Gjábakkarétt
Gjábakkarétt er gömul fjárrétt við eyðibýlið Gjábakka í Þingvallasveit. Hún er staðsett við túnjaðar bæjarins að suðvestanverðu, framan við Réttarhól og upp við akslóðann sem liggur austur að Barmaskarði. Sunnan hennar liggur gömul leið suður að fjárhúsi Gjábakkabæjar og fram að Miðfelli.
Ekki er ljóst hvenær Gjábakkarétt var tekin í notkun en hennar er fyrst getið á opinberum vettvangi 1938, svo vitað sé. Forveri hennar gæti hafa verið innan í áðurnefndum Réttarhól, þar sem hlaðið hefur verið fyrir enda stórrar sprungu sem liggur eftir langhlið hans.
Gjábakkarétt er sögð hafa þjónað bæjunum Gjábakka, Miðfelli og Mjóanesi í austanverðri Þingvallasveit og komið í stað Þingvallaréttar við Skógarhóla eftir að landinu var skipt í sauðfjárveikihólf. Ekki er getið um réttarstörf í Gjábakkarétt eftir 1983.
Upprétt loftmynd af Gjábakkarétt frá maí 2025. Búið er að skerpa á útlínum réttanna líkt og þær eru túlkaðar á á mynd- og hæðargögnum, sem og loftmyndum Landmælinga Íslands frá 1982.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Veggir Gjábakkaréttar voru bæði úr grjóti og timbri. Dilkar hafa verið tveir til fjórir með rétthyrndum almenningi í miðjunni sem snýr frá austri til vesturs og hefur tengst safnhólfi að austanverðu. Nú eru útlínur veggjanna óljósar og búið er að hreinsa burt timburverkið. Grjóthleðslurnar eru að mestu jarðlægar og lausar í sér. Mest ber á nyrstu tveimur dilkunum og almenningnum. Þá hefur þriðji dilkurinn líklega verið sunnan við almenninginn; virðist hann hafa verið öllu stærri en hinir tveir og mögulega aflagður á undan þeim. Þá vottar fyrir fjórða dilknum, mjög litlum, við vesturgafl almenningsins.
Gjábakkarétt í heimildum
Gjábakkarétt sést glöggt á ýmsum loftmyndum frá Landmælingum Íslands, nú Náttúrufræðistofnun. Má þar helst nefna myndir frá 1966 (A-9411–9422), 1967 (B-1808) og 1982 (G-4989–5005).
Gunnar Þórisson frá Fellsenda og Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti segja svo í sveitarlýsingu Þingvallasveitar í Sunnlenskum byggðum III, 1983, bls. 205–206:
„Meðan engar hömlur voru á samgangi sauðfjár var oft margt fé í Þingvallarétt, einkum úr Grímsnesi. Einnig var þó nokkuð af fé úr Borgarfirði, Kjós og vestan yfir Heiði.
Á mæðuveikiárunum er hafinn sundurdráttur á Heiðarbæ og er enn. Eftir uppsetningu varnargirðinganna varð gjörbreyting á. Og nú er mjög fátt fé í Þingvallarétt. Austan varnarlínu er réttað í Gjábakkarétt.“
Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur segir í fornleifaskráningu sinni vegna mats á umhverfisáhrifum Gjábakkavegar 2003:
„35 x 35 m (NNA – SSV). Veggir úr grjóti, 1–2 m breiðir og 0,2–0,7 m háir. Sennilega hafa allavega fimm hólf verið á réttinni (hólf A—E). Dyr eru á þeim öllum og það fleiri en einar (sbr. teikn.). Réttin er löskuð, sérstaklega vestur- og austurhluti hennar. Tveir girðingarstaurar eru í eða við veggina og gaddavír og vír á stöku stað. Öll hólfin eru vel gróin nema hólf D. NA-hluti er ógreinilegur.“
Heimildir
Gunnar Þórisson & Pétur J. Jóhannsson. (1983). Þingvallasveit, sveitarlýsing. Í Sunnlenskar byggðir III (bls. 171–216). Búnaðarsamband Suðurlands.