Þvotta (einnig kölluð Þvottuvík eða Þvottá) er lítil vík í Þingvallavatni. Þvotta er staðsett neðan Hallstígs á Hrafnagjá, sunnan Marka- og Krækjukletts og upp við Ólafsdrátt.
Lítill grjóttangi afmarkar víkina í vestri og í botni hennar, sem er innan við einn metri á dýpt, er kaldavatnsuppspretta. Umhverfis víkina er þykkur kjarrgróður. Þvotta tilheyrði landi Þingvalla en bændur á Gjábakka höfðu þar þvottastað og er örnefnið dregið af því.

Horft til vesturs að Þvottu frá Hallstíg.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Þvotta í frumheimildum
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá Arnarfells frá 1982:
„Í austurenda fjallsins, þar sem Hrafnagjá (26) gengur undir það, er grasi gróinn hvammur, sem heitir Fornasel (27). Þar eru gamlar seltættur (sel frá Þingvöllum). Þar innan við gengur gjáin út í vatnið. Þar innar er vík með dálitlu undirlendi upp að gjánni. Hún heitir Þvotta (28) eða Þvottuvík (29). Þar var ull þvegin frá Gjábakka. Austan við víkina gengur lítill klettur fram í fjöruna, Markaklettur (30). Þar eru mörk milli Arnarfells og þjóðgarðsins.“
Björn Th. Björnsson listfræðingur segir svo í bók sinni Þingvellir – staðir og leiðir (2. útg., 1987, bls. 135) og byggir á heimildamönnum innan Þingvallasveitar:
„Lá gata frá Gjábakka og á svonefndum Veiðistíg yfir Hrafnagjá og síðan niður að vatni, að Krækjukletti, þar sem þeir höfðu bátalægi sitt. Nokkru sunnar og vestar með landinu myndast vík, en innst í henni er uppsprettulind og heitir Þvottá, en þangað mun hafa verið leitað til þvotta frá Gjábakka.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Þvottu inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.
Heimildir
Björn Th. Björnsson. (1987). Þingvellir – staðir og leiðir (2. útg.). Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Kristján Jóhannsson. (1982). Arnarfell [Haraldur Finnsson skráði]. Örnefnastofnun Íslands.
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.