Öxará
Öxará er stærsta vatnsfallið sem rennur ofanjarðar út í Þingvallavatn. Upptök Öxarár eru í Myrkavatni, norðan Búrfells og Kjalar. Þaðan rennur hún ríflega 14 kílómetra vegalengd um dali, fjallshlíðar og móbergshryggi þar til komið er niður að Brúsastöðum. Þaðan bugðast Öxará um hraunflatir, þar sem eldri árfarvegir hennar eru enn sýnilegir. Þaðan steypist áin ofan í Almannagjá og myndar Öxarárfoss og rennur þaðan eftir gjárbotninum þar til hún steypist niður á Þingvelli um flúð í Hallinum við Drekkingarhyl. Þaðan rennur Öxará eftir alþingisstaðnum forna út í Þingvallavatn.
Öxará er ein af sögufrægustu ám Íslands og eitt helsta kennileiti Þingvalla. Hún gegndi veigamiklu hlutverki við að móta alþingisstaðinn forna og staðhætti hans. Nafnið er talið ná allt aftur til landnámsaldar og síðari alda þjóðsögur hafa varðveist um ána.
Öxará er dragá og tekur í sig yfirborðsvatn á leið sinni út í Þingvallavatn. Því sveiflast vatnsrennsli hennar töluvert eftir úrkomumagni. Hún getur orðið að beljandi stórfljóti í vatnavöxtum og flætt yfir gjörvallan þingstaðinn. Í langvarandi þurrkum verður Öxará aftur á móti lítil sem lækur og dæmi er um að hún hafi hreinlega þornað upp á 18. öld. Urriðar úr Þingvallavatni ganga upp Öxará til hrygningar á haustin en ofan Drekkingarhyls og allt upp í Myrkavatn er annar, smávaxnari urriðastofn.
Uppruni örnefnisins
Landnámsmaðurinn Ketilbjörn „gamli“ Ketilsson er sagður hafa gefið Öxará nafn sitt snemma á 10. öld. Samkvæmt Landnámabók (99. kafla) hafi Ketilbjörn leitað sér landskosta austan Mosfellsheiðar vor eitt og gert sér náttból og skála við Skálabrekku. „En er þeir fóru þaðan, komu þeir að á þeirri, er þeir kölluðu Öxará; þeir týndu þar (í) öxi sinni.“
Könnunarferð Ketilbjörns er endursögð í Haukdælaþætti Sturlungasögu (138. kafla) og höfð eftir Teiti Ísleifssyni, fóstra Ara fróða Þorgilssonar. Þar komu Ketilbjörn og fylgdarmenn hans „á árís og hjuggu á vök og felldu í öxi sína og kölluðu hana af því Öxará. Sú á var síðan veitt í Almannagjá og fellur nú eftir Þingvelli.“
Ekki er ljóst hvort öxi þessi hafi lent ofan í ánni af slysni eða ásetningi. Ekki kemur heldur fram hvað lá að baki veitingu Öxarár niður Almannagjá en almennt er það talið hafa verið gert til að tryggja þingheimi rennandi neysluvatn.
Örnefnalýsing Öxarár
Upptök Öxarár
Upptök Öxarár eru í sunnanverðu Myrkavatni: litlu stöðuvatni norður af Búrfelli og Kili í um 400 metra hæð yfir sjávarmáli. Upptökin ákvarða mörk Kjósarhrepps og Bláskógabyggðar og þar voru áður mörk Árnessýslu og Kjósarsýslu. Landamerki þjóðgarðsins á Þingvöllum (og þar áður Þingvallabæjar og hjáleigna hans) liggja frá Kili að upptökum Öxarár og þaðan til Botnssúlna.
