Haustlitaganga eftir Klukkustígsleið á Þingvöllum
Fátt jafnast á við litadýrðina í þjóðgarðinum á Þingvöllum er haustið ber að garði. Af því tilefni verður efnt til sérstakrar haustlitagöngu inn í Þingvallahraun sunnudaginn 21. september 2025 klukkan 13:00.
Gunnar Grímsson fornleifafræðingur og landvörður leiðir gesti um svonefnda Klukkustígsleið, sem er talin ein elsta þjóðleiðin til Þingvalla. Þessi forna leið hafði að mestu fallið úr minni fólks á síðustu áratugum – og var nær horfin undir lyng og kjarrgróður – en var stikuð í fyrra og gerð aðgengileg á nýjan leik.
Gönguferðin hefst við Vallakrók, skammt austan við Öxarárfoss. Gengið er að eyðibýlinu Skógarkoti og þaðan farið um gamla stekkjargötu austur að fornbýlinu Þórhallsstöðum, þar sem Þórhallur ölkofri er sagður hafa búið snemma á 11. öld. Boðið verður upp á léttar veitingar í anda staðarins.
Þaðan er gengið eftir hinni fornu þjóðleið að Klukkustíg, þar sem núverandi akvegur liggur yfir Hrafnagjá. Frá Klukkustíg er svo gengið eftir fláanum á neðri barmi Hrafnagjár – er nefnist Rif – inn að furuskógi og loks staðnæmst við Vellankötlu. Rætt verður um sögu Þingvalla út frá gleymdum gönguleiðum og ævafornum mannvirkjum sem víða leynast í skóginum.
Gangan er um 6,5 km að lengd og tekur u.þ.b. 3 klst. Gangan er tiltölulega auðveld yfirferðar og hallalítil, en fer þó um ójafnt og þýft landslag á köflum. Best er að mæta vel skóaður og með nesti og vatn, enda er Þingvallahraun nær vatnslaust. Hægt verður að selflytja fólk frá Vellankötlu aftur að upphafsreit en áhugasamt göngufólk getur þar gengið Skógarkotsveg til baka og myndað ágætis hringferð.
Viðburðurinn er liður í menningarminjadögum Evrópu sem Minjastofnun heldur utan um. Nánar um menningarminjadaga má nálgast hér.

Þegar birkið og víðirinn byrja að breyta um lit verður oft ægifagurt í Bláskógum.
