Vatnsvið

Þingvallavatn er í sigdæld sem nær frá Langjökli suður í Hengil og frá Botnssúlum í vestri til Lyngdalsheiðar í austri. Þingvallavatn er stærsta stöðuvatn á Íslandi um 84 ferkílómetrar og er yfirborð þess í um 100,5 metra hæð yfir sjávarmáli.  Mesta dýpi vatnsins er 114 metrar og því nær það niður fyrir sjávarmál.

Vatnasvið Þingvallavatns hefur sömu stefnu og sprungurnar á svæðinu en tilvist þess er nátengd jarðsögu svæðisins. Á vatnasviðinu er mikil úrkoma. Um 9/10 af innstreymi vatns í Þingvallavatn kemur neðanjarðar eftir sprungum að vatninu.

Einungis um 1/10 hluti innrennslisins er yfirborðsvatn sem kemur úr ýmsum lækjum og smáám en stærst þeirra er Öxará. Það vatn sem rennur í Þingvallavatn norðan úr Langjökli er um 20-30 ár á leiðinni og talið er að á ferð sinni komi það við í möttli jarðar á um 8 kílómetra dýpi. Rigningin sem fellur á hraunin skilar sér á 2-4 mánuðum í Þingvallavatn.

Sunnan við Þingvallavatn eru Nesjavellir sem eru eitt mesta háhitasvæði landsins. Þar hitnar vatn neðanjarðar vegna snertingar við heitt bergið og þrýstist upp um sprungur og misgengi undir Hengli. Orkuveita Reykjavíkur hefur virkjað háhitasvæðið til að hita upp kalt vatn til húshitunar með lágþrýstri gufu og borholuvatni en einnig til að framleiða rafmagn með háþrýstri gufu.  Vatnasvið Þingvallavatns sem er um 1300 ferkílómetrar að stærð hefur að geyma ótrúlegar auðlindir fyrir komandi kynslóðir á Íslandi hreint og tært vatn til drykkjar og háhita sem virkjaður er á Nesjavallasvæðinu.