Háasúla
Háasúla (einnig kölluð Mjóasúla og Stórasúla; Dagmálasúla á bænum Stóra-Botni) er einn af tindum Botnssúlna. Mörk þjóðgarðsins á Þingvöllum (áður Þingvallabæjar) eru ákvörðuð við Háusúlu og liggja þjóðgarðsmörkin þaðan að Myrkavatni annars vegar og Gatfelli hins vegar. Tvö gil eru í fjallshlíðunum norðan Háusúlu, utan þjóðgarðs, og kallast Stóragil og Súlnagil.
Þrátt fyrir nafnið er Háasúla (um 1006 m.y.s.) tæplega 100 metrum lægri en hátindur Botnssúlna, sem er á Syðstusúlu.
Háasúla í frumheimildum
Svo segir í landamerkjaskrá Þingvallabæjar, undirritaðri af séra Jens Pálssyni Þingvallapresti 1886 og þinglýstri 1890:
„Úr hornmarki þessu liggja landamerkin sjónhending í hæsta tind Kvikfjáryndisfells, þaðan í Mjóu-Súlu (eður Háu-Súlu), þaðan til Öxarár upptaka, eður þess staðar er Öxará rennur úr Myrkavatni [...]“
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Hrauntúnsland og afrétti Þingvallahrauns sem rituð var í kringum 1980–1985:
„Landamerki á sýslumörkum við Borgarfjörð voru frá Hrúðurkötlum (38) um Langahrygg (39) í vestur um Brunna (40) þá Kvígindisfell (41), Stórusúlu (42) og Kjalarhorn (43) og erum við þá komin að Kjósarsýslu.“
Helgi Jónsson segir svo í örnefnaskrá Stóra-Botns í Hvalfirði:
„11. Mjóasúla. Einnig nefnd Dagmálasúla. (dagmál frá Stóra-Botni)“