Öxará rennur til suðausturs frá Myrkavatni og niður dal milli Búrfells og Botnssúlna sem nefnist einfaldlega Öxarárdalur. Hér skilast úrkomuvatn úr hlíðunum út í ána í mörgum seytlum. Sú stærsta nefnist Súlnaá og sameinast Öxará skammt austan Myrkavatns. Upptök Súlnár eru innst í Súlnadal, rúmum fjórum kílómetrum norðan ármótanna. Súlná rennur fram hjá hæð sem nefnist Leggjarbrjótur og þjóðleið kennd við hæðina liggur niður dalinn meðfram Öxará.
Öxará tekur krappa beygju til norðurs fremst í Öxarárdal og myndar þar skeifulaga gil, 20–30 metra djúpt. Í því miðju rennur Súlnalækur út í Öxará; hann á upptök sín í Fossabrekkum, syðst við Súlnaberg. Þaðan tekur áin stefnu til suðurs og liggur farvegurinn í lægðum milli móbergsása.
Kippkorn sunnar myndar áin vallendisteig sem kallast Kjóavellir. Sunnarlega við þá er mynni Búrfellsgils og úr því rennur lækur út í Öxará. Héðan ákvarðaði Öxará landamæri Brúsastaða (vestan ár) og Þingvallabæjar (austan ár) alla leið niður að Þingvallavatni. Vestan Kjóavalla er getið um Búrfellsmýri við ána Brúsastaðamegin.
Allnokkuð sunnan Kjóavalla er grasteigur sem nefnist Árnateigur og við hann rennur lítill lækur út í Öxará. Fyrir neðan teiginn er móbergshryggur sem heitir Rani. Hann er syðst í Brúsastaðabrekkum. Farvegur Öxarár rennur meðfram sunnanverðum Rana og snarbeygir svo til norðurs. Í miðri beygjunni eru leifar vatnsaflsvirkjunar frá Brúsastöðum sem var í notkun árin fyrir þjóðgarðsmyndun.
Öxará rennur stuttan spöl til norðurs og þar, við norðurenda Djúpugrófarholts, verður vinkill í ánni sem heitir Albogi. Skammt áður rennur Engjalækur út í Öxará og nefnist lítil landspilda milli lækjarins og árinnar Lækjartunga.
Öxará neðan Brúsastaðabrekkna
Þá er komið niður á undirlendið norðan Brúsastaða. Frá Alboga bugðast Öxará í austurátt fram hjá tveimur móbergshólum sem nefnast Einbúi og Trausti. Norðan ár er Brúsastaðamýri og austan hennar liggur gamli Norðlingavegurinn yfir Öxará um svonefnt Norðlingavað.
Eftir allnokkurn spöl tekur áin beygju til suðurs. Þar fer Þingvallavegur um steypta brú yfir ána. Torfveggur er norðan við akveginn og væntanlega hlaðinn til að verja veginn frá vatnavöxtum. Gömul selstaða frá Þingvallabæ er skammt austan við brúna, rétt sunnan við Þingvallaveginn. Vestan ár, einnig sunnan vegarins, er stekkur eða einhvers konar aðhald frá Brúsastöðum. Skammt sunnan brúarinnar rennur Öxará loks niður Almannagjá.
Farvegur Öxarár á þessum slóðum hefur verið síbreytilegur gegnum aldirnar. Greina má fjölda eldri farvega austan og sunnan Brúsastaða. Sá greinilegasti en enn ógróinn og liggur sunnan við og samsíða núverandi árfarvegi frá malarvinnslusvæði við Trausta niður að brúnni við Þingvallaveg. Þar sést vatn renna sumarið 1942. Enn aðrir farvegir eru nú grónir og misgreinilegir og heita þeir einu nafni Árfar. Þeir stefna suður fram hjá Kárastöðum og enda við Þingvallavatn í landi Skálabrekku. Er líkum að því leitt að Öxará hafi runnið um Árfarið áður en henni var veitt niður Almannagjá eftir stofnun alþingis, sbr. frásögn Sturlungasögu af landnámsmanninum Ketilbirni.
Öxarárfoss og Þingvellir
Öxará steypist fram af efri barmi Almannagjár og myndar hinn víðfræga og formfagra Öxarárfoss. Annar árfarvegur er skammt norðar – ofan Stekkjargjár – og hefur áin stundum veist niður hann, síðast árið 2013. Einstaka smáurriði hefur sést í ánni fyrir neðan Öxarárfoss.
