Flekahreyfingar

Flekahreyfingar

Þingvallasvæðið tengist eldgosa- og sprungubeltinu sem liggur þvert yfir Ísland. Það er hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem liggja norðan úr Íshafi og suður eftir öllu Atlantshafi.

Eldgosa- og spurngubelti

Þingvallasvæðið tengist eldgosa- og sprungubeltinu sem liggur þvert yfir Ísland.

Jörðin er samanspil ólíkra jarðskorpufleka. Sumir færast fjær hver öðrum meðan aðrir rekast á. Þá er "ganga" flekarnir einnig stundum samhliða hvor öðrum. Við verðum helst vör við hreyfingar í gegnum jarðhræringar.

Sigdældin á Þingvöllum er hluti af virku eldgosa- og sprungusvæði sem nær utan frá Reykjanesi norður í Langjökul. Ytri mörk þess eru við Súlnaberg í Botnssúlum og austur á Lyngdalsheiði og Laugarvatnsfjalli. Á Suðurlandi jagast flekarnir hvor framhjá öðrum en á Þingvöllum færast þeir í sundur og spilda á milli sígur. Fjarri flekaskilunum er hreyfingin jöfn, 2 cm á ári en á þeim sjálfum safnar bergið spennu á löngum tíma sem síðan losnar í umbrotahrinum þegar brotamörkum er náð.

Síðast gekk slík umbrotahrina yfir Þingvallasvæðið vorið 1789. Þá gekk 10 daga jarðskjálftahrina yfir Þingvelli. Við það seig landið milli Almannagjár og Hrafnagjár um tæpa 2 m, mest í sigdældinni miðri.

Megnið af hrauninu í sigdældinni kom úr Skjaldbreið fyrir um 9000 árum síðan þá nemur landsig samanlagt um 40 metrum en gliðnum um 70 metrum. Telja má víst að landslag á þingstaðnum sé talsvert breytt nú frá því sem var þegar þinginu var valinn staður.

Hið stöðuga landsig hefur valdið ágangi vatns upp í þinghelgina. Frá því að Alþingi var stofnað árið 930 má gera ráð fyrir að sigið nemi upp undir 4 metrum. Vatnságangur og landsig hafði áhrif á þingstörfin en talið er að Þingvallakirkja hafi verið flutt á 16.öld þangað sem hún er nú. Lögrétta var færð úr stað 1594 því þá hafði hún einangrast á hólma í Öxará. Við landsigið 1789 fór nokkuð af túni á Þingvöllum undir vatn, gjár opnuðust í og kringum túnið svo ekki var óhult fyrir gripi, og almenningsvegurinn yfir Öxarárósinn og meðfram Hallinum fór á kaf. Þinghald var í kjölfarið lagt niður á Þingvöllum og flutt til Reykjavíkur. Í Vatnskoti nærri miðri sigdældinni hefur landsigið 1789 mælst um tveir og hálfur metri. Þar fór stór hluti af túninu undir vatn. Land mun halda áfram að síga á Þingvöllum með fyrirsjáanlegum ágangi vatnsins og árinnar á bakkana og þingstaðinn forna en enginn veit hversu langt er þar til næsta umbrotahrina skellur á með tilheyrandi landsigi.

Hér má finna ítarlegri upplýsingar um flekahreyfingar.