Sleðaás
Sleðaás (einnig nefndur Sleðás) er móbergsás sem gengur út úr sunnanverðu Ármannsfelli. Sleðaás er með þekktari örnefnum í Þingvallasveit, enda hefur hann frá alda öðli verið í alfaraleið og kemur bæði fyrir í Grettis sögu og Sturlunga sögu. Almenningsvegir ofan úr hálendinu lágu fram eftir Ármannsfelli og niður Sleðaás um svokallað Bolaklif. Nú liggur Uxahryggjavegurinn um ásinn og samhliða honum er reiðgata.
Rétt austan Sleðaáss, við Bolaklif, er Bolaklifsrétt sem var notuð í skamman tíma í upphafi 20. aldar. Skammt norðar, við fjallsræturnar, er svæði sem nefnist Kriki. Nokkur útskot eru þar við veginn. Frá þeim er gjarnan gengið upp Sleðaás að hátindi Ármannsfells. Ofarlega á honum vex stakur einirunni. Mikil gjá gengur undan Sleðaási sem kallast Sleðaásgjá og vestan hennar nefnist Sleðaáshraun. Misgengi er einnig í sjálfum Sleðaási og liggur þvert yfir Ármannsfell.
Örnefnið Grettishaf hefur lengi verið tengt við Sleðaás en það gæti verið misskilningur og samblöndun við örnefnið Tröllháls norðan Ármannsfells.
Sleðaás í frumheimildum
Grettis saga Ásmundarsonar inniheldur tvær tilvísanir í Sleðaás. Svo segir í 16. kafla, eftir að Gretti Ásmundarsyni var dæmdur fjörbaugsgarður á alþingi:
„En er þeir riðu af þingi, höfðingjarnir, áðu þeir uppi undir Sleðaási, áðr en þeir skilðu. Þá hóf Grettir stein þann, er þar liggr í grasinu ok nú heitir Grettishaf. Þá gengu til margir menn at sjá steininn, ok þótti þeim mikil furða, at svá ungr maðr skyldi hefja svá mikit bjarg.“
Sleðaáss er aftur getið í 32. kafla Grettis sögu, í tengslum við hestaleit Þórhalls nokkurs Grímssonar, bónda í Forsæludal, á miðjum þingtíma:
„Þórhalli var vant hesta tveggja ljósbleikra ok fór sjálfr at leita. Af því þykkjast menn vita, at hann var ekki mikilmenni. Hann gekk upp undir Sleðaás ok suðr með fjalli því, er Ármannsfell heitir. Þá sá hann, hvar maðr fór ofan ór Goðaskógi ok bar hrís á hesti. Brátt bar saman fund þeira. Þórhallr spurði hann at nafni, en hann kveðst Glámr heita.“
Sturlunga saga inniheldur þrjár tilvísanir í Sleðaás, er allar tengjast alþingisferðum. Svo segir í 31. kafla:
„Nú er að segja frá ferðum þeirra feðga Arons og Bárðar að þeir koma ofan á Kluftir og sjá niður undir Ármannsfelli fjölda mikinn hrossa og manna og er nokkuð svo að þeir hugsa fyrir sér ráðið og þykir eigi ólíklegt að þeir Hafliði muni þar sitja fyrir og gæta svo hvorrartveggju leiðarinnar, er önnur liggur fram undir Ármannsfell og að Sleðaási en önnur leið liggur austur yfir hraunið undir Hrafnabjörg og undir Reyðarmúla til Gjábakka og svo austan um hraun til búða.“
Sleðaás kemur aftur við sögu í 33. kafla:
„Njósnarmenn komu til fundar við Þorgils undir Ármannsfelli fyrir ofan Sleðaás þar sem þeir Böðvar höfðu beðið og segja Þorgilsi allt sem vaxið var.“
Að lokum bregður Sleðaási fyrir í 222. kafla:
„Þá er flokkur Snorra reið ofan um hraun frá Sleðaási riðu þeir Þórður og Böðvar fyrir með flokk sinn. En er þeir komu á völluna efri sneru þeir vestur með hrauninu.“
Séra Páll Þorláksson Þingvallaprestur getur Sleðaáss og Grettishafs í fornleifaskýrslu sinni 8. ágúst 1817. Segir svo í Frásögum um fornaldarleifar, 1983, bls. 219–220:
„Þad sem gétur um í Grettirs Sögu XVIIJ Cap. ad þá höfdingiar hafe rided af Þínge, og ád under Sleda-Asi, hafe Grettir hafid Stein þann, er þar liggi í Grasinu, og nú heite Grettis-haf vita menn ej hvernig vera muni; því þar sem nú heitir Sleda Háls (líklega sama og Sleda-As) sudur úr Ármanns Fialle, er eingann þesshattar Stein ad finna, enn fyrir nordann Armannsfiall nordur á Afrétte er Háls, sem nú er kalladur Trölla-Hals, er máské hefur þá heitid Sleda-As; nordann under tedum Halse liggur á slettum Mel, austannverdt við Alfaraveg Nordlendinga, á sudurland, Steinn sem nú kallast Grettis-tak [...]“
