Kjóavellir
Kjóavellir eru deiglendar grasflatir við bakka Öxarár ofan Brúsastaðabrekkna, beint vestur af Grímagili. Þar rennur lækur úr Búrfellsgili niður í Öxará. Vellirnir sjálfir eru sundurskornir af gömlum farvegum.
Kjóavellir í frumheimildum
Haraldur Einarsson, sem fæddist á Brúsastöðum 1913 og ólst þar að mestu upp til 23 ára aldurs, segir svo í örnefnaskrá Brúsastaða frá 1981:
„Kjóavellir (46) eru inn við Búrfellsgilið. Þeir eru einnig austan ár, í landi Þingvalla.“
Ónefndur heimildarmaður segir svo í ódagsettri örnefnaskrá Svartagils:
„[Landamerki Svartagils:] Úr Langastíg (1) (tvær vörður), og hraunkanturinn hjá gömlu réttunum, síðan heldur nær bænum og í nyrðri tjörnina fyrir vestan Grímugil (2). Úr tjörninni yfir brekkuna í Kjóavelli (3) og síðan eftir Öxará (4). (Kjóavellir eru á móts við Búrfellsgil (5)). Síðan óljóst yfir fjallgarðinn og síðan niður Sleðaás (6) að austanverðu, síðan fylgir það þjóðgarðsgirðingunni.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Kjóavelli inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.