Orustuhóll
Orustuhóll er stór hóll í Þingvallasveit. Hóllinn stendur upp við mynni Súlnagils og krækist lækur úr því um hólinn að norðanverðu. Sunnan Orustuhóls liggur Leggjabrjótsleiðin fram hjá og á þeim slóðum er getið um Orustuhólsmýri.
Nafn hólsins vekur umsvifalaust upp forvitni en engar sögur hafa þó varðveist af orustu á þessum slóðum.
Orustuhóll í frumheimildum
Guðmann Ólafsson, bóndi á Skálabrekku, segir svo í athugasemdum sínum við skrá um örnefni í afrétti Þingvallasveitar árið 1982:
„Orustuhóll (66) er fyrir neðan Gagnheiði við Súlnagil á Leggjabrjótsleið. Hann er stakur, hár hóll. Þar var orusta háð til forna. Einhver sögn er til um það.“
Ónefndur heimildarmaður segir svo í ódagsettri örnefnaskrá Svartagils:
„Rétt við Orustuhól (24) við Brekkurnar er Þýfi (25). Þar er tjörn. Orustuhólsmýri (26) er eiginlega það sama og Þýfið.“
Pétur J. Jóhannsson segir svo í sveitarlýsingu Gunnars Þórissonar um Þingvallasveit í Sunnlenskum byggðum III, 1983, bls. 178:
„Þegar komið er upp að brekkunum er farið fram hjá bæjarstæði Litla Gríms, Grímsstöðum, föður Geirs og fóstra Harðar Grímkelssonar Hólmverjakappa. Af brekkubrúninni blasir Orustuhóll við. Ekki veit ég af hvaða orustu nafnið er dregið. Hólinn höfum við á hægri hönd. Skammt þar fyrir ofan komum við að læk í djúpu gili sem Krókagil heitir.“
Pétur merkti Orustuhól inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.
Heimildir
Gunnar Þórisson & Pétur J. Jóhannsson. (1983). Þingvallasveit, sveitarlýsing. Í Sunnlenskar byggðir III (bls. 171–216). Búnaðarsamband Suðurlands.
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.
Svartagil. (e.d.). [Heimildamaður ókunnur, Guðjón Friðriksson skráði]. Örnefnastofnun Íslands.