Bakkar

Bakkar eru lágir hraunbalar og flatir ofan Tæpastígs á Almannagjá sem hafa mótast af framburði úr Hrútagilslæk og Grímagilslæk. Eyðibýlið Bárukot stendur á ofanverðum Bökkum og skammt suðvestar er gömul skilarétt Þingvallasveitar, Bakkarétt. Norðlingavegurinn liggur fram hjá báðum stöðum um Bakka milli Brúsastaða og Biskupsbrekkna.

Bakkar í frumheimildum

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Svartagilsland sem rituð var í kringum 1980–1985:

„Landið upp frá Tæpastíg (11), þar sem þjóðvegurinn liggur er kallað Bakkar (12). Á þeim ofarlega eru gamlar rústir frá býli, Bárukot (13), og nokkru ofar nær brekkum, sem kallast Brúsastaðabrekkur (14), eru grónar flatir og þar tættur, Grímastaðir (15).“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, segir svo í sveitarlýsingu Gunnars Þórissonar frá Fellsenda um Þingvallasveit í Sunnlenskum byggðum III, 1983, bls. 178:

„Frá Langastíg förum við upp yfir hraunið (gegnum vel hestfært gönguhlið á Þjóðgarðsgirðingunni). Þegar komið er upp fyrir hraunið upp á Bakkana er gamalt eyðibýli á hægri hönd austan lækjarins sem við förum meðfram um stund. Bærinn hét Bárukot og áminnstur lækur Leiralækur.“

Heimildir

Gunnar Þórisson & Pétur J. Jóhannsson. (1983). Þingvallasveit, sveitarlýsing. Í Sunnlenskar byggðir III (bls. 171–216). Búnaðarsamband Suðurlands.

Kristján Jóhannsson. (e.d.). Örnefni í Svartagilslandi [Óbirt efni]. Örnefnastofnun Íslands/Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Tengd örnefni