** Aprílgabb*** Maður fannst undir feldi á Lögbergi

Eins og margir áttuðu sig á þá var hér a ferðinni aprílgabb um að nýr forsetaframbjóðandi hefði fundist undir feldi á Lögbergi.

Fjölgar forsetaframbjóðendum?

Frambjóðandi fannst undir feldi við Lögberg í morgun. Hann mun safna undirskriftum í gestastofunni á Haki í allan dag. 

Landverðir sem voru að flagga á Lögbergi í morgun fundu mann undir feldi undir pallinum á Lögbergi.

Eftir langt samtal við manninn ákvað hann að koma undan feldinum.  Nafn hans er Þorgeir Logi Goðason og hafði hann hafst við undir feldi í tvo sólarhringa án þess að amast væri við honum.  Þorgeir Logi sem er fyrrverandi áhrifalaus áhrifavaldur hafði vonast eftir tilefningu til biskupskjörs en þegar það gekk ekki eftir lagðist hann undir feld undir pallinum á Lögbergi að hugsa næstu skref.  

Undir feldi undir palli

Það voru fleiri en landverðir sem komu auga á kauða undir palli undir feldi í morgun. Ferðamenn voru margir mjög hissa. 

Á meðan hann var undir feldinum undir pallinum komu margir að máli við hann og tóku samtalið við hann. Flestallir sem komu að máli við hann spurðu hann hvort gyllti hringurinn væri raunverulegur, hvenær kveikt yrði á norðurljósunum og hvort að lundin væri sestur upp. 

Þorgeir Logi túlkaði þessi samtöl sem mikið traust og hvatningu til sín til góðra verka og að það sé mikilvægt að hans rödd fái að heyrast til að koma hlutum í verk og því tók hann ákvörðun að bjóða sig fram til forseta.

Leiddur frá Völlunum

Þó gott geti verið að hugsa sinn gang við Lögberg fannst landvörðum það ekki sniðugt að safna þar undirskriftum. Þorgeiri Loga er hér fylgt að gestastofunni á Haki þar sem hann getur haldið söfnununni áfram. 

Þorgeir Logi er kominn í beinan karllegg af Þorgeiri Ljósvetningagoða sem var fyrsti áhrifavaldur Íslandssögunnar og varð frægur að endemum eftir að hafa legið undir feldi á Þingvöllum. Upprunalegi feldurinn hefur varðveist í fjölskyldu Þorgeirs Loga allt fram á þennan dag og kom hann að góðum notum þar sem kalt hefur verið á Þingvöllum síðustu daga. 

Landverðir veittu Þorgeiri Loga aðhlynningu og fylgdu honum í gestastofu.  Þorgeir Logi fékk leyfi til að vera þar til að safna undirskriftum.  Feldurinn verður einnig til sýnis og geta gestir fengið að snerta og leggjast undir feldinn fyrir hóflega þóknun sem rennur í kosningasjóð Þorgeirs Loga.

Þorgeir Logi verður  í gestastofu til klukkan 16:00 í dag við undirskriftasöfnun en verður þá með blaðamannafund þar sem hann fer yfir framboð sitt og áherslur.   

Fyrsta undirskriftin

Undirskriftarsöfnunin gengur vel og hér má sjá fyrstu undirskriftina komna í hús. Allir eru hvattir til að koma í gestastofuna og leggja lýðræðinu lið með því að styðja Þorgeir Goða áfram til forsetaframboðs.