Umsóknaferli

Umsóknarferli um samþykki á heimsminjaskrá er tvískipt.
Samkvæmt 11. gr. sáttmálans þarf fyrst að leggja fram yfirlitsskrá (tentative list) yfir þá staði sem aðildarríkin telja til mikilvægra menningar- og náttúruarfleifða sinna.
Að því loknu er gerð umsókn um þá staði sem óskað er eftir hverju sinni að verði færðir á heimsminjaskrána.

Eftirfarandi staðir eru nú á yfirlitsskrá Íslands:

Náttúru- og menningarminjar:
Breiðafjörður

Náttúruminjar:
Þingvallaþjóðgarður
Mývatn og Laxá
Torfajökulseldstöðin/Friðland að Fjallabaki

Menningarminjar:
Íslenskir torfbæir - raðtilnefning 14 torfhúsa

Yfirlitsdrögin þurfa ekki að vera tæmandi en þar ber að nefna dæmi um þá staði sem til greina kemur af hálfu aðildarríkis að tilnefna á heimsminjaskrá UNESCO á næstu fimm til tíu árum. Drögin eru á engan hátt bindandi, heldur stefnumótandi innanlands með tilliti til verndunar, kynningarstarfs og ferðaþjónustu á viðkomandi stöðum.

Tilgangurinn er að gera Nefnd um arfleifð þjóðanna (World Heritage Committee) betur kleift að meta á breiðum grunni alþjóðlegt gildi eða mikilvægi þeirra staða sem tilnefndir eru á heimsminjaskrána. Yfirlitsdrögin þurfa að hljóta samþykki ríkisstjórnar til að verða tekin gild. Senda þarf formlega umsókn til Nefndar um arfleifð þjóðanna um þá staði sem óskað er eftir að verði teknir á heimsminjaskrá.

Umsóknin þarf að vera mjög ítarleg og hún er kostnaðarsöm því að henni þurfa að fylgja nákvæmar náttúrulýsingar, rökstuðningur fyrir vægi staðanna í menningarlegum eða náttúrufarslegum skilningi, greinargerð um réttarstöðu, ný landabréf, ljósmyndir og margt fleira. Umsóknum þarf að skila fyrir 1. febrúar ár hvert og niðurstaða er kynnt einu og hálfu ári síðar.