Hrafnagjá

Google Maps
Ornefni Atlas Hrafnagja 24A5

Hrafnagjá er siggengi í Þingvallahrauni milli Arnarfells og Rauðshóls. Hún er um 4,5 kílómetra löng, allt að 65 metra breið og víða yfir 20 metra djúp. Vestari barmur Hrafnagjár hefur sigið á við þann eystri og myndað aflangan halla og gjárbotninn er stórgrýttur og óaðgengilegur.

Hrafnagjá er, ásamt Almannagjá, ein stærsta og þekktasta gjáin í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Milli Hrafnagjár og Almannagjár er tæplega fimm kílómetra breiður sigdalur sem myndast hefur vegna landreks Norður-Ameríku- og Evrasíuflekans.

Örnefnalýsing Hrafnagjár

Mörg örnefni finnast í og við Hrafnagjá og verður þeim flestum útlistað hér. 

Milli Arnarfells og Hallstígs

Lýsingin hefst við suðurendann, þar sem Hrafnagjá kemur í ljós undan Arnarfellsenda, við bakka Þingvallavatns. Þar líkist Hrafnagjá frekar grýttum bratta en eiginlegri gjá. Lítill hvammur er fyrir neðan gjána við Arnarfell og í honum er gamalt sel frá Þingvöllum sem kallast Fornasel. Undanfarar Hrafnagjár eru sunnan Arnarfells og heita Langatangagjár.

Hrafnagjá tekur brátt á sig meiri mynd og verður sífellt breiðari og dýpri er innar er farið. Örlítið undirlendi er þar fyrir neðan, þakið kjarrgróðri. Við vatnsbakkann er þar á einum stað lítil vík sem nefnist Þvotta og var þvottastaður Gjábakkabænda. Skammt innar er Markaklettur sem var áður landamerki Arnarfells og þjóðgarðsins á Þingvöllum. Mikilvægar hrygningarstöðvar kuðungableikjunnar eru skammt undan vatnsbakkanum og heita Ólafsdráttur.

Mikil og aflíðandi brekka liggur undan vestari barmi Hrafnagjár og heitir hér Hallur. Þar fyrir ofan er á einum stað haft og hliðrun á gjánni þar sem hægt er að komast milli eystri og vestari gjábarmanna. Slíkir staðir heita stígar á Þingvallamáli og ber þessi nafnið Hallstígur eftir brekkunni. Þjóðleiðir eru sagðar hafa legið um Hallstíg til Þingvalla allt frá landnámi. Akvegur var lagður um Hallstíg á 20. öld og meðfram Þingvallavatni en veghlutinn um stíginn er nú lokaður fyrir almenna bílaumferð, þar sem vegurinn annar ekki umferðarþunganum.

Veiðistígur og Gjábakkastígur

Annar stígur er á Hrafnagjá tæpum 500 metrum innar og nefnist Veiðistígur. Gjábakkabændur fóru um hann í veiðiferðum sínum og liggur leið frá stígnum niður að svokölluðum Krækjukletti við vatnið, þar sem bátskæna var geymd í skjóli fyrir öldunni. 

Skammt norðan Veiðistígs er Hallvik sem nú er vinsæll áningarstaður. Svæðið vestan Hrafnagjár nefnist hér Gjáarendar og svæðið austan hennar heitir Torfa. Svæði þessi eru þakin birkiskógi.

Annar stígur er á Hrafnagjá um 650 metrum norðan Veiðistígs og heitir Gjábakkastígur. Hann var lengst af illur yfirferðar en var gerður vagnfær fyrir konungsheimsóknina 1907. Hér liggur Gjábakkavegurinn yfir Hrafnagjá og er þessi hluti vegarins enn í notkun sem göngu- og reiðgata.

Rif og Klukkustígur

Hallurinn norðan Gjábakkastígs nefnist Rif og þar syðst, við stíginn, lét Þingvallanefnd gróðursetja barrplöntur 1959. Þar er nú orðinn mikill greni- og furuskógur. Nyrðri hluti Rifs er þakinn mjög þykkum, náttúrulegum birkiskógi.

Hrafnagjá hliðrast til austurs 1300 metrum norðan Gjábakkastígs. Aflíðandi rimi hefur þar myndast vegna hliðrunarinnar og nefnist Klukkustígur. Skammt frá honum er Klukkustígshóll. Ein elsta þjóðleiðin til Þingvalla úr austri, svokölluð Klukkustígsleið, lá um stíginn og hefur nú verið stikuð að Skógarkoti. Önnur tengileið hefur þá verið stikuð frá Klukkustíg fram að furuskóginum á Rifi. Nú liggur Þingvallavegur um Klukkustíg og skammt sunnar er útsýnispallur við efri gjábarminn.

Sigurðarsel, Selstígur og Rauðshóll

Tæpum kílómetra norðan Klukkustígs verða barmar Hrafnagjár jafnháir. Þar er stígur á gjánni sem heitir Selstígur; hann er nú mjög gróinn og stórhættulegur yfirferðar. Selstígur dregur nafn sitt af fornri selstöðu sem stendur rétt hjá vestari barmi Hrafnagjár og heitir Sigurðarsel. Selstaðan var eignuð Vatnskoti í sóknarlýsingu Þingvallaprests frá 1840 en engar öruggar heimildir tilgreina hvenær selið var í notkun og hverjir höfðu þar í seli.

Örnefnið Sigurðarsel hefur teygt sig yfir gjörvallan Hrafnagjárhallinn milli Selstígs og Klukkustígs. Hér er einn þykkasti skógur í Þingvallahrauni. Grasbrekka er á einum stað í hallinum og nefnist Sigurðarselsbrekka.
Frá Selstíg breytist Hrafnagjá í slitróttar en varasamar sprungur sem eru að miklu leyti huldar birkikjarri. Hrafnagjá hverfur loks við svokallaðan Rauðshól en einstaka sprungur liggja í framhaldi hennar fram hjá tveimur Svínhólum og inn í Gapahæðir (syðri og innri). Þar kemur framhald Hrafnagjár í ljós og nefnist Gapahæðagjá.

Lýkur þá upptalningu örnefna í og við Hrafnagjá. 

Heimildir

Tengd örnefni