Biskupsbrekkur

Google Maps
Ornefni Atlas Biskupsbrekkur 3420

Biskupsbrekkur

Biskupsbrekkur eru kjarrgrónar brekkur vestan Skógarhóla. Þær eru fremst á stórum hálsi sem skagar úr suðvestanverðu Ármannsfelli og heitir Bæjarfell er ofar dregur. Hraunið sunnan Biskupsbrekkna heitir Biskupsbrekknahraun.

Alfaraleiðir hafa öldum saman legið fram hjá Biskupsbrekkum. Norðlingavegurinn liggur að þeim úr suðvestri og tengist við þjóðleiðirnar undir Ármannsfelli. Vestan Biskupsbrekkna er komið að leiðunum um Leggjabrjót og Gagnheiði. Enn annar slóði liggur frá Biskupsbrekkum til suðausturs að LeynistígLoks er að nefna götu eina sem liggur yfir hálsinn ofan brekknanna milli Svartagils og Skógarhóla. Nú er malarslóði við rætur Biskupsbrekkna og liggur hann inn að Svartagili.

Biskupsbrekkur í frumheimildum

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Svartagilsland sem rituð var í kringum 1980–1985:

„Í austur frá túninu í Svartagili (1) er frekar mjór og langur dalur birki klæddur, Botnsdalur (2). Í suður frá honum er all hár háls, sem gengur úr Ármannsfelli (3) og breikkar þegar vestar dregur. Í honum miðjum er dalur, Leirdalur (4), vel gróinn og oft sleginn. [...]

Biskupsbrekkur (8) er vestur endi af hálsinum sem Leirdalur er í. Fram af Biskupsbrekkum er hraun all gróið, Biskupsbrekknahraun (9), sem nær niður að Almannagjá (10) og vestur að læk sem rennur niður á Leira.“

Kristján segir þá í örnefnaskrá sinni um Hrauntúnsland og afrétti Þingvallahrauns sem rituð var í kringum 1980–1985:

„Þar norðan við er breiður ás og nokkuð langur, Biskupsbrekkur (18), ofan í þeim miðjum er flöt uppgróin og slétt Leirdalur (19).“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, segir svo í sveitarlýsingu Gunnars Þórissonar um Þingvallasveit í Sunnlenskum byggðum III, 1983, bls. 178:

„Þeir sem ekki áttu erindi á Þingvelli en komu t.d. Kaldadal og ætluðu vestur yfir Mosfellsheiði, fóru frá Múlanum út með Biskupsbrekkum yfir Öxará á Norðlingavaði og fyrir neðan bæina Brúsastaði og Kárastaði út í gegnum Borgarskarð og þá voru þeir komnir á Mosfellsheiðargöturnar.“

Pétur merkti Biskupsbrekkur inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.

Heimildir

Tengd örnefni