Biskupsbrekknahraun
Biskupsbrekknahraun er einn vestasti hluti Þingvallahrauns. Það er sunnan Biskupsbrekkna – sem eru fremst á hálsi sem skagar úr suðvestanverðu Ármannsfelli – og dregur hraunið nafn sitt af þeim. Þaðan nær hraunið suður að Leiralæk. Biskupsbrekknahraun afmarkast af Hvannagjá í austri en hverfur að mestu undir framburð vestan Hrútagilslækjar. Hraunið er nokkuð flatt og mosagróið og einkennist helst af lágum hraunbölum og mörgum varasömum gjásprungum. Trjágróður finnst á stöku stað í dældum og lautum.
Biskupsbrekknahraun í frumheimildum
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Svartagilsland sem rituð var í kringum 1980–1985:
„Biskupsbrekkur (8) er vestur endi af hálsinum sem Leirdalur er í. Fram af Biskupsbrekkum er hraun all gróið, Biskupsbrekknahraun (9), sem nær niður að Almannagjá (10) og vestur að læk sem rennur niður á Leira.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Biskupsbrekknahraun inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.