Arkitektúr og Þingvellir
Viðburðurinn hefst við gestastofuna á Haki 12. október, klukkan 13:00.
Jóhannes Þórðarson og Sigbjörn Kjartansson arkitektar hjá Glámu – Kími arkitektum fara yfir nýjar og eldri byggingar á Þingvöllum. Gláma – Kím hefur komið að hönnun og byggingu tveggja gestastofa á Hakinu og þjónustuhúsa í og við þinghelgina auk mannvirkja sem stýra umferð um þjóðgarðinn, svo sem útsýnispalls á Hakinu og í Stekkjagjá. Þar fara saman stílhreinar byggingar sem eru ekki bara í sátt við umgjörðina sem náttúran hefur skapað heldur fagna henni um leið með stórum gluggum sem minna á síkvikt Kjarvalsmálverk.
Gláma – Kím kom einnig að endurgerð og endurhönnun Þingvallabæjarins sem þarfnaðist mikilla viðhaldsaðgerða. Sú vinna var unnin í nánu samráði við Minjastofnun og forsætisráðuneytið enda byggingin og umhverfi hennar friðað. Gæta þurfti vandlega að viðkvæmri ásýnd og einstöku umhverfi.

Gestastofan á Haki fellur vel að umhverfi sínu. Þegar gengið er um í þinghelginni er ekkert sem bendir til byggingar ofan við en hún blasir við áður en farið er niður í gjána.
Þingvellir