Séra Björn Pálsson Þingvallaprestur segir svo í sýslu- og sóknarlýsingu sinni fyrir Hið íslenzka bókmenntafélag árið 1840 (útg. 1979, bls. 190). Svo segir í lýsingunni:
„Grettistak er norðan undir lágum hálsi, sem liggur norður úr Gagnheiðinni, sem nú er kallaður Tröllaháls, en í Grettis sögu Sleðaás. Þar segir, að hann hafi fengist við steininn lengi dags, að mig minnir. Sleðaás er nú kallaður lítill hryggur ofan úr Ármannsfelli að sunnanverðu, hjá sokölluðu Bolaklifi, og finnst þar nú enginn auðkennilegur steinn.“
Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni segir svo í grein sinni Örnefni í Þingvallahrauni í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1937–1939:
„Frá Sláttubrekku eru ekki örnefni í sjálfu Ármannsfelli á þessu svæði, en Stóra-gil (195b) er upp af Lambagjárhrauni og Litla-gil (196) upp af Sandskeiðum, og Kriki (197) þar, sem Sleðaás (178) gengur fram úr fjallinu.“
„Vestan Krika gengur Sleðaás suðvestur úr fjallinu. Kriki (200) er allur þjettum skógi vaxinn og er einn með fegurstu blettum í Ármannsfelli. Við suðurenda Sleðaáss eru gamlar fjárrjettir, hlaðnar úr hraungrjóti 1876. Þær var hætt að nota 1910.“
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, svarar þá í spurningalista (í kringum 1980–1984) sem starfsfólk Örnefnastofnunar samdi upp úr örnefnalýsingu Ásgeirs Jónassonar:
„Sleðás? Sleðás er langur háls, sem gengur suðvestur úr Ármannsfelli, sunnan við Bolabás. Hann var að mestu víði vaxinn. Gróðri hefur heldur hrakað.“
Kristján bætir við í örnefnaskrá sinni um Hrauntúnsland og afrétti Þingvallahrauns sem rituð var í kringum 1980–1985:
„Aðeins vestar upp frá Víðivöllum er breitt og nokkuð djúpt gil Stóragil (7), skammt vestar er Litlagil (8). Þar er fjallið skógivaxið og nokkuð grösugt, kemur þar aðeins beygja á fjallið, norðvestur að löngum hálsi sem heitir Sleðás (9). Austan við ásinn kallast svæðið Kriki (10).“
Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir svo í riti sínu Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945, bls. 87:
„Spöl vestar [frá Víðivöllum] gengur fram Sleðaás suður úr fjallinu, en krókurinn austan-við hann nefnist nú að eins Kriki. Sleðaás (Sleðás í daglegu tali) nefnist nú stundum Sleðháls, en ekki er það rétt.“
Þorsteinn Bjarnason frá Háholti segir svo í ódagsettri örnefnaskrá sinni um afrétt Þingvallasveitar:
„Framan í [Ármannsfelli] eru Stóragil (2) og Litlagil (3), þar er og brekka, er heitir Kriki (4). Niður úr fjallinu gengur hæðarrani, er heitir Sleðás (5). Vestan við hana er Bolabás (6), í honum er Gráskeljagil (7).“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Sleðaás (með rithættinum Sleðás) inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.
Heimildir
Björn Pálsson. (1979). Þingvalla- og Úlfljótsvatnssóknir. Í Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags 1839-1843 og lýsing Ölfushrepps anno 1703 eftir Hálfdán Jónsson (bls. 171–192). Sögufélag.
Grettis saga Ásmundarsonar. (1953). Í Íslendinga sögur VI: Húnvetninga sögur I (bls. 1–295). Guðni Jónsson bjó til prentunar. Íslendingasagnaútgáfan.
Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.
Páll Þorláksson. (1983). Þingvellir. Í Frásögur um fornaldarleifar 1817−1823. (bls. 219–222). Sveinbjörn Rafnsson bjó til prentunar. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.
Sturlunga saga (1. bindi). (1988). Örnólfur Thorsson ritstýrði. Svart á hvítu.
Þorsteinn Bjarnason. (e.d.). Afréttur Þingvallasveitar. Örnefnastofnun Íslands.