Öxarárdalur
Öxarárdalur er tiltölulega stór dalur í Þingvallasveit. Hann liggur milli Búrfells og Botnssúlna og snýr þvert á landreksstefnuna. Efst í Öxarárdal er Myrkavatn og úr því rennur Öxará niður hann endilangan. Samhliða ánni, norðanmegin, liggur hin forna Leggjabrjótsleið.
Öxarárdalur í frumheimildum
Ónefndur heimildarmaður segir svo í ódagsettri örnefnaskrá Svartagils:
„Öxarárdalur (17) er norður af Fossabrekkum, nokkuð stór dalur, og eru þar mikil landgæði, ákaflega skjólsamt. Þar var slegið í gamla daga. Öxará (18) er fyrir vestan Öxarárdal, Súlnalækur (19) rennur úr Fossabrekkum í Öxará, töluverður lækur. Einhvers staðar norðan við Öxarárdal er hornmark Árnessýslu, Kjósarsýslu og Borg.“
Þorsteinn Bjarnason frá Háholti segir svo í ódagsettri örnefnaskrá sinni um afrétt Þingvallasveitar:
„Sunnan í Súlum er Öxarárdalur (48), þar eru upptök Öxarár (49).“
Guðmann Ólafsson, bóndi á Skálabrekku, segir svo í athugasemdum sínum við skrá um örnefni í afrétti Þingvallasveitar árið 1982:
„Um Öxarárdal liggur gamla leiðin um Leggjabrjót (65) milli Kjósar og Þingvallasveitar. Leggjabrjótur er á milli Súlna og Myrkavatns fyrir ofan Öxarárdal.“