Sandhóll
Sandhóll er lítill hæðarhryggur sem liggur samhliða Brúsastaðabrekkum (eða Grímagilsbrekkum) milli Grímastaða og Brúsastaðamýrar. Sandhóll er um 15 metra hár, malarkenndur og víða uppblásinn. Á honum eru tvö vörðubrot með um 50 metra millibili.
Lítil gróf er á milli Sandhóls og brekknanna og hefur þar kallast Mýrarkrókur. Norðan hólsins er hugsanleg staðsetning Ytri-Grímastaðamýrar. Gömul alfaraleið liggur meðfram hólnum að austanverðu og annan slóða má greina við vesturhliðina.
Sandhóll í frumheimildum
Guðmundur Erlingsson frá Þrándarstöðum, sem ólst upp á Brúsastöðum 1709 til 1737, lýsir landamerkjum uppeldisslóða sinna í bréfi frá 18. öld, sbr. Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni eftir Matthías Þórðarson, 1945, bls. 284–285. Þar getur Guðmundur lágrar brekku sem gæti samsvarað örnefninu. Segir svo hér með nútímastafsetningu:
„Búrfellsgil að ofan allt til Kjóavalla. Þaðan yfir þvert í krikann, sem kallaður var, og liggur til landnorðurs af Brúsastaðamýri – eða glöggvara að segja í stein stóran á lágu brekkunni fyrir ofan krikann – og þaðan bein sjónhending eftir endilöngu hrauninu fram á gjána mitt á milli Langastígs og Tæpastígs.
Ónefndur heimildarmaður segir svo í ódagsettri örnefnaskrá Svartagils:
„Baulufoss (7) rennur úr tjörninni (syðri?), sem er í Mýrarkróki (8). Fossinn er rétt vestan við gömlu réttir. Í Mýrarkrók er hóll, sem nefnist Sandhóll (9). Mýrin er fyrir vestan Grímugil (10). Fyrir ofan mýrina eru Brekkurnar (11). Meðfram þeim, við lækinn, fyrir austan Sandhólinn eru rústir, Grímukot (12). Þaðan var Hörður Grímkelsson.“
Heimildir
Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.
Svartagil. (e.d.). [Heimildamaður ókunnur, Guðjón Friðriksson skráði]. Örnefnastofnun Íslands.