Prestavarða

Google Maps
Ornefni Atlas Prestavarda 275F

Prestavarða er örnefni syðst í Kambsvörðuhrauni. Prestavarða er líklega annað nafn á Kambsvörðu sem er merkt tæplega 400 metrum norðvestar. Þessi staðsetning fær þó að njóta vafans sem aðskilið fyrirbæri þar sem vörðubrot er hér að finna sunnan í kjarri gróinni hæð.

Tvö til þrjú vörðubrot eru við götuslóða í hraunflötinni sunnan þessarar staðsetningar. Má vera að þar sé hluti af svokallaðri Prestagötu sem Þingvallaprestar fóru um á leið í annexíur á Úlfljótsvatni.

Vörðubrot í Kambsvörðuhrauni

Afar grónar leifar af vörðubroti þar sem Pétur J. Jóhannsson merkir Prestavörðu.

Prestavarða í frumheimildum

Pétur J. Jóhannsson segir svo í sveitarlýsingu Gunnars Þórissonar um Þingvallasveit í Sunnlenskum byggðum III, 1983, bls. 185–186:

„Frá Hallstíg lá þjóðleiðin suðaustur yfir Kambvörðuhraun. Á brún syðst í hrauninu stendur varða sem Prestavarða heitir. Hún er landamerkjapunktur milli Arnarfells, Gjábakka og Mjóaness. Sunnan við vörðuna skiptast leiðir. Eystri leiðin liggur neðan við Skógartöglin upp með þeim að sunnan á Taglaflöt [...] Frá Prestavörðu á Kambsvörðuhrauni, sunnan við Hallstíg lá Prestagatan suður yfir Mjóaneshraun.“

Pétur merkir Prestavörðu á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar 50 metrum sunnan við núverandi staðsetningu (64.22304,-21.0429).

Heimildir

Gunnar Þórisson & Pétur J. Jóhannsson. (1983). Þingvallasveit, sveitarlýsing. Í Sunnlenskar byggðir III (bls. 171–216). Búnaðarsamband Suðurlands.

Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.

Tengd örnefni