Hofmannaflöt

Google Maps
Ornefni Atlas Hofmannaflot 3793

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt (stundum rituð Hoffmannaflöt eða Hoppmannaflöt) er stór grasflöt við austurhlíðar Ármannsfells sem mynduð er af framburði úr lærliggjandi fellum. Flötin er afmörkuð af Lágafelli í norðri og Fremra-Mjóafelli í austri.

Nafnorðið hofmaður getur merkt höfðingi, riddari eða tignarmaður og má ætla að einhverjir slíkir hafi haft viðkomu á flötinni. Aldur og uppruni örnefnisins er aftur á móti óljós. Nú er það helst tengt við skáldsöguna Ármanns sögu og Dalmanns eftir Halldór Jakobsson frá 1858. Þar var flötin vettvangur kappleika milli Ármanns í Ármannsfelli, Bárðar Snæfellsáss og annarra fornaldarkappa. Norðan Hofmannaflatar er Meyjarsæti og því fylgir sögn af konum sem þar sátu og fylgdust með kappleikum niðri á flötinni.

Hofmannaflöt hefur löngum verið þekktur áfangastaður, enda í alfaraleið þeirra sem ferðast til Þingvalla ofan af hálendinu. Núverandi akvegur kemur þar niður um hlíðar Ármannsfells. Skammt austan akvegarins liggur gamli vegurinn um Sandkluftir niður á Hofmannaflöt og sameinast þar Eyfirðingavegi, sem liggur úr norðaustri frá Skjaldbreið og þræðir sig um Goðaskarð milli Fremra- og Innra-Mjóafells. Frá Hofmannaflöt lá þjóðleiðin áður meðfram Ármannsfelli í átt að Þingvöllum þar sem akvegurinn er nú. Önnur þjóðleið, hinn forni Hrafnabjargavegur eða Prestsvegur, kemur ofan af Hrafnabjargahálsi að suðurenda Hofmannaflatar.

Hofmannaflöt var nytjuð til slægna af Hrauntúnsbændum á 19. og 20. öld og hét engjavegurinn á milli staðanna Víðivallagata. Flötin var ein helsta lífæð hjáleigunnar og í raun eini verulegi slægjublettur hennar utan heimatúnsins. Reyndu Hrauntúnsbændur eftir bestu getu að hlífa flötinni fyrir ágangi ferðafólks.

Hofmannaflöt

Horft til norðurs yfir Hofmannaflöt frá Fremra-Mjóafelli. Ármannsfell til vinstri og Meyjarsæti fyrir miðri mynd, Kvígindisfell í fjarska.

Hofmannaflöt í örnefnaskrám

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Hrauntúnsland og afrétti Þingvallahrauns sem rituð var í kringum 1980–1985:

„Hofmannaflöt (4) var slægnaland frá Hrauntúni. Byrja þar og greini örnefni sólarrétt um Ármannsfell. Stórkonugil (5) er í vestur frá Hofmannaflöt, djúpt og dimmt, sker fjallið upp á brún. Framar og vestar kemur brekka sem kölluð var Sláttubrekka (6).“

Þorsteinn Bjarnason frá Háholti segir svo í ódagsettri örnefnaskrá sinni um afrétt Þingvallasveitar:

„Suðaustan í Ármannsfelli er Stórkonugil (22). Austan undir fjallinu er Hofmannaflöt (23). Inn af Hofmannaflöt er Fremra-Mjóafjall (24) og Innra-Mjóafjall (25).“

Guðmann Ólafsson, bóndi á Skálabrekku, segir svo í athugasemdum sínum við örnefnaskrá Þorsteins Bjarnasonar árið 1982:

„Á Hofmannaflöt (23) á að hafa verið leikvangur til forna. Meyjarsæti rís rétt fyrir ofan (norðvestan við) Hofmannaflöt, uppi í Kluftunum (56). Það (Meyjarsætið) er hár bergstandur eða stallur, sléttur að ofan, með skriðum neðar. Konur áttu að hafa setið þar og horft á leikana á Hofmannaflöt.“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti örnefnið, er hann kallaði Hoppmannflöt, inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.

Hofmannaflöt í öðrum heimildum

Halldór Jakobsson skrifar um kappleika Ármanns í Ármannsfelli, Bárðar Snæfellsáss og fleiri hraustmenna í 10. kafla Ármanns sögu og Dalmanns frá 1858, bls. 29–31:

„Hinn fjórða dag kvað Bárðr á Ármann, at menn skyldu ganga á leikvöll. Hjá fellinu var flötr mikill, ok tókust upp leikar.

Við tóku miklir kappleikar þar sem barist var í hringbroti, soppleikum og glímu. Urðu þar miklar rimmur og komust ekki allir óskaddaðir úr þeim. Þá mælti Bárður Snæfelssás:

„Vel er nú fallit, menn gefi upp leik þenna, ok kunnum vit öllum þökk, er sótt hafa. Man mannfundr þessi í minnum hafðr, því ek hygg, ei komi annarstaðar saman fríðara drengjaval, ok röskvari garpar en hér eru nú; ok skal völlr þessi, er vér höfum hitzt, heita Hofmannaflötr. Man þá heldr minni til reka, at fundr vár hefr hér verit.“

Guðbrandur Vigfússon textafræðingur segir í bókadómi sínum um Ármanns sögu árið eftir í Nýju félagsriti og segir þar meðal annars, bls. 135:

„[...] gamalt getur [örnefnið Hofmannaflöt] ekki verið. Það er fyrst, að eg veit, í fornkvæðum (danskvæðum) og rímum, að menn nefna hofmenn göfga menn t.d. „hofmenn stunda í háfan púnkt“ (í Skáld-Helgarímum). Hofmannaflöt munu menn á síðari öldum hafa nefnt svo, af því að höfðingjar settu þar tjöld sín áðr þeir riði á þíng. Einhver sögusögn mun þó fyrir því, að landvættir hafi haldið með sér leiki á Hofmannaflöt. Til þess bendir að lítið fell við flötina er kallað Meyjasæti; fellið er setberg, og segir sagan, að meyjar hafi setið þar og horft á leikina, en fellið er svo hátt, að vart mun vera talað um menska leiki.“

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir í neðanmálsgrein um örnefnið Hofmannaflöt í riti sínu Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945, bls. 71:

„Þ.e. goðaflöt, og mun örnefnið fornt. Á uppdrætti Íslands, útg. af Bókmenntafélaginu 1844, er nafnið ritað Hofmannaflötr. Mun það tekið úr Ármanns-sögu Halldórs Jakobssonar, X. Kap. Á frumuppdrætti Björns Gunnlögssonar stendur „Hofmannaflöt“ og svo er völlurinn jafnan kallaður nú, enda mun það eitt rétt.“

Heimildir

Tengd örnefni