Meyjarsæti
Meyjarsæti (stundum ritað Meyjasæti) er bergstandur mitt á milli Sandklufta við norðurenda Hofmannaflatar. Nafnið er ekki endilega gamalt og skírskotar í sagnir af konum sem sátu þar yfir kappleikum á Hofmannaflöt. Gæti það tengst skáldsögunni Ármanns sögu þar sem Ármann í Ármannsfelli, Bárður Snæfellsás og fleiri hálftröll þreyttu þar kappi í fornöld.
Meyjarsæti í frumheimildum
Kristian Kålund textafræðingur getur Meyjarsætis í Íslenskum sögustöðum, 1. bindi, er kom fyrst út á dönsku árin 1877–1882. Svo segir í þýðingu Haraldar Matthíassonar, bls. 107:
„Eftir kjarri vöxnum hraungötum liggur leiðin norður með Ármannsfelli, fram hjá litlum ás, sem teygir sig suður frá fjallinu. Þaðan liggur leiðin inn á litla sléttu. Þar kemur á óvart að sjá ljómandi fallegan grænan grasblett, sem er á þrjár hliðar girtur bröttum hæðum. Þetta er Hofmannaflöt. Til vinstri (að norðvestan við flötina) rís stök keilumynduð hæð. Efst er toppmyndaður klettur, að lögun eins og skásneidd súla eða trjábolur, með greinilegri lægð, sem virðist eins og sæti, einkum ef horft er úr ákveðinni átt. Af þessu er nafnið dregið, Meyjasæti. Sennilega hafa menn gert sér í hugarlund að kletturinn væri dómarasæti kvenna og væri þaðan horft á viðureign riddara á flötinni. Nöfnin eru sennilega ekki allgömul. Er flötin nefnd í Ármanns sögu, sem er skáldsaga, og eru þar háðar glímur bergbúa.“
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá sinni um Hrauntúnsland og afrétti Þingvallahrauns sem rituð var í kringum 1980–1985:
„Kluftir (27) eru 2 leiðir sitthvoru megin við Sandklufta- vatn. Leiðin um Kaldadal og Uxahryggi lá um Ormavelli (28), fyrir Borgfirðinga og Norðanmenn og fór eftir vatnshæð hvoru megin farið var. Ef farið var með Ármannsfelli lá leiðin um Smjörbrekkuháls (29), sem er hálsinn sunnan við vatnið niður með Meyjarsæti (30) að vestan, erum við nú komin hringinn um Ármanssfell.“
Guðmann Ólafsson, bóndi á Skálabrekku, segir svo í athugasemdum sínum við skrá um örnefni í afrétti Þingvallasveitar árið 1982:
„Sandkluftir eru móbergsklettar, hálsar (og eiginlega fjöll) með skriðum og sandi, beggja megin við Meyjarsæti (55) og austan og suðaustan við vatnið.
Á Hofmannaflöt (23) á að hafa verið leikvangur til forna. Meyjarsæti rís rétt fyrir ofan (norðvestan við) Hofmannaflöt, uppi í Kluftunum (56). Það (Meyjarsætið) er hár bergstandur eða stallur, sléttur að ofan, með skriðum neðar. Konur áttu að hafa setið þar og horft á leikana á Hofmannaflöt.“
Ónefndur heimildarmaður segir svo í ódagsettri örnefnaskrá Svartagils:
„Norður af Meyjarsæti (35) er Smjörbrekkuháls (36), og Smjörbrekka (37) þar sem ekið er niður á sandana.“
Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi í Mjóanesi, merkti Meyjarsæti inn á útprentaða loftmynd á 9. áratug síðustu aldar við núverandi staðsetningu.
Heimildir
Kristian Kålund. (1984). Íslenzkir sögustaðir I. Sunnlendingafjórðungur. Haraldur Matthíasson þýddi. Örn og Örlygur.
Pétur J. Jóhannsson. (e.d.). Þingvallaþankar og lýsing eyðibýla. Örnefnastofnun Íslands.
Svartagil. (e.d.). [Heimildamaður ókunnur, Guðjón Friðriksson skráði]. Örnefnastofnun Íslands.