Frá Öxarárfossi rennur áin til suðurs eftir botni Almannagjár, sem hér er nokkuð óaðgengileg. Eftir tæpa 500 metra verður hnik á gjánni og hlykkist Öxará þar niður milli klettarima og myndar flúðir. Forn hleðsla er við einn klettinn ofan flúðanna. Þar fyrir neðan myndar áin Drekkingarhyl, þar sem konum var drekkt á 17. og 18. öld. Þaðan rennur Öxará niður um haft á lægri barmi Almannagjár – sem nefnist Hallurinn – og myndar sæmilega flúð sem ber ekkert sérstakt nafn.
Nú er komið niður á vellina fornfrægu þar sem alþingi Íslendinga var háð í yfir 800 ár. Vellirnir eru upphaflega myndaðir af framburði Öxarár, jafnt á sögulegum sem og forsögulegum tímum. Norðan við flúðina undan Drekkingarhyl eru Neðri- og Efrivellir og eftir þeim má glöggt greina gamlan árfarveg sem virðist ná allt inn að Stekkjargjá við Furulundinn. Fornar tóftir eru upp við Hallinn skammt frá árbakkanum undan flúðinni og hér er einnig getið um þvottastað Skógarkotsbænda.
Öxará tekur nú stefnu suður og heita vellirnir hér einu nafni Þingvellir. Áin mótar þá stöðugt: hleður upp framburði á sumum stöðum en sargar í vatnsbakkann annars staðar. Rennslið í ánni eykst þá nokkuð á völlunum vegna grunnvatns sem rennur út í ána í nokkrum lindum. Þetta veldur því að ásýnd þingstaðarins er allt önnur nú á þriðja áratug 21. aldar en hún var á síðustu öld og jafnvel eins og hún var um aldamótin 2000. Þetta skýrist þó einnig af mannavöldum, því aðalfarvegur Öxarár lá beint undir Hallinum snemma á 20. öld, við hinn eiginlega Þingvöll, en rennslinu var veitt þaðan til varnar þingminjum skömmu fyrir stofnun þjóðgarðsins. Þar rennur áin stundum í vatnavöxtum.
Öxará kvíslast í tvær meginrásir sunnan flúðarinnar neðan Drekkingarhyls og er sú eystri mun dýpri og straumþyngri. Milli rásanna er Öxarárhólmi og voru göngubrýr reistar sín hvorum megin við hann skömmu fyrir lýðveldishátíðina 1994. Örnefnið kemur fyrir í Landnámabók og öðrum Íslendingasögum; þar voru hólmgöngur á alþingi þar til skömmu eftir kristnitöku. Hólminn sem nú ber nafnið er í raun samansafn nokkurra smærri hólma sem urðu samfastir á 20. öld.
Austan Öxarárhólma eru tveir aðrir hólmar sem hafa að miklu leyti orðið landfastir á síðustu áratugum. Sá nyrðri nefnist Þorleifshólmi og er kenndur við Þorleif jarlsskáld sem var sagður heygður í eða við hólmann í lok 10. aldar. Sá syðri nefnist Jakobshólmi. Lítil og mjó árkvísl aðskilur austurhlið hans frá landinu. Hólminn er brúaður á báðum langhliðum og tengist gönguleiðinni yfir Öxarárhólma. Mikið hefur kvarnast úr vesturhlið Jakobshólma á síðustu árum. Sunnan Jakobshólma er kaldavatnsuppspretta í litlu sýki og rennur vatn þaðan út í Öxará. Þar gerði Þingvallaprestur árangurslausa tilraun til að koma upp laxeldi á síðari hluta 19. aldar.
