Sæluhúsið Mosfellsheiði

Bjarki Bjarnason annar höfundar árbókar Ferðafélags Íslands skrifar hér um endurreisingu sæluhússins á Mosfellsheiði:

Um 1890 var lagður upphlaðinn vegur frá Geithálsi í sunnanverðri Mosfellssveit þvert yfir Mosfellsheiði til Þingvalla. Um 100 vörður voru hlaðnar við veginn sem nýttist vel fyrir gangandi og ríðandi fólk í misjöfnum veðrum. Leiðin var einnig notuð fyrir hestvagna og bifreiðar eftir að bílaöld rann upp á Íslandi, fyrsti bílinn fór hér um til Þingvalla árið 1913. Á háheiðinni var byggt sæluhús þétt við veginn úr tilhöggnu grágrýti, 7x4 metrar að utanmáli.

Áð við sæluhúsið

Hestar við sæluhúsið á Mosfellsheiði áður en viðgerð hófst.

Fyrir Alþingishátíðina árið 1930 var lagður nýr vegur austur til Þingvalla, á svipuðum slóðum og þjóðvegurinn liggur nú á dögum. Umferð um eldri veginn minnkaði þá stórum og fékk hann smám saman nafnið Gamli Þingvallavegurinn.

Sæluhúsið áðurnefnda var lítið notað, enda notalegra að kúra undir sæng í Hótel Valhöll eða hafa náttstað í gistihúsinu á Geithálsi; viðhaldi sæluhússins var ekki sinnt, það varð tímans tönn að bráð og hrundi undan eigin þunga.

Staðsetning sæluhússins á miðri Mosfellsheiði

Rauði punkturinn á myndinni sýnir hvernig sæluhúsið var nokkurveginn á miðri gömlu leiðinni yfir heiðina. Þar gat verið gott að á sérstaklega í verri veðrum. 

Sæluhúsarústin haustið 2023

Sæluhúsrústin haustið 2023. Ævar Aðalsteinsson og Unnsteinn Elíasson að störfum.

Árbók Ferðafélags Íslands um Mosfellsheiði kom út árið 2019, um það leyti skapaðist umræða um endurbyggingu hússins sem hefur mikið byggingarsögulegt gildi. Ferðafélagið tók forystu í málinu, verkefnið hefur hlotið styrk úr Húsafriðunarsjóði og er Bjarki Bjarnason verkefnastjóri endurbyggingarinnar fyrir hönd FÍ.

Verkið þá hálfnað er...

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ við rústina þar sem verkið er þó komið nokkuð vel af stað.

Meðfylgjandi ljósmyndir voru flestar teknar árrið 2023 og sýna endurhleðslu hússins með upprunalega grjótinu. Hleðslumeistarar voru Ævar Aðalsteinsson, Örvar Aðalsteinsson og Unnsteinn Elíasson.

Sumarið  2024 er ætlunin að fullklára endurbygginguna með þaki, hurð og gluggum.

Nákvæmnisverk unnið við endurhleðslu sæluhússins.

Ævar Aðalsteinsson og Unnsteinn Elíasson að störfum við að hlaða veginn.

Ein af hundrað

Um 100 vörður vörðuðu leiðina fornu til Þingvalla. Margar þeirra eru enn standandi stoltar þó aðrar eru byrjaðar að láta á sjá. Vörður voru mikið öryggisatriði fyrir gangandi og ríðandi ferðalanga.