Svartagil
Svartagil (áður Vegghamrar) er eyðibýli í Þingvallasveit. Það er staðsett í krika undir Ármannsfelli framan við samnefnt gil og er umlukið Sláttubrekkum í vestri og Bæjarfelli í austri.
Vitað er um búsetu í Svartagili allt aftur til upphafs 17. aldar. Þá var staðurinn sel frá Þingvöllum, stundum í byggð en oftast í eyði. Ekki er óhugsandi að mannabyggð hafi verið í Svartagili löngu fyrr, þótt engar ritaðar heimildir geti þess. Samkvæmt munnmælum var eldra nafn bæjarins Vegghamrar.
Svartagil var lengst af hjáleiga í óskiptu landi Þingvallabæjar en átti slægjur í Mýrarkrók og skógarnytjar í Bolabás. Fjárhús átti hjáleigan á 19. öld við eyðibýlið Múlakot undir Fjárhúsamúla og stekkur bæjarins var í Stekkjardal ofan á Bæjarfelli. Svartagil varð síðar sjálfstætt býli eftir þjóðgarðmyndun. Þar var búið fram til 1973 og bæjarhúsin voru rifin ári síðar.
Bæjarhús Svartagils á 20. öld hafa staðið í túnjaðrinum við rætur Sláttubrekkna. Stórt fjárhús var við bæjarhlaðið, þar sem akslóðinn endar nú. Bæjarlækurinn rennur um túnið norðan bæjarhúsana og fram hjá hringmynduðum bletti er nefnist Tunga. Það er að öllum líkindum manngerður rústahóll og vel má vera að eldri bæir í Svartagili hafi verið reistir þar. Ræktað tún er ríflega sex hektarar að flatarmáli og framan við það er talsvert mýrlendi. Lágur garður umgirðir nyrðri hluta túnsins og í austri er það afmarkað af lækjum úr Svartagili og Klömbrugili.
Svartagil var áður nálægt helstu alfaraleiðum til Þingvalla. Það er skammt frá upphafi Gagnheiðarvegar, sem liggur yfir Gagnheiði, og kippkorn norðan leiðarinnar yfir Leggjabrjót. Akslóði liggur frá Svartagilsbænum meðfram Bæjarfelli og sameinast brátt alfaraleiðum undir Ármannsfelli nálægt Skógarhólum.
Svartagil í frumheimildum
Svo segir í máldagakveri Odds biskups Einarssonar frá um 1600 (AM 66 a 8 vo.):
„Miðfell 20 # jörð forðum, Sk[álholtskirkjujörð]. Kúg. nú ekke[rt]. Mjóanes b.b. 5 Vatnskot og Brandskot, hjáleigur frá Þingvöllum. Svartagil er sel frá Þingvöllum, stundum byggt en oftast í eyði. Brúsastaðir, Kárastaðir, Stíflisdalur eru kirkjujarðir frá Þingvöllum. Skálabrekka b.b. Item Heiðarbær. Nesjar veit ég ekki hvört þangað liggur eða til Úlfljótsvatns.“
Svo segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1711, bls. 367:
„Svartagil, hjáleiga frá Þingvallnastað, bygð í staðarins landi. Dýrleikinn er óviss. Ábúandinn Jón Jónsson. Landskuld er xl álnir og hefur svo verið í 27 ár, þar fyrir var landskuld xxx álnir, því kotið var þá bygt upp úr eyðibýli, og stóð sú xxx álna landskuld um 5 ára tíð, en þá kotið ræktaðist upp, var landskuldin framfærð. Landskuld betalast í ýmsum landaurum heim til staðarins. Leigukúgildi i og það í 27 ár, þar fyrir var ekkert og það svo lengi menn til vita. Leigur betalast í smjöri heim til staðarins. Kvaðir eru engar. Kvikfjenaður ii kýr, i kálfur, xiii ær, iii sauðir tvævetrir, x veturgamalt gelt og gimbrar, xvi lömb, i hestur, i hross, i fyl. Fóðrast kann ii kúa þúngi. Skógarbrúkunin og allir aðrir kostir og lestir hjáleigunnar er hið sama sem áður er skrifað um Vatnskot og Skógarkot.“
Séra Björn Pálsson Þingvallaprestur segir svo í sýslu- og sóknarlýsingu sinni fyrir Hið íslenzka bókmenntafélag árið 1840 (útg. 1979, bls. 181):
„Svartagil hét fyrri Vegghamrar, hjáleiga frá Þingvöllum, heyskaparlítil og veðrasöm af norðri.“
Heimildir
AM 66 a 8 vo.
Björn Pálsson. (1979). Þingvalla- og Úlfljótsvatnssóknir. Í Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags 1839-1843 og lýsing Ölfushrepps anno 1703 eftir Hálfdán Jónsson (bls. 171–192). Sögufélag.
Gunnar Þórisson & Pétur J. Jóhannsson. (1983). Þingvallasveit, sveitarlýsing. Í Sunnlenskar byggðir III (bls. 171–216). Búnaðarsamband Suðurlands.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. 2. bindi: Árnessýsla. (1981). Sögufélag.
Svartagil. (e.d.). [Heimildamaður ókunnur, Guðjón Friðriksson skráði]. Örnefnastofnun Íslands.