Önnur örnefni þekkjast í og við Öxará á þessum slóðum en staðsetningar þeirra eru sumar óljósar eða glataðar. Einn hólminn í ánni bar nafnið Kagahólmi á 17. öld. Þar voru sakamenn húðstrýktir og reisti hirðstjóri nokkur sér þingbúð á honum í upphafi sömu aldar. Sumar alþingislýsingar frá 18. öld geta þess að lögrétta hafi verið í Kagahólma til forna, þótt ekkert hafi fundist því til sönnunar. Kagahólmi hefur verið talinn einn af smáhólmunum sem nú mynda Öxarárhólma. Örnefnið Höggstokkseyri var notað samtíða Kagahólma, eftir höggstokknum þar sem sakamenn týndu höfðum sínum. Hann hefur nú fyrir löngu skolast með ánni út í Þingvallavatn en staðsetning Höggstokkseyrar hefur gjarnan talin hafa verið hjá Þorleifshólma. Loks er getið um svokallaðan Guðlaugshólma en ekkert er vitað um staðsetningu hans. Enn fleiri smáhólmar eru nú í Öxará og bera engin nöfn, enda hafa þeir flestir myndast á síðustu 20–50 árum.
Sunnan Öxarárhólma sameinast rásir Öxarár í einn farveg á ný. Austan ár heita Biskupshólar og norðan þeirra eru mögulegir hleðslusteinar undan fornu mannvirki ofan í ánni. Getið er um brú yfir Öxará í fornritum – þ.á.m. Njálu – og hefur brúarstæðið almennt talið hafa verið hjá hólunum. Vestan ár kallast völlurinn Þingið og þar eru tugir þingbúða í miklum þyrpingum. Syðst við Þingið er ævaforn búðartóft sem ber nafnið Njálsbúð. Hluti hennar – eða annarrar búðar upp við hana – liggur nú á botni Öxarár. Þar sjást stórir og greinilegir hleðslusteinarnir sem mynda vegghorn á mannvirki.
Héðan verður völlurinn vestan ár að mýrlendi. Svo hefur ekki alltaf verið, því a.m.k. tvær stórar þingbúðir hafa fundist ofan í mýrinni. Þar fyrir sunnan stóð gistihúsið Valhöll uns það brann árið 2009. Staðurinn kallast nú Valhallarreitur og liggur akvegur og brú yfir ána að honum úr austri. Núverandi brú var reist um 1994 og leysti eldri brú af hólmi.
Sunnar brúarinnar og austan ár eru grynningar sem nefnast Fjósavatn og vellur þar kalt vatn úr uppsprettum. Hér voru engjar Þingvallabænda þar til þær sukku ofan í vatnið í jarðskjálftahrinunni miklu 1789. Malarkambur var reistur til að aðskilja Fjósavatn og Öxará skömmu fyrir 1960. Sunnan malarkambsins er stór hólmi sem nefnist Kúatorfa og vestan við hann rennur Öxará loks út í Þingvallavatn. Á þessum slóðum var vað yfir ána um hinn forna Hallveg, sem sökk einnig í jarðskjálftunum 1789.
