Ármannsgil
Ármannsgil er gil í suðvestanverðu Ármannsfelli, norðan Skógarhóla og austan Bæjarfells. Það er allstórt og breitt, snýr samhliða landreksstefnunni við fjallsræturnar en sveigir til austurs er ofar dregur og teygir sig alla leið upp í stóra hvilft er nefnist Skál. Úr gilinu rennur mikill leysingafarvegur sem hlykkist niður á vellina hjá Skógarhólum, fram hjá Þingvallarétt og steypist að lokum ofan í Almannagjá norðan Leynistígs.
Ármannsgil var um áratugaskeið (fyrst á korti bandaríska hersins 1959) merkt tæpum kílómetra austar, nálægt Fjárhúsamúla, á flestum staðfræðikortum og gilið sem hér um ræðir kallað Kaplagil. Á síðustu árum hefur neðri hluti gilsins, sem hér kemur við sögu, verið merktur sem Ármannsgil en efri hlutinn Kaplagil. Heimildamenn innan Þingvallasveitar kalla umrætt gil þó ávallt Ármannsgil og nefnast aldrei á örnefnið Kaplagil.
Ármannsgil í frumheimildum
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Svartagilsland sem rituð var í kringum 1980–1985:
„Í austur frá túninu í Svartagili (1) er frekar mjór og langur dalur birki klæddur, Botnsdalur (2). Í suður frá honum er all hár háls, sem gengur úr Ármannsfelli (3) og breikkar þegar vestar dregur. Í honum miðjum er dalur, Leirdalur (4), vel gróinn og oft sleginn. Sunnan við hálsinn er nokkuð breitt gil, Ármannsgil. Framan við það eru birki klæddir hólar Skógarhólar (5).“
Markús „Krúsi“ Jónsson, bóndi á Svartagili, segir svo í blaðaviðtali veturinn 1969:
„Ég vil hafa hvasst – það hressir mann’, segir hann, „hér eru góðar vættir, þótt margir trúi því ekki. Við höfum oft séð ljós upp með Ármannsfelli, dauft ljós, við Ármannsgil og upp af Sláttugili fyrir vestan bæinn.“
Þorsteinn Bjarnason frá Háholti segir svo í ódagsettri örnefnaskrá sinni um afrétt Þingvallasveitar:
„Vestan við Básöxl eru Skógarhólar (10), upp frá þeim er Ármannsbrekka (11) og Ármannsgil (12).“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í Þingvallaþönkum sem hann ritaði í kringum 1980–1985:
„Gilið fyrir norðan Skógarhólana og nær upp í Skál heitir Ármannsgil.“
Pétur merkti Ármannsgil inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.