Súlnagil

Google Maps
Ornefni Atlas Sulnagil 2D2f

Súlnagil

Súlnagil er stórt gil sunnan Botnssúlna. Það er myndað af leysingafarvegum undan Súlnabergi og Gagnheiði og sker sig niður hlíðarnar fram að svokölluðum Orustuhól. Súlnagil er allt að 80 metra djúpt og 150 metra breitt. Lækurinn sem rennur undan gilinu kallast Hrútagilslækur.

Annað Súlnagil má finna í norðurhlíðum Botnssúlna, skammt fyrir ofan Hvalvatn, utan þjóðgarðsmarka. Það er öllu minna en gilið sem hér um ræðir.

Súlnagil í frumheimildum

Þorsteinn Bjarnason frá Háholti segir svo í ódagsettri örnefnaskrá sinni um afrétt Þingvallasveitar:

Botnssúlur (45) eru í Árnessýslu og Borgarfjarðar, yfir Botnssúlur liggja mörkin milli sýslnanna, í þeim er Súlnagil (46) og Fossabrekkur (47).“

Guðmann Ólafsson, bóndi á Skálabrekku, segir svo í athugasemdum sínum við örnefnaskrá Þorsteins Bjarnasonar árið 1982:

Gagnheiði (44) er á milli Ármannsfells (1) og Súlna, há heiði, melbungur og ásar. Vestast í Gagnheiði er Súlnagil (46) uppi undir Súlum. Það er þurrt á sumrin, en þar er mikill vatnsframburður í leysingum. Súlnagil er mikið hamragil. Gagnheiði nær alveg yfir fyrir vestan Svartagil og yfir að Krókatjörnum (42). Orustuhóll (66) er fyrir neðan Gagnheiði við Súlnagil á Leggjabrjótsleið. Hann er stakur, hár hóll. Þar var orusta háð til forna. Einhver sögn er til um það.“

Ónefndur heimildarmaður segir svo í ódagsettri örnefnaskrá Svartagils:

„Vestur af Súlnagili (13) eru Fossabrekkur (14). Bergið framan við Súlur (15) norðaustantil (?), Súlna-bergið (16), smáhamrar inn með Súlunum. Fossabr[ekkur] eru alveg hérna megin við, mosaþemba og mýri og lækjarsprænur, snarbratt.“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Súlnagil inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.

Heimildir

Tengd örnefni