Þjóðsögur um Öxará
Önnur útskýring á nafni Öxarár er öllu ævintýralegri og kemur fram í þjóðsögunni af tröllskessunni Jóru. Jóra þessi hafðist við í Jórukleif, upp af Hestvík við suðvestanvert Þingvallavatn og olli þar miklum mannskaða og harmindum. Segir svo frá í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, 1. bindi, bls. 182–184:
„Nú þegar í þessi vandræði var komið, og engin ráð fengust til að vinna Jóru, því svo var hún kölluð eftir að hún trylltist, né heldur til að stökkva henni á burtu varð til ungur maður einn, sem var í förum landa á milli, og var í vetur í Noregi. Hann gekk fyrir konung einn dag, og sagði honum frá meinvætti þessum, sem í Henglinum byggi, og bað konung kenna sér ráð, til að ráða tröllið af dögum. Konungur segir, að hann skuli fara að Jóru um sólaruppkomu á hvítasunnumorgun: „því ekki er svo vond vættur, né svo hamrammt tröll til, að ekki sofi það sá,“ segir konungur. „Muntu þá koma að Jóru sofandi, og mun hún liggja á grúfu. Er hér öxi, er ég vil gefa þér,“ segir konungur, og fékk honum um leið öxi silfurrekna, „og skaltu höggva henni milli herða tröllsins. Mun þá Jóra vakna, er hún kennir sársaukans, snúa sér við og segja „Hendurnar fastar við skaptið.“ Þá skaltu segja: „Fari þá öxin fram af.“ Mun hvorttveggja verða að áhrínsorðum, og mun Jóra velta sér niður í vatn það, sem þar er ekki langt frá, er hún liggur í Jórukleif, með axarblaðið milli herðanna. Mun axarblaðið síðan velja sér þingstað.“ Svo mælti konungur; en maðurinn þakkaði honum ráðin og axargjöfina. Fór hann síðan út til Íslands, og fór að öllu, sem konungur hafði fyrir hann lagt, og banaði Jóru. Rættist öll spá konungs, og rak axarblaðið í á þá, sem síðan heitir Öxará, þar sem Íslendingar settu alþing sitt.“
Önnur þjóðsaga um yfirnáttúrulega atburði í Öxará er geymd í þjóðsögum Jóns Arnarsonar, 2. bindi, bls. 78:
„Það er sagt, að Öxará verði að víni eina stund á ári hverju. Svo bar við, að prestar tveir vöktu á Þingvöllum á gamlársnótt. Annar þeirra var ungur maður, og var hann að búa til ræðu til nýársdagsins. Hinn presturinn var gamall, og sat hann hjá hinum yngri til skemmtunar honum. Um miðnættið þyrsti hinn unga prest ákaflega; hljóp hann þá með flösku út í Öxará, og tók á hana vatn úr ánni. En þegar hann kom heim, og fór að skoða vatnið, sá hann, að það var á því vínlitur. Hann saup á flöskunni, og fann, að það var allrabesta vín á henni. Drukku nú báðir prestarnir úr flöskunni, og settu hana svo í gluggann hjá sér. Að litlum tíma liðnum taka þeir aftur flöskuna, og ætla nú að gera sér gött af víndropanum, sem eftir var á henni. En þá var hreint og tært vatn á flöskunni. Þeir undruðust þetta mjög, og töluðu margt um atburð þennan. Hinn yngri prestur hét að reyna hvernig vatnið yrði í ánni um sama leyti næsta ár. Leið nú að næstu gamlársnótt. Voru þá prestarnir aftur báðir á fótum. Um miðnættið fer ungi presturinn, eins og fyrr, og sækir á flösku í ána. Þegar hann kom heim, sýndist honum blóðlitur á því, sem í flöskunni var. Hann sýpur á, og finnur, að nú er blóð í flöskunni. Setur hann þá flöskuna af sér, en tekur hana bráðum aftur. Var þá vatn á flöskunni, en ekkert blóð. Þeir ræddu margt um þetta prestarnir, og þykjast nú enn síður skilja í breytingum árinnar. En sú var trú manna, að þegar Öxará yrði að blóði, þá vissi það á blóðúthellingu á alþingi. Er það og sagt, að svo fór í þetta sinn, að á næsta alþingi varð bardagi og mannfall mikið.“
Öxará í frumheimildum
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson rita um Öxará í ferðabók sinni 1752–1757. Svo segir í íslenskri þýðingu Steindórs Steindórssonar (2. bindi, 1981), bls. 168–169:
