Týndar leiðir í Þingvallahrauni: Gengið í fótspor hraunfólksins

Vörður voru helstu kennileiti við götur hér áður fyrr. Fólk reiddi sig á þær til að rata vísa leið.
Þingvellir
Starfsfólk þjóðgarðsins á Þingvöllum efnir til sérstakrar gönguferðar sunnudaginn 27. júlí kl. 14:00. Gengið verður um afskekktan undraheim sem hefur legið gleymdur í norðurhluta Þingvallahrauns og fáir hafa séð í áratugi.
Gunnar Grímsson, landvörður og fornleifafræðingur, leiðir gesti um tvær gamlar leiðir, Víðivallagötu og Gaphæðaslóða, sem liggja til og frá eyðibýlinu Hrauntúni. Leiðirnar eru lítt þekktar og var sú fyrrnefnda talin glötuð og horfin inn í kjarrið, þar til hún fannst í sumar við umfangsmikla LiDAR-kortlagningu sem varpar nýju ljósi á þjóðgarðinn.

Gapi er sérkennilegt náttúrufyrirbrigði í austurhluta þjóðgarðsins sem ekki margir hafa farið að.
Gestir ferðast 100 ár aftur í tímann og ganga í fótspor fólksins sem bjó í einum af úthjörum Þingvallasveitar. Skyggnst verður inn í hugarheim bóndans í Hrauntúni, Jónasar Halldórssonar, sem átti betra samneyti með rjúpum en mannfólki, hunsaði messuköllin og varði öllu sparifé sínu í bókakaup.
Gangan hefst við rætur Ármannsfells, skammt austan Sleðaáss við Uxahryggjaveg (52) í um 10 mínútna akstursfjarlægð frá þjónustumiðstöðinni. Gengið verður eftir Víðivallagötu að eyðibýlinu Hrauntúni og staldrað við í bæjarrústunum, þar sem boðið verður upp á léttar veitingar í anda Hrauntúnsbænda. Þaðan liggur leiðin um Gaphæðaslóða inn að náttúrufyrirbærinu Gapa, þar sem bændurnir í Hrauntúni geymdu sauðfé sitt í hellisskúta. Að lokum er gengið til baka um nýlagða reiðgötu og hringnum lokað við Ármannsfell.
Gangan er hringleið, rúmir 9 kílómetrar að lengd og tekur um 3,5 klukkustundir. Hún er tiltölulega auðveld yfirferðar og hallalítil en götubotninn er víða ójafn. Best er að koma í góðum skóm og með nesti og vatn, enda er Þingvallahraun nær vatnslaust.

Hrauntún er gamalt eyðibýli í norðurhluta þjóðgarðsins. Túnið er líkast til eins og völundarhús með öllum sínum gömlu hleðslum og tóftum.

Byrjað verður við Sandskeið klukkan 14:00.