Kambsvarða

Google Maps
Ornefni Atlas Kambsvarda 900D

Kambsvarða er varða syðst á Kambi og neðst á Kambsvörðuhrauni. Kambsvarða var áður hornamark milli jarðanna Arnarfells (þar áður Þingvallabæjar), Gjábakka og Mjóaness. Nú er varðan landamerki milli þjóðgarðsins á Þingvöllum og Mjóaness. Gömul leið, Prestagata eða Prestsvegur, liggur frá Hallstíg á Hrafnagjá fram hjá vörðunni suður að Miðfelli og þaðan að Úlfljótsvatni, þar sem Þingvallaprestar sóttu annexíur.

Staðsetning Kambsvörðu hefur verið ákvörðuð við kjarrgróna hæð skammt austan bílaútskots á Þingvallavegi austan Arnarfells. Tvö hrunin vörðustæði standa á hæðinni. Viðarstiku hefur verið komið fyrir á því syðra og liggur þjóðgarðsgirðingin um hana miðja. Hitt vörðustæðið er tíu metrum norðar og er auðkennt af gamallri vegstiku. Annað vörðubrot, ögn heillegra, má finna 30 metrum austar og enn annað vörðubrot er um 45 metrum norðan við það.

Getið er um aðra vörðu, Prestavörðu, 400 metrum suðaustar. Líklegast er þar um að ræða annað nafn á Kambsvörðu. Þar má þó finna enn annað vörðubrot og því er staðsetningunum haldið aðskildum að sinni.

Kambsvarða

Tvö hrunin vörðustæði sem ákvarða legu þjóðgarðsgirðingarinnar. Arnarfellsendi er efst til vinstri á myndinni.

Kambsvarða í frumheimildum

Kambsvörðu er getið í landamerkjaskrá Þingvallabæjar, undirritaðri af séra Jens Pálssyni Þingvallapresti 1886 og þinglýstri 1890, en þar bar hún ekkert sérstakt nafn:

„Frá Öxarármynni liggur Þingvallavatn fyrir landinu suður að Langatanga (Sauðanesi). Úr klofnum hellusteini á Langatanga liggja svo mörkin beina stefnu að sjá í slakkann milli Gildruholta og allt til markavörðu við hinn forna svonefnda Prestsveg, þá ræður Prestsvegurinn mörkum til Hallstígs á Hrafnagjá, og svo Hrafnagjá inneptir þar til hún þrýtur við Rauðshól.“

Sömu vörðu er getið í landamerkjabréfi fyrir Gjábakka, dagsettu 1890:

„Frá Hallstíg á Hrafnagjá [liggja mörkin] í vörðu neðst í Kambsvörðuhrauni, þaðan í Stóra-stein, þaðan í Róthól [...]“

Einnig er vörðunnar getið í landamerkjabréfi fyrir Mjóanes frá sama ári:

„Milli Arnarfells og Mjóaness eru mörkin þessi: Úr Langatanga og þaðan í vörðu við hinn svonefnda forna Prestsveg; milli Gjábakka og Mjóaness: Úr nefndri vörðu í Stórastein og svo þaðan í há Róthól [...]“

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá Arnarfells frá 1982:

„Beint í suður frá Hallsstíg er skógarhæð og hæst á henni er varða, sem heitir Kambsvarða. Þar eru mörk þriggja jarða, Arnarfells, Mjóaness og Gjábakka. [...] Suðaustur frá Hallsstíg, vestast í skógartöglunum, er skógarhæð með vörðu á. Hún heitir Kambsvarða (32) og er hornamark.“

Kristján segir þá í svari við spurningalista (í kringum 1982–1985) sem starfsfólk Örnefnastofnunar samdi upp úr örnefnaskrá Arnarfells:

10. Við hvaða kamb er Kambsvarða kennd? Suðvestan við túnið á Gjábakka. Kambur eru hraunhólar suðvestan við túnið á Gjábakka.“

Kristján getur Kambsvörðu einnig í örnefnaskrá sinni um Gjábakkaland sem rituð var í kringum 1980–1985:

„Kambsvarða (1) er í suðvestur frá Gjábakka. Er þríhyrningsmark milli jarðanna Gjábakka, Arnarfells og Mjóaness.“

Einnig getur Kristján Kambsvörðu í örnefnaskrá sinni um Mjóanessland frá 1984:

„[Frá Langatanga] liggja mörkin í norðaustur að smáhæð með vörðu á, Kambsvarða. Þar mætast mörk þriggja jarða, Arnarfells, Gjábakka og Mjóaness.“

Heimildir

Tengd örnefni