Langistígur
Langistígur er stígur í Almannagjár-misgengingu þar sem hægt er að ganga af efri gjárbarminum niður í Stekkjargjá gegnum þrönga sprungu. Langistígur var jafnframt landamerki milli þjóðgarðsins á Þingvöllum og Svartagils eftir þjóðgarðsmyndun og var miðað við tvær vörður ofan stígsins.
Líklegt má telja að alfaraleið hafi legið um Langastíg í aldaraðir. Stígurinn þótti þó erfiður yfirferðar og árið 1830 var hann gerður greiðfær klyfjahestum og götubotninn flóraður. Ófeigi Jónssyni frá Heiðarbæ er almennt eignuð verkstjórn og sést enn til flórsins í dag. Heybandsvegur Þingvalla- og Skógarkotsbænda lá um Langastíg og þar var mikilvæg alfaraleið og póstvegur fram í fyrri hluta 20. aldar.
Langistígur er nú fjólsóttur af gestum þjóðgarðsins, sem leggja gjarnan á malarbílastæði samnefnt stígnum skammt ofar og fara þar niður í Stekkjargjá. Útsýnispallur er fyrir ofan Langastíg sem býður upp á fagurt útsýni til suðurs og aðalbláberjalyng vex á stöku stað í gjánni að vestanverðu. Örðugt getur þó reynst að fara um Langastíg að vetrarlagi, því hann fyllist fljótt af fannfergi og helst oft í klakaböndum fram að sumarbyrjun.
Horft til suðurs inn eftir Stekkjargjá frá Langastíg.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Langistígur í heimildum
Sveinn Pálsson getur Langastígs í ferðabók sinni sumarið 1793. Svo segir í íslenskri þýðingu Ferðabókar Sveins Pálssonar frá 1945, bls. 222:
„Skammt fyrir vestan Snókagjá, fast við einstigi það upp úr Almannagjá, er Langistígur nefnist, sést staðurinn, þar sem þjófar voru hengdir í fyrri tíð.“
Kristján Magnússon, bóndi í Skógarkoti og hreppstjóri Þingvallasveitar, greinir frá framkvæmdum við Langastíg í bréfi til sýslumanns dagsettu 27. júní 1830:
„Hér með gefst yður veleðla virðugleikum til kynna um vegabætur í Þingvallahreppi á þessu vori, og hef ég látið ryðja Almenningsveginn frá Hlíð suður að Bitru, Dyraveg yfir fjallið fyrir norðan Hengil, Nesjahraun frá Miðfellsfjalli til Hrafnagjár. Almenningsveginn frá svokölluðum Stelpuhelli til Hrafnagjár austur Hallinn og hraunið til Almannagjár. Norðlendingaveginn frá Öxará til Bolaklyfs og þann svokallaða Langastíg yfir Almannagjá, sem menn ekki til vita, að nokkurntíma hafi klyffær verið [...]“
Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir í bók sinni Þingvöllur: alþingisstaðurinn forni frá 1945, bls. 98:
„En þeir, sem [riðu til alþingis] syðst úr Þverárþingi eða fóru þar um, komu Botnsheiði og Leggjabrjót; er sá vegur farinn enn, og riðið um Langastíg á Þingvöll [...].“
Ónefndur heimildarmaður segir svo í ódagsettri örnefnaskrá Svartagils:
„[Landamerki Svartagils:] Úr Langastíg (1) (tvær vörður), og hraunkanturinn hjá gömlu réttunum, síðan heldur nær bænum og í nyrðri tjörnina fyrir vestan Grímugil (2).“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Langastíg inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.
Heimildir
Björn Th. Björnsson. (1987). Þingvellir – staðir og leiðir (2. útg.). Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.
Skúli Helgason. (17. janúar 1971). Þáttur af Ófeigi smið í Heiðarbæ. Tíminn Sunnudagsblað, 28–32.
Svartagil. (e.d.). [Heimildamaður ókunnur, Guðjón Friðriksson skráði]. Örnefnastofnun Íslands.
Sveinn Pálsson. (1983). Ferðabók Sveins Pálssonar. Dagbækur og ritgerðir 1791–1797. Jón Eyþórsson, Pálmi Hannesson og Steindór Steindórsson íslenskuðu. (2. útg., 1. bindi). Örn og Örlygur.