Bárukot
Bárukot (einnig kallað Þverspyrna og Fótakefli) er eyðibýli í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Það er staðsett ofarlega á flötunum ofan Almannagjár, er kallast Bakkar, skammt vestan við Grímagilslæk þar sem hann rennur út í Hrútagilslæk.
Bárukot var hjáleiga í landi Þingvallabæjar og hélst aðeins í byggð í um átta ár milli 1684–1692. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1711 þótti staðsetningin á Bökkum skárri en við eyðibýlið Grímastaði, tæpum kílómetra norðar, en landkostir voru þar samt sem áður lakir og hefur hér tæpast verið mikið ríkidæmi.
Norðlingavegurinn liggur fram hjá eyðibýlinu, sem fékk fljótlega viðurnefnin Þverspyrna og Fótakefli, líkt og ferðamenn hafi hnotið um tóftirnar á leið sinni þar um. Engar aðrar sögur fara af býlinu eða ábúendum þess. Það var friðlýst sem fornleifar 1927 og er afar heillegt dæmi um 17. aldar kotbýli.
Lýsing á mannvirkjum
Rústir Bárukots standa á vallgrónum harðbala nálægt vesturbakka Grímagilslækjar. Mikil flatneskja er umhverfis eyðibýlið og þar er víðsýnt til allra átta. Bæjarrústirnar eru heillegar og sjást glöggt úr fjarska. Þær rísa um 50–60 cm upp úr jörðinni og þar glittir í marga hleðslusteina. Uppþornaður lækjarfarvegur liggur upp við kotið að sunnan- og vestanverðu og hefur bæjarlækurinn – Grímagilslækur – flætt þar um á einhverjum tímapunkti.
Gengið er inn í bæjarrústirnar á suðurhliðinni í gegnum fordyri sem leiðir inn í bæjargöngin. Fyrir innan fordyrið eru lítil veggjaútskot á báðum hliðum. Á vinstri hönd liggur gangur inn í lítið herbergi en ef haldið er beint áfram er komið í annað jafnstórt rými. Enn annað rými er á suðurhlið bæjarins með sérinngangi. Milli þess og fordyrisins er kvos. Aðhald eða rétt, líklegast handa sauðfé, er á vesturhlið bæjarins og þar er gengið inn að sunnanverðu upp við bæjarvegginn.
Norðan bæjarrústanna er grasvöllur og þar má finna smátóft sem lítur út fyrir að vera hálf niðurgrafin eða sokkin ofan í lækjarframburð. Sunnan hennar er dæld sem minnir á einhvers konar niðurgröft. Skammt sunnan bæjarins eru grjóthlaðnar stekkjarleifar eða gripaskýli. Beint austan eyðibýlisins ber í vörðu á lágum hraunhól.
Bárukot í frumheimildum
Svo segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1711, bls. 367–368:
„Á flötum nokkrum skamt fyrir neðan þessa Grímastaði er annað örnefni, kallað af sumum Bárukot, en af sumum Þverspirna, nokkrir hafa og kallað þetta örnefni Fótakieble. Þetta kot var fyrst bygt fyrir 27 árum, því hjer þótti betra túnstæðið heldur en þar sem Grímastaðir höfðu áður verið; hjelst þó ekki bygðin hjer við lengur en í 8 ár, og eru nú 19 ár síðan það lagðist í eyði, hafði þar og aldrei fyrri bygð verið sem það þá sett var. Ekkert vita menn víst að segja af landskuldar upphæðinni, hvert hún muni verið hafa um xx álnir eður þar um, en kúgildi var þar ekkert. Fóðrast kunni þar laklega i kýr.“
Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir svo í riti sínu Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945, bls. 86:
„Tóftir eru hér glöggar; standa á jafnsléttu, og jarðvegur grunnur. Sléttar flatir eru austur- og norður-af, og rennur lækur eftir þeim skammt fyrir austan tóftirnar. Rétt við þær að vestan er gamall og uppgróinn lækjarfarvegur, og virðist vatni hafa verið veitt þar heim að kotinu úr læknum fyrir austan það. Tóftirnar eru í ferhyrndri hvirfingu, 9 x 11 m. að stærð, og girðing vestan-við, líklega fyrir fé. Dálítið suðvestar er hraungrýtistóft niðurfallin; hefur þar verið smákofi fyrir skepnur.“
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Svartagilsland sem rituð var í kringum 1980–1985:
„Landið upp frá Tæpastíg (11), þar sem þjóðvegurinn liggur er kallað Bakkar (12). Á þeim ofarlega eru gamlar rústir frá býli, Bárukot (13), og nokkru ofar nær brekkum, sem kallast Brúsastaðabrekkur (14), eru grónar flatir og þar tættur, Grímastaðir (15). Þar fyrir austan er all stórt gil, Grímagil (16).“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Bárukot inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.
Heimildir
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. 2. bindi: Árnessýsla. (1981). Sögufélag.
Matthías Þórðarson. (1945). Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd.
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.