Hofmannaflöt
Hofmannaflöt (stundum rituð Hoffmannaflöt eða Hoppmannaflöt) er stór grasflöt við austurhlíðar Ármannsfells sem mynduð er af framburði úr lærliggjandi fellum. Flötin er afmörkuð af Lágafelli í norðri og Fremra-Mjóafelli í austri.
Nafnorðið hofmaður getur merkt höfðingi, riddari eða tignarmaður og má ætla að einhverjir slíkir hafi haft viðkomu á flötinni. Aldur og uppruni örnefnisins er aftur á móti óljós. Nú er það helst tengt við skáldsöguna Ármanns sögu og Dalmanns eftir Halldór Jakobsson frá 1858. Þar var flötin vettvangur kappleika milli Ármanns í Ármannsfelli, Bárðar Snæfellsáss og annarra fornaldarkappa. Norðan Hofmannaflatar er Meyjarsæti og því fylgir sögn af konum sem þar sátu og fylgdust með kappleikum niðri á flötinni.
Hofmannaflöt hefur löngum verið þekktur áfangastaður, enda í alfaraleið þeirra sem ferðast til Þingvalla ofan af hálendinu. Núverandi akvegur kemur þar niður um hlíðar Ármannsfells. Skammt austan akvegarins liggur gamli vegurinn um Sandkluftir niður á Hofmannaflöt og sameinast þar Eyfirðingavegi, sem liggur úr norðaustri frá Skjaldbreið og þræðir sig um Goðaskarð milli Fremra- og Innra-Mjóafells. Frá Hofmannaflöt lá þjóðleiðin áður meðfram Ármannsfelli í átt að Þingvöllum þar sem akvegurinn er nú. Önnur þjóðleið, hinn forni Hrafnabjargavegur eða Prestsvegur, kemur ofan af Hrafnabjargahálsi að suðurenda Hofmannaflatar.
Hofmannaflöt var nytjuð til slægna af Hrauntúnsbændum á 19. og 20. öld og hét engjavegurinn á milli staðanna Víðivallagata. Flötin var ein helsta lífæð hjáleigunnar og í raun eini verulegi slægjublettur hennar utan heimatúnsins. Reyndu Hrauntúnsbændur eftir bestu getu að hlífa flötinni fyrir ágangi ferðafólks.
Horft til norðurs yfir Hofmannaflöt frá Fremra-Mjóafelli. Ármannsfell til vinstri og Meyjarsæti fyrir miðri mynd, Kvígindisfell í fjarska.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Hofmannaflöt í örnefnaskrám
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Hrauntúnsland og afrétti Þingvallahrauns sem rituð var í kringum 1980–1985:
„Hofmannaflöt (4) var slægnaland frá Hrauntúni. Byrja þar og greini örnefni sólarrétt um Ármannsfell. Stórkonugil (5) er í vestur frá Hofmannaflöt, djúpt og dimmt, sker fjallið upp á brún. Framar og vestar kemur brekka sem kölluð var Sláttubrekka (6).“
Þorsteinn Bjarnason frá Háholti segir svo í ódagsettri örnefnaskrá sinni um afrétt Þingvallasveitar:
„Suðaustan í Ármannsfelli er Stórkonugil (22). Austan undir fjallinu er Hofmannaflöt (23). Inn af Hofmannaflöt er Fremra-Mjóafjall (24) og Innra-Mjóafjall (25).“
Guðmann Ólafsson, bóndi á Skálabrekku, segir svo í athugasemdum sínum við örnefnaskrá Þorsteins Bjarnasonar árið 1982:
„Á Hofmannaflöt (23) á að hafa verið leikvangur til forna. Meyjarsæti rís rétt fyrir ofan (norðvestan við) Hofmannaflöt, uppi í Kluftunum (56). Það (Meyjarsætið) er hár bergstandur eða stallur, sléttur að ofan, með skriðum neðar. Konur áttu að hafa setið þar og horft á leikana á Hofmannaflöt.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti örnefnið, er hann kallaði Hoppmannflöt, inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.
Hofmannaflöt í öðrum heimildum
Halldór Jakobsson skrifar um kappleika Ármanns í Ármannsfelli, Bárðar Snæfellsáss og fleiri hraustmenna í 10. kafla Ármanns sögu og Dalmanns frá 1858, bls. 29–31:
„Hinn fjórða dag kvað Bárðr á Ármann, at menn skyldu ganga á leikvöll. Hjá fellinu var flötr mikill, ok tókust upp leikar.
Við tóku miklir kappleikar þar sem barist var í hringbroti, soppleikum og glímu. Urðu þar miklar rimmur og komust ekki allir óskaddaðir úr þeim. Þá mælti Bárður Snæfelssás:
„Vel er nú fallit, menn gefi upp leik þenna, ok kunnum vit öllum þökk, er sótt hafa. Man mannfundr þessi í minnum hafðr, því ek hygg, ei komi annarstaðar saman fríðara drengjaval, ok röskvari garpar en hér eru nú; ok skal völlr þessi, er vér höfum hitzt, heita Hofmannaflötr. Man þá heldr minni til reka, at fundr vár hefr hér verit.“
Guðbrandur Vigfússon textafræðingur segir í bókadómi sínum um Ármanns sögu árið eftir í Nýju félagsriti og segir þar meðal annars, bls. 135:
„[...] gamalt getur [örnefnið Hofmannaflöt] ekki verið. Það er fyrst, að eg veit, í fornkvæðum (danskvæðum) og rímum, að menn nefna hofmenn göfga menn t.d. „hofmenn stunda í háfan púnkt“ (í Skáld-Helgarímum). Hofmannaflöt munu menn á síðari öldum hafa nefnt svo, af því að höfðingjar settu þar tjöld sín áðr þeir riði á þíng. Einhver sögusögn mun þó fyrir því, að landvættir hafi haldið með sér leiki á Hofmannaflöt. Til þess bendir að lítið fell við flötina er kallað Meyjasæti; fellið er setberg, og segir sagan, að meyjar hafi setið þar og horft á leikina, en fellið er svo hátt, að vart mun vera talað um menska leiki.“
Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir í neðanmálsgrein um örnefnið Hofmannaflöt í riti sínu Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945, bls. 71:
„Þ.e. goðaflöt, og mun örnefnið fornt. Á uppdrætti Íslands, útg. af Bókmenntafélaginu 1844, er nafnið ritað Hofmannaflötr. Mun það tekið úr Ármanns-sögu Halldórs Jakobssonar, X. Kap. Á frumuppdrætti Björns Gunnlögssonar stendur „Hofmannaflöt“ og svo er völlurinn jafnan kallaður nú, enda mun það eitt rétt.“
Heimildir
Guðbrandur Vigfússon. (1859). Ritdómar. Ný félagsrit, 131–136.
Gunnar Þórisson & Pétur J. Jóhannsson. (1983). Þingvallasveit, sveitarlýsing. Í Sunnlenskar byggðir III (bls. 171–216). Búnaðarsamband Suðurlands.
Halldór Jakobsson. (1858). Ármanns saga. Kostað hefur Hallgrímur Þorsteinsson í Saurbæ. H. Helgason.
Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.
Þorsteinn Bjarnason. (e.d.). Afréttur Þingvallasveitar. Örnefnastofnun Íslands.