Stapi
Stapi er móbergsstapi vestan Arnarfells. Hann er um 200 x 100 metrar að flatarmáli, 30 metra hár og snýr samhliða landreksstefnunni. Kjarrgróður vex við rætur hans en toppurinn er mosagróinn. Klettabelti er á vesturhliðinni. Rétt sunnan Stapa er svonefnd Stapatjörn og milli hans og tjarnarinnar eru sagðar leifar af hreindýraskjóli frá um 1940. Þar má greina rétthyrnda dæld sem líkist mannvirki og er um 7 x 4 metrar að innanmáli.

Samsett loftmynd af Stapa frá apríl 2023. Hæðalíkan af hugsanlegri hreindýratóft í smærra korti sem sýnir glögglega rétthyrnda upphækkun sem snýr austur-vestur.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Stapi í frumheimildum
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá Arnarfells frá 1982:
„Upp af túninu [við Arnarfellsbæinn] gengur brík norður á bergið, og austur af henni hallar landinu til austurs að Stapatjörn (15) [...] Norðan við Stapatjörn er móbergshnjúkur, sem heitir Stapi (18). Framan í honum er tóft, sem notuð var sem skýli fyrir hreindýr, sem Matthías Einarsson hafði skömmu fyrir 1940.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Stapa inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.