Fjárhúsamúli

Google Maps
Ornefni Atlas Fjarhusamuli 16Fb

Fjárhúsamúli

Fjárhúsamúli (stundum ritaður Fjárhúsmúli eða Húsmúli) er múli sem gengur úr sunnanverðu Ármannsfelli milli Skógarhóla og Bolabáss. Fjárhúsamúli er nokkuð kjarrgróinn í hlíðunum og á honum er eitt vörðubrot. Lítið gil er austan í honum sem nefnist Grásteinsgil.

Múlinn er kenndur við fjárhús Svartagils sem standa í litlum krika vestan hans við eyðibýlið Múlakot.

Fjárhúsamúli í frumheimildum

Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni segir svo í grein sinni Örnefni í Þingvallahrauni í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1937–1939:

Bolabás er hvammur stór í Ármannsfelli, á milli Sleðaáss að austan og Fjárhússmúla (296) að vestan.“

Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Svartagilsland sem rituð var í kringum 1980–1985:

Framan við það eru birki klæddir hólar Skógarhólar (5). Austan við þá er háls úr fjallinu, Fjárhúsmúli (6), og neðst við múlann eru tættur frá fjárhúsum og einhverri mannabyggð, Múlakot (7).“

Kristján segir þá í örnefnaskrá sinni um Hrauntúnsland og afrétti Þingvallahrauns sem rituð var í kringum 1980–1985:

„Norðvestan við [Sleðaás] er all breiður hvammur sem kallast Bolabás (11). Í honum og fjallinu eru 2 gil, það eystra Básgil (12) en hitt ytra Grásteinsgil (13). Þar norðvestar kemur háls sem nær upp í fjallsbrún, Fjárhúsmúli (14). Vestan undir múlanum eru húsatættur sem hét Múlakot (15). Þar fyrir vestan er slétt svæði árunnið úr fjallinu notað sem keppnissvæði hestamanna. Austan við svæðið er all stór klettahóll og vestan við hann voru byggðar safnréttir í staðinn fyrir réttina við Sleðás.“

Guðmann Ólafsson, bóndi á Skálabrekku, segir svo í athugasemdum sínum við skrá um örnefni í afrétti Þingvallasveitar árið 1982:

„Fyrir vestan Básöxlina (8) er Húsmúli (50). Þar, undir Húsmúlanum, var bær, sem hét Múlakot (51) (Guðmann kannast ekki við nafnið Múlastaðir (9)). Tóftir eru þar ennþá.“

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í Þingvallaþönkum sem hann ritaði í kringum 1980–1985:

„Á múlanum sem [Múlakot] og fjárhúsin voru undir, hef ég heyrt fleiri en eitt nafn. Básmúli, Kotmúli og Fjárhúsamúli. Væri ekki rétt að nefna hann eftir hollvætti sveitarinnar og kalla hann ÁRMANNSMÚLA. Munnmæli herma, að oft hafi sézt ljós í hlíðinni fyrir ofan Skógarhóla og óvenju bjartar stjörnur skinu yfir Ármannsfelli.“

Pétur merkti múlann, er hann kallaði Húsmúla, inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.

Heimildir

Tengd örnefni