft, orðið í framburði Grímastaðir. [...] Eru hér brekkur og hvammar, sem kennd eru við gilið, tvær mýrar (heimri og ytri), sem kenndar eru við bæinn, og holt, sem kennt er við aðra þeirra. Auk þess gils, sem er rétt við bæinn, og verið hefur vatnsbólið og bæjarlækurinn og nú var nefnt, er annað með sama nafni utar og nefnt Ytra-Grímagil nú, fyrir Ytra-Grímsstaðagil.“
Gylfi Gíslason myndlistamaður merkti mýrarnar á handteiknað gönguleiða- og örnefnakort af þjóðgarðinum á Þingvöllum frá 1997. Mýrarnar eru merktar milli Brúsastaðabrekkna og Grímagilslækjar og kallaðar „Heimri & Ytri Grímagilsmýrar.“ Jafnframt er örnefnið „Grímagilsmýraholt“ merkt austan Grímagilslækjar.
Heimildir
Gylfi Gíslason. (1997). Gönguleiðir í Þingvallahrauni. [Gönguleiða- og örnefnakort]. Þingvallanefnd.
Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.