„Sannanlegt er, að [Öxará] hefir þorrið nokkrum sinnum. Hún er ekki meðalá að vatnsmagni, en vex ört í rigningum og þverr í langvarandi þurrkum. Annar okkar hefir séð hana hverfa árið 1740. Þornaði áin þá um þingtímann, svo að hægt var að ganga þurrum fótum yfir hana milli kirkjuráðsins (Consistorium) og lögréttu. Einkennilegast var þó, að hún óx ekki smám saman, á sama hátt og hún minnkaði, heldur brauzt hún skyndilega fram einn morgun, á meðan þurrkarnir héldust. Allir, sem á Þingvöllum voru staddir, urðu undrandi og vissu ekki, hvaðan á sig stóð veðrið, þegar allt í einu heyrðist gnýr mikill, um leið og áin steyptist í hinum þrönga farvegi sínum fram af klettunum ofan í Almannagjá. En óttinn hvarf af mönnum, þegar þeir sáu, að þetta var einungis Öxarárfoss, sem kominn var í sinn fyrri farveg, sem áin hefir síðan haldið. Að þessu sinni virðist þurrkurinn einn ekki hafa valdið því, að áin hvarf, heldur hlýtur einhver breyting að hafa orðið uppi í fjöllunum við upptök hennar. Ef til vill hefir skriða stíflað uppsprettu árinnar, þar til vatnið hefir verið orðið svo mikið, að það annaðhvort hefir runnið yfir stífluna eða sprengt hana.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í Þingvallaþönkum sem hann ritaði í kringum 1980–1985, bls. 4–5:
„Eftir að Öxará var farin að renna fram af brún Almannagjár, hefur hún runnið austur í Stekkjargjá og niður í gegnum skarðið á neðri gjábarminum, vestan við Furulundinn. Þarna hafði áin mikið verk að vinna að fylla upp gjár og sprungur og síðan að skapa frægustu velli á landi hér: Þingvelli. Öxará gerði meira, hún hlóð upp mikið landsvæði fyrir framan núverandi ósa sína með framburði sínum. Þetta flatlendi náði líklega langleiðina suður að Lambhaga (það er tanginn, sem er beint á móti ósum árinnar sunnan við víkina) og vestur með Hallinum að Rauðukusunesi (Kárastaðanesi). Þarna varð mikil breyting árið 1789 sem síðar verður sagt frá. Ljóst er ef horft er yfir Þingvelli, að áin hefur þurft langan tíma til að byggja upp þetta landsvæði, líklega þúsundir ára.
Þegar ég var að alast upp í Skógarkoti á öðrum og þriðja tug þessarar aldar, átti ég oft leið um Þingvelli. Mér er það minnisstætt, að glöggur uppgróinn árfarvegur var eftir Efrivöllunum, innan frá skarðinu í neðri gjábarmi Stekkjargjár, suður á milli Kastala og þaðan í farveg Öxarár. Milli árfarvegarins og hraunbrúnarinnar að austan, voru vellirnir allir sundurskornir af reiðgötum, sem lágu hlið við hlið eftir endilöngum Efrivöllunum. Þegar inn fyrir árfarveginn kom, lágu sumar beint áfram inná Leira en aðrar lágu suðaustur úr Vallarkróknum á hraunveginn að Skógarkoti.“
Heimildir
Eggert Ólafsson & Bjarni Pálsson. (1981). Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (2. bindi). Steindór Steindórsson íslenskaði. Örn og Örlygur.
Haraldur Einarsson. (1981). Brúsastaðir [Jónína Hafsteinsdóttir skráði]. Örnefnastofnun Íslands.
Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.
Svartagil. (e.d.). [Heimildamaður ókunnur, Guðjón Friðriksson skráði]. Örnefnastofnun Íslands.
Tengd örnefni
- Albogi
- Almannagjá
- Árfar
- Árnateigur
- Biskupshólar
- Brúsastaðamýri
- Brúsastaðir
- Búrfellsgil
- Drekkingarhylur
- Engjalækur
- Fjósavatn
- Hallurinn
- Hallvegur
- Jakobshólmi
- Kjóavellir
- Kúatorfa
- Lækjartunga
- Myrkavatn
- Norðlingavað
- Norðlingavegur
- Rani
- Súlnalækur
- Súlnaá
- Þingið
- Þingvallavatn
- Þingvellir
- Þingvellir (bær)
- Þorleifshólmi
- Öxarárdalur
- Öxarárfoss
- Öxarárhólmi