Kirkjuklöpp
Kirkjuklöpp er móbergsrani á Arnarfelli sunnan Lögmannsbrekku. Nákvæm staðsetning örnefnisins á fellinu liggur ekki fyrir og er hér ákvörðuð gróflega.
Kirkjuklöpp er annað af aðeins tveimur þekktum örnefnum innan þjóðgarðsins á Þingvöllum sem vísar til huldufólks og eina þekkta örnefnið þar sem beinlínis er minnst á álfatrú (hitt örnefnið er Álfasteinn í Kárastaðalandi). Sárafáar þjóðsögur um álfa, drauga og önnur hindurvitni hafa varðveist í Þingvallasveit og því má telja Kirkjuklöpp mikilvægt örnefni í því samhengi.
Kirkjuklöpp í frumheimildum
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá Arnarfells frá 1982:
„Fram með [Arnarfelli] að suðaustan er brött grasbrekka og flöt niður frá henni. Hún heitir Lögmannsbrekka (33). Sunnan við hana er móbergsrani til suðurs, sem heitir Kirkjuklöpp (34). Þar framar og upp af, þar sem fjallið lækkar til suðvesturs, er það lárétt, og heitir þar Bekkir (35), grasi grónir móbergsskorningar. Þar dregur í smáhæð, sem er vestasti hluti fellsins upp af Sláttulág.“
Kristján segir þá í svari við spurningalista (í kringum 1982–1985) sem starfsfólk Örnefnastofnunar samdi upp úr örnefnaskrá Arnarfells:
„Kirkjuklöpp? Gæti verið í sambandi við það, þar er álfabyggð.“