Prestagata

Google Maps
Ornefni Atlas Prestagata 1D1d

Prestagata (eða Prestsvegur) er gömul leið í Þingvallasveit. Hún er sögð liggja frá Hallstíg á Hrafnagjá suður að Kambsvörðu (eða Prestavörðu) og réð sá leiðarbútur jafnframt landamerkjum Þingvallabæjar og Gjábakka. Frá vörðunni lá leiðin fram hjá Selshelli, þar sem Mjóanessbændur höfðu í seli, og þaðan suður að Miðfelli, fram hjá Miðfellsbænum og suður að Kaldárhöfða. Nafn leiðarinnar er dregið af ferðum Þingvallapresta á annexíur á Úlfljótsvatni.

Prestagata er aðskilið fyrirbæri frá Prestavegi (eða Hrafnabjargavegi) sem liggur yfir Hrafnabjargaháls og Prestsgötu milli Kárastaða og Kárastaðastígs.

Leiðarlýsing

Nákvæm lega Prestagötu er óráðin og er hér merkt við örnefnið Prestavörðu til bráðabirgða. Milli Hallstígs og Kambsvörðu má telja líklegt að leiðin hafi legið upp við kjarri grónar brekkurætur Kambsvörðuhrauns, hér um bil þar sem Þingvallavegur (36) er nú. Einnig má greina slóða sem liggur um mosagróna skógareyðu suðaustan Hallstígs.

Stuttan spöl austan Kambsvörðu má greina tvö eða þrjú vörðubrot upp við götuslóða sem liggur nær þráðbeint suður að Fjallsenda (norðurenda Miðfells). Hann er misgreinilegur á köflum og hefur tæpast verið notaður mikið á síðustu áratugum. 

Önnur gata liggur samhliða þessum slóða skammt austar og virðist hún hafa verið mun fjölfarnari og enn í einhverri notkun í dag. Hún er mun greinilegri og má rekja nær óslitna frá fjárhúsi Gjábakka suður að Stórasteini. Þaðan liggur gatan til suðurs fram hjá Selshelli og að Fjallsenda þar sem hún sameinast áðurnefndum götuslóða. Ætla má að önnur hvor þessara leiða – eða báðar – gæti komið til greina sem hin forna Prestagata.

Prestagata í frumheimildum

Leiðin er kölluð Prestsvegur í landamerkjaskrá Þingvallabæjar, undirritaðri af séra Jens Pálssyni Þingvallapresti 1886 og þinglýstri 1890:

„Frá Öxarármynni liggur Þingvallavatn fyrir landinu suður að Langatanga (Sauðanesi). Úr klofnum hellusteini á Langatanga liggja svo mörkin beina stefnu að sjá í slakkann milli Gildruholta og allt til markavörðu við hinn forna svonefnda Prestsveg, þá ræður Prestsvegurinn mörkum til Hallstígs á Hrafnagjá, og svo Hrafnagjá inneptir þar til hún þrýtur við Rauðshól.“

Pétur J. Jóhannsson segir svo í sveitarlýsingu Gunnars Þórissonar um Þingvallasveit í Sunnlenskum byggðum III, 1983, bls. 185–186:

„Frá Hallstíg lá þjóðleiðin suðaustur yfir Kambvörðuhraun. Á brún syðst í hrauninu stendur varða sem Prestavarða heitir. Hún er landamerkjapunktur milli Arnarfells, Gjábakka og Mjóaness. Sunnan við vörðuna skiptast leiðir. Eystri leiðin liggur neðan við Skógartöglin upp með þeim að sunnan á Taglaflöt. Þaðan austur fyrir Undirgang og sameinast Klukkustígsleiðinni [...]

Frá Prestavörðu á Kambsvörðuhrauni, sunnan við Hallstíg lá Prestagatan suður yfir Mjóaneshraun. Sunnarlega á hrauninu lá hún hjá Selshellinum. Þar var sel frá Mjóanesi. Selsrústirnar sjást vel ennþá [...]

Frá Selshellinum er haldið að Miðfellsendanum [...] Frá Miðfellsendanum er haldið suður með fellinu að Ferðamannahorni. Þaðan lá leiðin suður yfir hraunið að Kaldárhöfða (en áfram niður með fellinu að Miðfellsbænum). Þetta var leið Þingvallapresta á annexíuna á Úlfljótsvatni [...]“

Heimildir

Tengd örnefni